23.6.2012 | 15:54
Alan Turing dagurinn
Í dag, laugardaginn 23. júní, er Alan Turing dagurinn. Fyrir öld fæddist Alan Turing (23. júní 1912 7. júní 1954) enskur stærðfræðingur og rökfræðingur. Hann er þekktastur fyrir að finna upp svokallaða Turing-vél, sem er hugsuð vél, sem talin er geta reiknað allt sem reiknirit er til fyrir. Turing vélar hafa reynst mikilvægar fyrir framþróun tölva og tölvunarfræði.
Ef Alan hefði ekki fundið upp Turing-vélina, þá væri saga tölvunarfræðinnar öðruvísi en í dag. Internetið ekki til og því þessi færsla ekki skráð.
Lífshlaup Alan Turings var merkilegt og hann ákærður fyrir samkynhneigð. Leiddi það til þess að hann varð þunglyndur og tók eigið líf á besta aldri.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2012 | 20:27
Hvalhnúkur (522 m)
Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni, þeirri fyrstu á árinu hjá mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval. Þetta var því óvænt ánægja.
Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.
Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?
Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.
Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.
Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband: Já, nokkrar hringingar
Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.

Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.
Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort
Ferðalög | Breytt 23.6.2012 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2012 | 13:47
Tékkland og gullni pilsner-bjórinn
Tékkland og Portúgal leika í 8-liða úrslitum EM 2012 í dag. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag.
Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 159 lítrar á ári. Slá þeir út frændur okkar Íra með 131 lítra og Þjóðverja með 110 lítra. En þessi lið er öll í úrslitakeppni EM.
Fyrst Tékkland, land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen, musteri bruggmenningarinnar. Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery. Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu. Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 98% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.
Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager. Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, lagering.
Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell og anda að sér bjórsögunni. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 170 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.
Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2012 | 13:50
Hlíðarendi hinn eldri
Í tilefni af þjóðhátíðardegi okkar þá ætla ég að láta hugann aftur í tímann og beini sjónum mínum að málverki eftir Höskuld Björnsson, listmálara og sögunni á bak við konuna á myndinni en þegar ég heyrði hana þá varð myndin miklu stærri og meiri.
Hlíðarendi 1933 (31. hús Hafnar). Í þeirri merku bók, Saga Hafnar í Hornafirði eftir Arnþór Gunnarsson segir:
Árið 1933 byggði Guðríður Hreiðarsdóttir (1862-1945) íbúðarhúsið Hlíðarenda með aðstoð vina sinna og tilstyrk Nesjahrepps.
Guðríður þótti dálítið sérkennileg í háttum en hún hugsaði ætið vel um heimilið og gætti þess að eiga einhverjar góðgerðir að bjóða þegar gesti bar að garði. Þetta vissu börnin í þorpinu og þegar þau áttu leið inn Hafnarveginn komu þau ósjaldan við hjá Guðríði gömlu undir því yfirskyni að fá vatn að drekka. Af einskærri gestrisni bauð Guðríður krökkunum upp á kleinu eða ástarpung en til þess var leikurinn einmitt gerður.
Hlíðarendi var 20 fermetra lágreist timburhús í hlaðinu tóft með einu herbergi og eldhúskompu.
Sá þetta glæsilega málverk eftir Höskuld Björnsson í heimsókn í maí og smellti af mynd. Litirnir eru svo tærir og flottir. Brautarholt stendur ofar. Densilegt Ketillaugarfjall í skýjum fyrir ofan Guðríði sem var iðin að eðlisfari.
Glæsilegt olíumálverk eftir Höskuld Björnsson. Höskuldur hefur verið staðsettur með trönur sínar á Fiskhól.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 85
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 74
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar