Sköflungur (427 m)

Sköflungur er vestasti hryggurinn í fjallaklasanum austan Mosfellsheiðar. Hann er á Hengilssvæðinu.

Leiðalýsing:
Ekið eftir Suðurlandsvegi inn á Nesjavallaveg og lagt af stað í gönguna stuttu eftir að komið er upp fyrstu brekkuna á veginum. Sköflungur er vestasti hryggurinn í fjallaklasanum austan Mosfellsheiðar. Gengið norður hrygginn á móts við Jórutind og um Folaldadali til baka. Vegalengd 7 km.

Facebook lýsing:
Sköflungur er skemmtilegur hryggur sem minnti mig á Kattarhryggi á köflum bara ekki eins hátt og bratt niður. Við gengum hrygginn og svo niður í Folaldadal og gengum hann til baka

Klettaborgin á  enda Sköflungs minnti mig á Kofra, glæsilegt bæjarfjall sem trónir yfir Súðavík.

Sköflungur-klettaborg

Hryggurinn lætur ekki mikið yfir sér og fellur vel inn í umhverfið. Vörðu- Skeggi tekur alla athygli ferðamanna en hann er í 3,8 kílómetra fjarlægð í suður frá göngustað.
Búrfellslína liggur yfir Sköflung og tvö reisuleg möstur eru á hryggnum og ganga  menn í gegnum þau. Þessi kafli vekur umræðu um sjónmegnum og fegurðarmat. Sköflungur er ekki skilgreindur sem náttúruvætti og því hefur þessi leið verið valin fyrir rafmagnið en nú er krafan um að allar raflínur fari í jörð.  Á móti kemur að nálægðin við tignarlega risana er ákveðin upplifun sem er góð í hófi.

Eftir að hafa gengið á Sköflung kom mér í hug hversu mörg örnefni tengjast mannslíkamanum. Hryggur, enni, kjálki (Vestfjarðakjálki), bak, síða, barmur, bringa / bringur, geirvörtur, leggjabrjótur, haus, háls, höfuð, hné, hvirfill, hæll, kinn, nef, rif, tá, tunga, vangi, þumall og öxl.
Einnig bæjarnöfn; Kollseyra, Tannstaðir, Skeggöxl, Augastaðir, Kriki, Kálfatindar, Skarð, Kroppur og Brúnir.

Sköflungur-hryggur

Dagsetning: 25. maí 2011
Hæð: 373 metrar (nestisstopp) en einn hæsti punktur á hryggnum 427m
Hæð í göngubyrjun:  372 metrar, Nesjavallavegur, (N:64.07.420 - W:21.18.770)
Hækkun: 1 meter         
Uppgöngutími:  75 mín (19:05 - 20:20)  3,0 km
Heildargöngutími: 132 mínútur  (19:08 - 21:20), 8,61 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit undir klettaborg:  N:64.08.979 - W:21.18.382 (3 km ganga)
Vegalengd:  6,31 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart í vestri, S 3 m/s, 8,4 gráður. Raki 45%

Þátttakendur: Útivistarræktin, um 44 göngumenn, 14 bílar   

GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við Nesjavallaveg og móbergshryggur Sköflungs þræddur eins langt og menn treysta sér. Síðan er hægt að taka misstóran hring til baka. Við fórum eftir Folaldadal.  Stærri hringurinn er með stefnu á Jórutind og Hátind.

 


Stórhöfði (121 m)

Leiðalýsing:
Ekið til Hafnarfjarðar og í átt að Kaldárseli. Stefnt að Kýrskarði og áfram að Stórhöfða. Þaðan haldið að Selhöfða þar sem er gott útsýni yfir Hvaleyrarvatn. Síðan verða höfðarnir þræddir, Miðhöfði og Fremstihöfði á leið til baka. Vegalengd 9 km.

Facebook lýsing:
Var í góðri kvöldgöngu í góða veðrinu. Við gengum á Stórhöfða, Selhöfða, Miðhöfða, Fremstahöfða og einn ónafngreindan, þetta voru tæpir 9 km. í hrauni, grjóti, mosa og visnaðri Lúpínu sem er ekki skemmtileg yfirferðar. Þetta var samt frábær ganga og ég er alveg endurnærð eftir kvöldið :)  

Já, það má taka undir lýsinguna hér að ofan, það er erfitt að ganga í afgöngum af lúpínunni en síðustu höfðarnir voru umluktir henni og plantan ekki komin í skrúða. Þessi planta er landnemi á órgónum svæðum.

Storhofdi

Ímynd mín af höfðum féll ekki alveg að nafngiftinni, ég vil hafa þá mun tignarlegri en þessa hóla en í heimildum er minnst á Húshöfða og gæti hann verið ónafngreindi höfðinn sem við gengum á, milli Selhöfða og Miðhöfða.  Ofan af Selhöfða sást betur yfir Hvaleyrarvatn og vestan vatnsins  sér yfir skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús.

Dagsetning: 18. maí 2011
Hæð: 121 metrar
Hæð í göngubyrjun:  91 metrar, Kaldársel, (N:64.01.375 - W:21.52.130)
Hækkun: 44 metrar         
Uppgöngutími:  45 mín (19:05 - 19:50)  3,01 km
Heildargöngutími: 170 mínútur  (19:05 - 21:55), 8,61 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit Stórhöfði:  N:64.01.210 - W:21 .45.241 (135 m)

GPS-hnit Selhöfði:  N:64.01.99 – W:21.55.700    (98 m)

GPS-hnit Fremstiöfði: N:64.01.596 – W:21.53.741 (110 m)
Vegalengd:  8,61 km
Veður kl. 20 Reykjavík: Bjart, NA 4 m/s, 8,8 gráður. Raki 52%, skyggni >70 km.

Þátttakendur: Útivistarræktin, 44 göngumenn   

GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kaldárseli en hægt að hefja göngu á Stórhöfða nær honum. Þaðan eftir Stórhöfðahrauni að Stórhöfða. Þá sjást hinir höfðarnir, Selhöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði. Skemmtileg hringleið.

Hofdi

Stoppað á nafnlaustum höfða. Lúpínustönglar umluktu gönguleið. Til hægri sér í Selhöfða.

Heimildir:
Toppatrítl, Stórhöfði
Ferlir, Hvaleyrarvatn - Kaldársel - Kershellir

 


Grímsvatnagosið 1996

Það var eftirminnilegt Grímsvatnagosið 1996. Það kom mönnum ekki í opna skjöldu. Ég fylgdist náið með því og við héldum við á Eldsmiðnum út vefsíðu um gosið. Þá voru ekki til miðlar eins og mbl.is og visir.is. Þetta var ævintýralegur, krefjandi en skemmtilegur tími. Aðsókn var góð á eldhorn.is og flestar fyrirspurnir komu erlendis frá.

Í annál um eldgosið segir á mbl.is: "[A]ð morgni 29. september 1996 hófst óvenjuleg jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Jarðskjálftafræðingar stigu þá fram og spáðu því að gos gæti verið í aðsigi. Stóð hrinan fram á kvöld hinn 30. september en þá dró skyndilega úr skjálftum en stöðugur órói hófst. Markaði óróinn upphaf eldgoss og í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 30. september var gefin út viðvörun um að eldgos væri yfirvofandi í sprungu undir jöklinum milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Hinn 2. október hófst svo öskugos þegar gosið náði upp í gegnum jökulhelluna."

 Grimsvotn1996-800

Þessi mynd er tekin að morgni 2. október 1996 af Silfurbrautinni á Hornafirði, þegar eldgosið náði að bræða sig í gengum jökulhettuna og til varð Gjálp. Fyrstu fjóra dagana var kraftur eldgossins mestur.

Talið er að eldgosinu í Gjálp hafi lokið að kvöldi til hinn 13. október 1996 en tveimur dögum áður var farið að draga úr kraftinum. Hlaup kom svo úr Grímsvötnum nokkrum vikum síðar.

Frétt á eldhorn.is frá 1. og 2. október hljóði svona:

2. október - miðvikudagur
Eldgos sást í nótt kl. 4.47 og komu þá hvítir bólstrar upp úr íshellunni.Vitni voru að þessum atburði. Bjarni S. Bjarnason eigandi Jöklajeppa og jöklamaður.
Nú er aska farin að falla niður á Norðurlandi og bændur í Bárðardal hafa fengið fyrstu öskuna. Þar sem vart verður ösku eru bændur beðnir að taka sláturfé á hús.
Vegagerðin er að undirbúa aðgerðir á Skeiðarársandi og líklegt er talið að taka verði veginn í sundur til að brýrnar standist hlaup sem óttast er að koma muni úr Grímsvötnum í nótt eða á morgun.
Gosmökkurinn er nú kominn í 15.000 feta hæð.
Talið er að gossprungan sé orðin 10 km löng. Hún hefur lengst til norðurs og því er talið að vatn kunni að streyma í Jöklsá á Fjöllum.

Kl.17.00
Nýr ketill hefur myndast norðan við hina tvo og sprungan lengst um 2 km. en gosið er á einum stað.
Loka á umferð um Skeiðarársand kl. 23.00 í kvöld. Búið að gera ráðstafanir til að rjúfa veginn til að bjarga brúnni en 1.500.000 milljónir eru í húfi.
Rennsli í Grímsvötn er 5.000 m3 á sekúndu eða sem samsvarar 10 sinnum rennsli Þjórsár.

1. október - þriðjudagur
Tveir katlar sáust á þriðjudag og fóru þeir sífellt stækkandi. Þeir eru á eldgosasvæði sem er kallað Loki.


Heimildir

mbl.is og eldhorn.is


Grímsvötn rjúka upp í vinsældum á Google

Það er hægt að nota Google-leitarvélina til að mæla vinsældir.  Ég hef fylgst með leitarniðurstöðum eftir að eldgos hófst í Grímsvötnum síðdegis, laugardaginn 21. maí.

         Grímsvotn        Eyjafjallajökull       Vatnajökull
22.maí137.000496.000543.000
23.maí164.0002.850.000544.000
23.maí2.140.0003.070.000562.000

 _52926594_012055667-1

Forsíður helstu vefmiðla Evrópu fjölluðu um tafir á flugi í dag og því ruku Grímsvötn upp í vinsældum, úr 164.000 leitarniðurstöðum í 2.140.000 á sólarhring sem er þrettánföldun!

Eyjafjallajökull rauk upp þegar gosið í Grímsvötnum hófst. Fólk hefur farið að rifja upp hremmingar á síðasta ári. Vatnajökull heldur sínu striki, tekur ekki á skrið.

Til leiðinda má geta þess að IceSave er með um 6.000.000 niðurstöður og eiga náttúruhamfarir lítið í þær manngerðu hamfarir.


mbl.is Um 500 flugferðir felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti garðslátturinn

Vorið er á áætlun í Álfaheiðinni í ár þrátt fyrir kaldan og leiðinlegan apríl.

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var í gærdag, fjórum dögum á eftir fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá átta sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur.

Sprettan var mikil á austurtúnunum. Má þetta grasfræinu sem borið var á fyrir mánuði. Aspirnar fallnar fyrir nokkru og grasið nýtur sín í sólinni. Fáir túnfíflar sáust.

Grassprettan var í sögulegu hámarki í fyrra og má skrifa hluta af vextinum á gosefni úr Eyjafjallajökli. Nú er spurning um hvort aska úr Grímsvötun hafi áhrif á sprettuna.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. Þessar tölur segja að vorið í ár var hagstætt gróðri SV-lands. En mikil breyting varð að morgni mánudgsins 9. maí en þá var sólríkt daginn áður og úrkoma um nóttina.

2010    17. maí
2009    21. maí
2008    15. maí
2007    26. maí
2006    20. maí
2005    15. maí
2004    16. maí
2003    20. maí
2002    26. maí
2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið svipað og síðasta ár.


Kerhólakambur (851 m)

Þær eru margar gönguleiðirnar á borgarfjallið Esjuna. Fyrir 8 árum var gefið út gönguleiðakort með 40 gönguleiðum á Esjuna.  Þekktasta  og fjölfarnasta gönguleið landsins liggur á Þverfellshorn en önnur vinsæl gönguleið er Kerhólakambur. Nú var ákveðið að kíkja á kerin.

Ekið út af Þjóðveg við veðurathugunarmastur rétt áður en komið er að Esjubergi og lagt fyrir austan túnið. Síðan liggur leiðin eftir skýrum stíg inn í gilkjaft Gljúfurár og þaðan upp úr gilinu og svo beina stefnu upp bratta hlíð all á topp Kerhólakambs. Þessa leið fórum við ekki, heldur fylgdum við öðrum slóða og lentum í miklu klettaklifri sem minnti á topp Þverfellshorns.  Lagðist hún illa í suma göngumenn.

Í 300 metra hæð gengum við inn í þokubakka og sást lítið til allara átta eftir það en göngustígur sást greinilega enda hlíðin gróðursnauð. Þegar komið var i 400 metra hæð,  þá var meiri gróður og hvarf göngustígurinn göngufólki. Nær gróðurinn allt upp fyrir Nípuhól. Hóllinn er í rúmlega 500 metra hæð og tilvalinn áningarstaður.  Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Nípuhól.

En hvernig er nafnið, Kerhólakambur tilkomið?  Sigurður Sigurðsson göngugarpur og ofurbloggari skrifar:  „Fyrir ofan Nípuhól heita Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, sem eru lægðir á milli hóla."

Kerin

Kerin og hólarnir  í Urðum  (660 m) 

Við höfðum þetta í huga á leiðinni upp og í 660 metra hæð komum við að staðnum sem lýsingin hér að ofan á við.  Var snjór í flestum kerjunum. Nokkrir snjóskaflar voru á leiðinni og gengum við upp einn langan sem hófst í 740 metrum og endaði í 800 metrum. Við áttum eftir að renna okkur niður hann á bakaleiðinni. Er hann samt væskinslegur séður frá borginni. Stór skafl er í vesturhlíð Kerhólakambs og munum við góna á hann í sumar rétt eins og Páll Bergþórsson veðurfræðingur.

Fín þokuferð sem verður endurtekin síðar og þá með hringleið og komið niður Þverfellshornið.  

Dagsetning: 14. maí 2011
Hæð: 851 metrar
Hæð í göngubyrjun:  56 metrar, tún austan við Esjuberg, (N:64.12.985 - W:21.45.800)
Hækkun: Tæpir 800 metrar         
Uppgöngutími:
  142 mín (09:08 - 11:30)  2,01 km
Heildargöngutími: 252 mínútur  (09:08 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit fyrri varða:  N:64.14.210 - W:21 .45.241
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 9 Reykjavík: Bjart, V 3 m/s, 5,0 gráður. Raki 84%, skyggni 70 km.
Veður kl. 12 Reykjavík: Bjart, V 2 m/s, 5,8 gráður. Raki 81%, skyggni 70 km.
Þátttakendur: Skál(m), 5 manns  
GSM samband:
  Já – sérstaklega gott á toppi

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað hjá Esjubergi, inn Gljúfurdal. Þar er mesti brattinn tekinn, erfiðasti áfanginn, í 200 metra hæð. Nota þarf hendur til stuðnings. Eftir það er jöfn gönguhækkun og tvö gil á báðar hendur sem beina göngunni á topp Kerhólakambs.  Skriðuganga með tröðum.

Heimildir:

Sigurður Sigurðarson,  sigurdursig, Kerhólakambur
Morgunblaðið, frétt, Nýtt kort af Esju með 40 gönguleiðum


Nautagil

Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.

Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.

Nautagil

“Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér”. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi.  Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa  enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, “Hvað voru naut að þvælast hér?”.

Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.  Kíkjum á frásögn Óla Tynes í  Morgunblaðinu  4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum. 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush?  Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst.  Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.  Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni.  Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann.  Nota geimfarana  og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!

Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans. 


mbl.is Geimfarar í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag eða morgun. En það verður ljóst þegar flautað verður til leiksloka í leik Sprus og Blackpool síðdegis.

En St. Totteringham's dagurinn er  dagurinn þegar Tottenham getur ekki náð Arsenal að stigum í Úrvalsdeildinni. Munurinn á liðunum er 12 stig og sami stigafjöldi í pottinum hjá Spurs. Vinni Spurs ekki sigur eða Arsenal nái stigi þá hefst hátíðin.

Fyrir marga Arsenal menn er St. Totteringham's day stærri dagur en jóladagur. Sérstaklega fyrir þá sem búa nálægt stuðningsmönnum Spurs.

St. Totteringham's dagurinn getur því verð breytilegur og rennur hann upp frekar seint á þessu ári. Í fyrra var St. Totteringhamsdagurinn í lokaumferðinni.

Fyrir þá sem hafa áhuga á meiri tölfræði um St. Totteringham's daginn, þá er hér ágætis yfirlit frá 1971.

Einnig er hægt að njóta dagsins með félögum á Facebook.


mbl.is Jafntefli á White Hart Lane
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2011
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 297
  • Frá upphafi: 236823

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 244
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband