Fyrsti slátturinn

Vorið er snemma á ferðinni í Álfaheiðinni í ár. 

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var síðdegis, tæpum tveim vikum á undan fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá tíu sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur. Aspirnar okkar eru frekar fáklæddar. Það má segja að þær séu í gegnsæjum kjól Ræturnar þeirra eru sífellt að stækka og farnar að hafa áhrif á nánasta umhverfi.

Flesjan er frekar missprottin og mikill vöxtur á vestari grasbalanum inni í húsasundinu og gaf hann af sér nokkra hestburði og kalblettir eru fáir. Sprettan er róleg á austurtúnunum en aspirnar taka eflaust mikla orku frá grassprettunni og skyggja á sólina. Aspirnar verða fjarlægðar brátt en þær eru orðnar það stórar að þær skyggja á húsið og húseigendur hræddir um að ræturnar fari að koma upp um klósettið eða baðkarið. 
Nokkrir túnfíflar sáust og var sláttuvélinni stefnt á þá. Hafa þeir ekki sést síðan.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. En slátturinn í dag er á sama tíma og árin 2004 og 2005.

2007    26. maí 

2006    20. maí

2005    15. maí

2004    16. maí

2003    20. maí

2002    26. maí

2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið hlýrra  en síðustu tvö ár.  Góðu fréttirnar eru þær að minna er um fífla í maí heldur en fyrri ár. 


U2 3D *****

Fór á þrívíddartónleika með U2 í gærkveldi, íklæddur græna U2 bolnum til að samfagna Bono. Tónlistakvikmyndin U2 3D var sýnd í Álfabakka á Hvítasunnudag en það voru því miður fáir á tónleikum. Myndin er unnin eftir nýrri tækni sem þróuð hefur verið hjá 3ality Digital og er hin magnaða rokkhljómsveit, U2 sem breiðir út tæknina í samstarfi við hina virta miðil National Geography.  Fylgir hún eftir  kvikmyndinni  Rattle and Hum framleidd af U2-félögum fyrir 20 árum og braut sú kvikmynd ákveðið blað í rokksögunni.

                                                    200px-U2_3D_poster

Helsti gallinn við myndina U2 3D er að hún er of stutt. Rokktónleikarnir standa aðeins yfir í 85 mínútur og renna fjórtán lög í gegn en fyrir vikið er mörgum góðum lögum er sleppt. Hljóðið er mjög gott og myndataka stórgóð. Enda voru notaðar 18 tökuvélar á níu tónleikum í fimm löndum. Upplifunin er góð og Bono kemur nokkrum sinnum beint til okkar með boðskap sinn. Þetta er mjög vel gert hjá framleiðendum og fara þeir sparlega með það en í sumum þrívíddarmyndum er þetta bragð ofnotað. Flottasta sjónarhornið er þegar trommarinn Larry Mullen er sýndur við iðju sína, trommusettið er eins og frumskógur. Einnig er gaman að hvernig tónleikagestir sem sitja á herðum annara í þvögunni er nýttir í sviðsmyndina.

Ég fór á Vertigo tónleika fyrir þrem árum í London til að læra að aftengja kjarnorkusprengju og fór í gær til að rifja upp góða tíma. Búið er að taka út Afríkuboðskapinn í myndinni. Baráttunni gegn fátækt en Bono hvetur fólkinu í S-Ameríku til dáða í staðinn.  

Þrátt fyrir að vera næstum kominn á tónleikastaðinn, þá nær myndin ekki upp stemmingunni sem er á tónleikum sjálfum. Gæsahúðin kemur ekki eins oft upp. Eitt lag sem er í myndinni hreif mig mjög og var ekki á tónleikum sem ég var á, en það er þegar Bono syngur lagið Miss Sarajevo. Þá nær hann vel til fólksins sem var stundum eins og stór síldartorfa í myndinni. Fagnaðarlæti þeirra voru ósvikin þegar hann tónaði efstu tóna og sló nærri út sjálfan Pavarotti. Mér fannst vanta örlita gleði í sveitina  og tónleikagesti  í byrjun myndarinnar en stemmingin eykst er á líður. Kanski er maður of upptekin af allri upplifuninni í þrívíddinni. Maður tekur eftir mörgun smáatriðum sem fóru framhjá á tónleikunum.

Að lokum hvet ég áhorfendur til að hlusta vel þegar lagið Pride kemur en það fer ekki framhjá neinum, það byrjar svo kröftuglega. Í upprunalega laginu syngur Bono, "Early morning April 4" en það er sögufölsun því Marteinn Luther var myrtur "Early evening April 4" eða klukkan 18.01 og er því sagan leiðrétt í myndinni.

Þetta er mynd sem allir U2 aðdáendur eiga að mæta á og einnig þeir sem ekki eru U2-aðdáendur. Þetta er mynd fyrir fólk sem hefur áhuga á tónlist og tækni, það fær helling fyrir tólfhundraðkallinn.

Ég skrifaði fyrir nær þrem árum pistil á Huga.is um Vertigo-tónleikana. Tengill í hann fylgir hér.


mbl.is Bono með afmælisboð í Mónakó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afkomumælingar á Mýrdalsjökli

Jöklarannsóknarfélag Íslands fór í árlega afkomumælingaferð á Mýrdalsjökul í dag. Ég jöklaáhugamaðurinn og jöklasafnarinn skellti mér í ferð. Ég fékk far með þeim bræðrum Guðmundi Þorra og Tómasi Jóhannessonum á nýbreyttum Toyota Land Cruiser, frábær fjallabíll. Það var þægileg og skemmtileg ferð.

Lag var af stað úr Höfuðstaðnum kl. 7 í morgun og stefnan sett á Mýrdalsjökul um Sólheimaheiði. Veðrið á Hellisheiði var ekki glæsilegt, úrkoma og rok en einn leiðangurstjóranna, Hálfdán Ágústsson, veðurfræðingur var búinn að rýna í kort og fann dag um helgina hvítu á milli lægða. Gekk spáin eftir og lagaðist veðrið er austar dró.

Boraðar voru  þrjár afkomuholur með kjarnabor og notið þess að vera á jöklinum.
Bráðabirgðaniðurstöður sýndu að afkoma Mýrdalsjökuls var svipuð og í fyrra. Í fyrstu holu var afkoman 11.77 m.  Önnur holan gaf tæpa tíu metra og sú þriðja var rúmir 9 m.

Það voru ungir og duglegir bormenn, vel skipulagðir og nákvæmir vísindamenn með í ferð. Einnig margir félagar í Jöklarannsóknarfélaginu mættir til að styðja við bakið á bormönnum. Tveir jeppar með jöklaáhugamenn komu frá Hornafirði. Það var gaman að vera innan um ungliðana í JÖRFÍ, þeir voru mjög hjálplegir, duglegir og gáfu sér góðan tíma til að útskýra leyndardóma jökulsins.

Mér var hugsað til eldstöðvarinnar Kötlu sem var fyrir sunnan okkur er við vorum að bora. Hún lét ekki á sér bæra en hún er vel vöktuð af jarðvísindamönnum og við hefðum ekki komist upp á jökul ef hætta hefði verið á ferð.

IMG_9305

Gyða að raða ískjörnunum í réttri tímaröð.

Ískjarnarnir sem sóttir voru í Mýrdalsjökul með snjókjarnabor voru vegnir og mældir. Hitastig í þeim var mælt á 10 cm bili og var nýjasti ísinn +0,5 gráður heitur en kólnaði þegar neðar dró. Hæsta gildi var -4.0 gráður en svo hlýnaði aftur er kom að árskilum, þ.e. síðasta haust en þá var hitinn um frostmark.  Þyng hvers kjarna var skráð og lengd og þykkt til að finna eðlismassa. Kjarnarnir í miðri holunni voru flottastir, langir og hreinlegir en þar var úrkoman í vetur geymd.

Þegar komið var að ársskilum, var rör sett í holuna og hún staðsett nákvæmlega með nýjustu GPS-tækni. Holunar verða síðan heimsóttar í haust og þá verðurhægt að sjá hvað mikið hefur bráðnað, eða hversu mikinn skatt jökullinn hefur greitt. Líklegt er að 5 til 6 metrar fari ofan af jöklinum í sumar.

IMG_9285

Bormenn í um 1400 metra hæð að ná í gögn í jöklinum.  Jöklarnir vita svo margt! JÖRFÍ á þennan öfluga bíl. Fólk á mynd: Ágúst, Einar, Skafti, Hálfdán, Sveinn, Hrafnhildur, Bergr og Jóhanna.

Vísindin efla alla dáð


Morgunganga FÍ

Vaknaði árla í morgun. Tók þátt í morgungöngu Ferðafélags Íslands ásamt nokkrum vinnufélögum.  Þetta var fjórða morgunganga félagsins. Það er nauðsynlegt að sprengja upp formið.  Göturnar voru bíllausar í morgun. Þrír fyrstu bílarnir sem ég mætti voru hreinsibílar. Sópuðu þeir upp óhreinindum af götum borgarinnar.

Stefnan var sett á Helgafell í Mosfellssveit. Fimmtíu og tveir árrisulir göngugarpar mættu til leiks. Þeir voru jafnmargir spilunum í spilastokki. Páll Ásgeir Ásgeirsson tók upphitun með hópnum og minnti okkur hversu heppin við værum að vera til í þessu milda veðri.  Eftir nokkrar slökunaræfingar var halið á fellið. Komið við á gulleitarslóðum og fróður innfæddur Mosfellingur Bjarki Bjarnason sagði okkur frá því sem fyrir augu bar.   Við rætur Helgafells voru stríðsminjar. Sjá mátti undurstöður vatnstanka en tíuþúsund hermenn bjuggu við rætur Helgafells. Á toppnum rákumst við á leifar af birgi, líklega stríðminjar. Síðan var haldið í austur eftir því endilöngu niður í mynni Skammadals og þaðan vestur með fjallsrótum að bílastæðinu. Hressandi morgunn!

Palli-Helgafell-600

Ég á uppleið og vel klæddur. Er ávallt með þennan hatt í fjallaferðum.   Mynd félagi Marc

 

Palli-Helgafell2-600

Mynd félagi Marc.

IMG_9228


Hjólað í vinnuna

Það var greinilegt að borgarbúar ætla að taka virkan þátt í átakinu, Hjólað í vinnuna. Ég var að vísu snemma á ferð í vinnuna í morgun en Fossvogurinn var morandi í hjólafólki. Ég var heppinn að verða ekki hjólaður niður nokkrum sinnum.  Hjólreiðamenn voru á öllum aldri.  Einnig mætti ég nokkrum manneskjum á gangi, það hefur verið sjaldséð sjón í Fossvogsdal. Ég hef yfirleitt átt dalinn.

Jæja, fjórir kílómetrar komnir sarpinn.


Góða ferð Flamini


Hún er orðin langdregin og leiðinleg sápusagan af Flamini og nýja samningnum. Fyrst kom kvittur  á kreik í mars um að kappinn myndi yfirgefa Vopnabúrið, síðan hefur málið dregist og nú í dag er lokadagur.

Flamini kom til Arsenal frá Marseille 23. júlí 2004 og fyrsti leikur hans var innáskipting fyrir Gilberto Silva í leik gegn Everton í 4-1 sigri á Goodison Park.
Hann notaði sömu aðferð er hann kom til Arsenal og hann notar núna. Lét samninginn renna út og hélt spilum sínum þétt að sér. Eflaust góður pókerspilari með mikið sjálfstraust.

Hann gekk ekki beint inn í ósnertanlegt lið Arsenal. Hann þurfti að sanna sig. Fyrsta tímabilið hóf hann þó leik níu sinnum og kom inná í tólf leikjum.

Leikmaður númer 16, Flamini var kynntur til sögunnar á sama tíma og Cesc Fabregas.  Ég man eftir því að hafa lent í viðtali árið 2005 á Skjá Sport í þættinum Liðið mitt er Böðvar Bergsson stjórnaði
Þar var ég beðin um að leggja mat á nýju leikmennina tvo sem voru að brjóta sér leið inn í Arsenal-liðið.  Ég spáði Fabregas miklum frama og að hann ætti eftir að verða stórstjarna. En Flamini væri svona Grimandi týpa.
Þannig mátum við Flamini í lok árs 2005.  Grimandi týpa er leikmaður sem hægt er að nota víða á velli og er ekki stórstjarna. Lætur verkin tala og vinnur verkin hægt og hljótt. "Unsung hero", kallar Tjallin þessa leikmenn, nauðsynlegir í öllum liðum. 

Þessi orð voru höfð eftir Wenger fyrir rúmum mánuði.
„Samvinna þeirra Fabregas og Flamini er sú besta sem ég hef kynnst hjá Arsenal. Þeir hafa báðir afburða tækni og eru hreyfanlegir. Kannski má segja að þeir séu ekki jafn líkamlega sterkir og Vieira og Flamini en skilningur þeirra á leiknum er til fyrirmyndar og þeir bakka hvorn annan upp einstaklega vel.“

Flamini stóð vaktina frábærlega í vinstri bakverði og hjálpaði Arsenal alla leið i úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.  Flamini kom inná fyrir Fabregas í úrslitaleiknum geng Barcelona. Ekki ætla ég að kenna skiptingunni um tapið en tvö mörk komu í ljós hjá Barcelona skömmu eftir skiptin. En franska stoltið sagði svo til sín. Hann neitaði að spila vinstra meginn í vörninni.


Í byrjun síðasta keppnistímabils leit út fyrir að Flamini færi frá Arsenal og myndi kaupa upp samninginn. Eftir góðan fund ákvað hann að verða um kyrrt og bíta á jaxlinn. Hann kom fílefldur inn í þetta keppnistímabil og var stálið á miðjunni með Fabregas. Fyrirliði Brasilíumanna, Gilberto Silva hafði fyrir vikið sætaskipti við hann á varamannabekknum.

Flamini kom mikið við sögu í fyrsta leiknum sem ég sá á Emirates við Wigan í febrúar 2007.  Leikmaðurinn þindarlausi kom inná um miðjan seinni hálfleik, á 67. mínútu en Wigan leiddi leikinn og það stefndi í fyrsta tapið á Emirates.
Skyndilega kom stungusending inn fyrir vörn Arsenal og hinn tröllvaxni Heskey fékk boltann. Flamini veitti honum eftirför og slengdi hönd í öxl sóknarmannsins þegar þeir voru komnir inn í vítateig. Heskey féll við, eins og  hann hefði verið skotinn.
Dómarinn lét leikinn fljóta áfram. Boltinn barst til markvarðarins, Lehmann's sem skipti um kant með því að henda knettinum til hægri.  Sending kom áfram og hver haldið þið að sé mættur hægra meginn á miðjuna. Jú, leikmaður númer 16, Flamini.
Hann er örlítið fyrir innan vörn Wigan sem hafði varist vel er hann fékk boltann og sending fyrir markið frá honum orsakaði sjálfsmark hjá Hall á 81. mínútu.  Fyrsta tapinu á Emirates var afstýrt. Þökk sé Flamini. Nokkru síðar skoraði Rosicky sitt fyrsta deildarmark og tryggði stigin þrjú.

En það kemur maður í manns stað.  Líklega fer Gilberto í sumar. Denilson og Song  eru kandídatar en etv. verður kíkt á markaðinn og verslað eitthvað meira en efnilegt efni.

Góða ferð Flamini og gangi þér vel á varnarsinnaðri Ítalíu. Hafðu þökk fyrir 153 leiki og átta mörk.

Í dag er leikur Arsenal og Everton, skyldi síðasti heimaleikur Flamini hjá Arsenal enda 4-1?

Flamini og Fabregas


mbl.is Flamini sagður vera búinn að semja við AC Milan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2008
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 110
  • Frá upphafi: 236938

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 94
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband