31.12.2011 | 00:22
Árið kvatt með Kampavíni frá Gulu ekkjunni
Það er góð hefð að skála í freyðivíni um áramótin. Áramótin eru tími freyðivínanna. Gula ekkjan verður fyrir valinu í ár.
Sagan á bakvið kampavínið hefst í héraðinu Champagne í Frakklandi árið 1772. Þá stofnaði Philippe Clicquot-Muiron, fyrirtækið sem með tímanum varð house of Veuve Clicquot. Sonur hans François Clicquot, giftist Barbe-Nicole Ponsardin árið 1798 og lést hann 1805. Því varð Madame Clicquot ekkja 27 ára gömul og stóð uppi með fyrirtæki sem var í bankastarfsemi, ullariðnaði og kampavínsframleiðslu. Hún átti eftir að hafa mikil áhrif á síðasta þáttinn.
Þegar Napóleon stríðin geysuðu náðu vínin útbreiðslu í Evrópu og sérstaklega við hirðina í Rússlandi. Aðeins 7% af framleiðslu fyrirtækisins selt í Frakklandi, annað var selt á erlenda markaði. Þegar ekkjan lést 1866 var vörumerkið orðið heimsþekkt og sérstakega guli miðinn á flöskunni. Því fékk vínið nafnið Gula ekkjan. En veuve er franska orðið yfir ekkju.
En Barbe-Nicole Ponsardin var frumherji. Ekkjan fann upp nýja aðferð við að grugghreinsa kampavín. Hún og starfsmenn hennar hófu að stilla kampavínsflöskum í rekka þannig að hálsinn snéri niður. Þá þurfti annað slagið að hrista og snúa flöskunum í rekkunum, til þess að óhreinindin söfnuðust öll að tappanum. Flaskan var opnuð og það fyrsta sem þrýstingurinn losaði úr flöskunni var gruggið. Þetta þýddi að mun minna fór til spillis en áður hafði gert. Fram að þessu hafði vínið verið geymt á flöskunum liggjandi á hliðinni og safnaðist botnfallið niður á hlið flöskunnar. Þetta hafði það í för með sér að umhella þurfti öllu víninu og alltof mikið úr hverri flösku fór til spillis. Nú var aðeins örlítið af víninu sem tapaðist og einungis þurfti að fylla smá viðbót á hverja flösku til að vera kominn með vöruna í söluhæft form. Þessi aðferð Ponsardin ekkjunnar fékk nafnið Méthode Champenoise.
Það er allt annað að drekka Kampavín í lok ársins þegar maður þekkir söguna á bakvið drykkinn. Vín með sögu og persónuleika. Viðing við drykkin eykst og þekking breyðist út. Þroskaðri vínmenning verður til. Konur ættu hiklaust að hugsa til ekkjunnar við fyrsta sopa og hafa í huga boðskapinn fyrir 200 árum.
Alvöru dömur áttu ekki að innbyrða neitt nema humarsalat og kampavín og kampavín á að vera eina áfengið sem gerir konur fallegri eftir neyslu þess.
Í Fréttatímanum segir um Veuve Clicquot Ponsardin Brut: Þurrt með mildum sítruskeimi sem sker í gegn en þó gott jafnvægi á tungunni milli beiskju og sætu. Þegar á líður kemur pera og meiri ávöxtur í gegn. Mjög gott Kampavín. Áfengisstyrkur, 12%. Fær drykkurinn 4 glös af 5 mögulegum í einkunn.
Heimildir:Bar.is Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 12. hluti, gula ekkjan
Facebook Gula ekkjan
Fréttatíminn Matur og vín
Vinbudin.is Veuve Clicquot Ponsardin Brut
Wikipedia Veuve_Clicquot
26.12.2011 | 20:17
Smyrlu vantar vatn í sig
Ský, ský ekki burt með þig.
Smyrlu vantar vatn í sig.
Ský, ský rigndu á mig.
Einhvernvegin svona var textinn sem Hornfirsk ungmenni sungu um jólin 1973 og sneru úr vinsælu lagi, Sól skin á mig, sem Sólskinskórinn gerði vinsælt á því herrans ári.
En þá voru vötn Smyrlabjargaárvirkjunnar vatnslítil og rafmagnsframleiðsla í lágmarki. Því þurfi að skammta rafmagn. Þorpinu var skipt í tvö svæði og fékk hvor hluti rafmagn tvo tíma í senn yfir háannatímann.
Myrkrið var svo þétt að fólk komst tæplega milli húsa, og næturnar svo dimmar að maður týndi hendinni ef hún var rétt út.
Fyrir krakka var þessi tími skemmtilegur og ævintýraljómi yfir bænum en fullorðnir voru áhyggjufullir. Indælt var myrkrið, skjól til að hugsa í, hellir til að skríða inn í en myrkhræðslan var skammt undan. Frystihúsið gekk fyrir og helstu iðnfyrirtæki. Skólanum var stundum seinkað og man ég eftir að hafa mætt klukkan 8 einn morguninn og enginn annar. Ég hafði misst af tilkynningunni. Mér leið þá eins og nafna mínum sem var einn í heiminum. Það var eftirminnilegur morgunn.
Svarthvíta sjónvarpið var það öflugt að hægt var að tengja það við rafgeymi úr bíl. En tveir bifvélavirkjar sem bjuggu á staðnum virkjuðu þessa tækni. Því var hægt að horfa á sjónvarpið í rafmagnsleysinu og man ég sérstaklega eftir þætti úr Stundinni okkar. Bjargaði þetta sunnudeginum hjá krökkunum á Fiskhólnum. Það mátti ekki missa af Glámi og Skrámi.
En svo kom skip til rafmagnslausa þorpsins. Ljósavélarnar á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni gátu leyst vandann tímabundið. Það var mikil og stór stund þegar skipið sigldi inn Ósinn, flestir ef ekki allir bílar bæjarins mættir til að heiðra bjargvættinn. Mig minnir að bílaröðin hafi ná frá Óslandi, óslitið að Hvammi. Stemmingin var mikil.
Frétt úr Morgunblaðinu 30. desember 1973 um orkuskort á Höfn og í nágrannasveitum.
Frétt úr Þjóðviljanum, 8. janúar 1974 en þá var lífið orðið hefðbundið. Gastúrbína komin á hafnarbakkann og Smyrla farin að rokka.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2011 | 14:37
Örugg fram í maí 2012
Gott að fá þetta vísindalega staðfest með spennu í berginu. Afkomumælingar sýna að 9 til 12 metrar bætast ofan á Mýrdalsjökul yfir veturinn.
Vísindamennirnir sem skrifa í ScienceNews telja umdeildu gosin með sem komu öll í júlí, óróann árið 1955, 1999 og núna í ár en gosið 1918 var alvöru.
Kíkjum á síðustu eldgos í Kötlugjánni.
Ár | Dagsetning | Goslengd | Hlaup | Athugasemd |
1918 | 12. október | 3 vikur + | 24 | Meiriháttar gos |
1860 | 8. maí | 3 vikur | 20 | Minniháttar |
1823 | 26. júní | 2 vikur + | 28 | Minniháttar |
1755 | 17. október | 4 mánuðir | 120 | Risagos |
1721 | 11. maí | Fram á haust | >100 | Mikið öskugos |
1660 | 3. nóvember | Fram á næsta ár | >60 | Öskufall tiltölulega lítið |
1625 | 2. september | 2 vikur | 13 | Minniháttar, flóð frá 2.-14. sept. |
1612 | 12. október | Minniháttar | ||
1580 | 11. ágúst | Öflugt, Urðu þytir í lofti |
En talið er að um 15 önnur eldgos hafi orðið í Kötlugjánni frá landnámi.
Allt stemmir þetta og því getum við sofið róleg yfir Kötlu framí maí 2012. Október er líklegastur.
Heimildir:
Katla, saga Kötluelda, Werner Schutzbach, 2005
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009
![]() |
Katla virkari á sumrin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2011 | 19:56
Senn bryddir á Kötlu
BBC hefur áhyggjur af Kötlugosi. Fjölluðu þeir um komandi eldgos í grein í gær, "New Icelandic volcano eruption could have global impact". Eru þeir minnugir Eyjafjallagosinu í maí 2010 og áhrif þess á flugumferð.
Fjölmiðar víða um heim hafa vitnað í fréttina og endurómað áhyggjur sínar.
Jarðeðlisfræðingar eru hógværir og gefa yfirlitt loðin svör þegar þeir eru beðnir um að spá fyrir um næsta gos eða hve lengi gosið muni standa yfir sé það í gangi. En ég man eftir einni undantekningu.
Spáir Kötlugosi innan fimm ára
Árið 2004 kom góður greinarflokkur í Morgunblaðinu um Kötlu og spáði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður á Norrænu eldfjallastöðinni, því að Katla myndi gjósa eftir 2-3 ár eða í mesta lagi eftir 5 ár. Hann segir þrjú merki benda til þess að Kötlugos verði á næstu árum.
"Viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti á undanförnum árum. Þessi þrjú merki hafa verið viðvarandi frá árinu 1999 og það virðist ekki draga neitt úr atburðarásinni. Þess vegna tel ég að fjallið sé komið að þeim mörkum að það bresti á allra næstu árum,"
Nú er árið 2012 að og ekki bólar á gosi sem senn kemur en mikill órói hefur verið og í október mældust 512 skjálftar í Mýrdalsjökli. Þrjú ár fram yfir gosspá eru heldur ekki langur tími þegar jarðsagan er undir.
Það er því gott að gefa ekki upp tíma í jarðvísindaspám. Dæmin sanna það.
Katla - Saga Kötluelda
Í bókinnk Katla - Saga Kötluelda eftir Svisslendinginn Werner Schutzbach er saga Kötluelda rakin frá landnámi. En eiga Kötlugos að koma okkur í opna skjöldu? Um Kötlugos 12. október 1918 segir:
"Kötlugosið haustið 1918 telst til hinna meiri háttar gosa og það stóð yfir í rúmar þrjár vikur. Aska sem kom upp, dreifðist yfir stór svæði, en einkum til norðausturs."
Aðdragandi Kötluelda"Þegar nokkru fyrir gosið veittu menn því athygli, að austurhluti Mýrdalsjökuls lyftist lítt eitt, en vesturhlutinn, sem sýr að Mýrdal, seig svo að klettar komu í ljós, sem áður voru huldir ís. Allt sumarið var Múlakvísl nær vatnslaus og af ám, sem falla til austurs, var óvenjuleg brennisteinslykt. Mönnum kom því ekki í hug, að Katla kynni að fara að gjósa.
Rúmri klukkustund eftir hádegi hinn 12. október 1918, það var laugardagur, fannst í Mýrdal stuttur og snarpur jarðskjálftakippur, svo að hrikti í húsum. Lausir smámunir duttu úr hillum og af veggjum. Voru svo í hálftíma sífelldar smáhræringar og titringur, og mönnum sýndist jörðin ganga í bylgjum. Skömmu síðar sást öskumökkur stíga upp yfir jöklinum. Hann var að sjá frá Vík rétt fyrir vestan fjallið Höttu. Hann var hvítur í fyrstu, en dökknaði fljótt. Um kvöldið var hann kolsvartur. Veður var rólegt og hægur vestanvindur, svo að öskumökkurinn hallaðist dálítið til austurs."
Um Kötluhlaup segir:"Rétt eftir að öskustólpinn steig upp, ruddist jökulhlaup fram. Menn sem gengu á fjallið Höttu nálægt Vík, þegar gosið var nýbyrjað, sáu geysimikinn ljósbrúnan massa vella fram. Hann þyrlaði upp miklum sandi og ryki. Flóðið streymdi bæði í farveg Múlakvíslar og yfir Sandinn í átt til Sandvatns og ruddi með sér feiknum af grjóti, möl og ísblökkum. Þegar þessi flóðalda sjatnaði um fimmleytið, geystist enn meira flóð með ótrúlegum hraða yfir Mýrdalssand og kaffærði hann allan vestanverðan."
Kötlugosið 1918 koma því mönnum á óvart og flóðið æddi öflugt fram í byrjun hamfaranna. Því eru mælingar í dag nauðsynlegar og stórfrlóðlegt lærdómsferli fyrir jarðvísindamenn okkar. Vonandi verða spárnar nákvæmari í kjölfarið.
Látum Kötlu húsráðskonu enda færsluna með sínum fleyga muldri er sýran fór að þrotna í kerinu í Þykkvabæjarklaustri: "Senn bryddir á Barða"
Laufskálavörður á Mýrdalssandi með Kötlu í baksýn. Litlu vörðurar sem ferðamenn hafa hlaðið eiga að boða gæfu fyrir ferðalagið yfir sandinn. Í öflugu Kötluhlaupi gætu þessar vörður hofið í sandinn.
![]() |
Víða fjallað um Kötlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 4.12.2011 kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 13
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 140
- Frá upphafi: 236849
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 107
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar