Færsluflokkur: Matur og drykkur

Jólavín

 Vina Tuelda Barrica Domaine des Malandes Petit Chablis  Pujol Rivesaltes GrenatBertani Villa Novare RipassoChâteau Musar

Dominique og Eymar  hjá Vínskólanum halda úti góðum vef um vín og vínmenningu. Þau reka vínskólann - vinskolinn.is og býður hann upp á stutt fræðandi námskeið. Einnig senda þau reglulega út fréttabréf. Ég hef ákveðið að velja fara í gegnum listann og velja eitt gott vín fyrir jólamatinn. Hér kemur jólavínlistinn frá Vínskólanum:

Sum vín hafa ratað nýlega til okkar sem eru á hóflegu verði  og viljum við benda á nokkur þeirra - athuga að verðin gilda... í dag og að þetta er vín sem eru ný í reynslu og þar af leiðandi fáanleg í Heiðrúnu eða Kringlunni:
- Vina Tuelda Barrica frá Ribeira del Duero er valið besta kaupið í jólablað Gestgjafans (1867 kr) - með rauðu kjöti, lamb, naut, hreindýr

- De Leuwen Jagt Cabernet Sauvignon  S-Afríka - (1997 kr), vínbóndavín, eins og maður veit að S-Afríka getur framleitt, með öllu bragðmeiri rauðu kjöti
- Arnaldo Caprai Grecante (1989 kr) er afar skemmtilegt hvítvín frá Ítalíu (Umbria), með humri eða bragmiklum skelfiski
- Domaine de Malandes Petit Chablis (2190 kr) er vel peninganna virði
- Olivier Leflaive Les Sétilles (2390 kr) eitt af þeim bestu frá Bourgogne, miðað við verð - ljúffengt
- Bertani Villa Novare Ripasso frá Valpolicella (2790 kr), flott vilillbráðavín


Svo getum við ekki sleppt því að nefna eitt af dýrari vínunum:
- Château Musar 2001 frá Líbanon (4499 kr), dýrt já en frábært með öllu villibráðinu - umhella 1-2 klst fyrir mat.
- Ekki gleyma  Riversaltes Grenat með villigæsaterrine frá Ostabúðinni, gráðaostinum eða súkkulaði (2799 kr) !
 

Þetta eru fínar hugmyndir. Ég ætla að kaup Arnaldo Caprai Grecante með humrinum og láta svo hugann reika til S-Afríku með De Leuwen Jagt Cabernet Sauvignon þegar kjötið fer undir tönn.


Palin Syrah rokselst

PalinÞað gengur ekki allt á móti Palin.

Palin Syrah, lítið lífrænt vín frá Chile hefur farið sigurför í Bandaríkjunum vegna þess að það ber saman nafn og bandaríska varaforsetaefnið.  Þó er nafnið ekki borið eins fram, "Pay-LEEN" enda nafnið komið frá bolta í chileskum leik sem er svipaður og hokkí.

Helst eru það hægrimenn sem kaupa vínið og salan hefur verið sérlega góð í Huston í Texas.

Palin Syrah, Carmenere og Cabernet Sauvignon eru framleidd af Alvaro Espinoza, leiðandi  chileskum talsmanni á fjörmiklum og lífrænni vínrækun. Hann er bezt þekktur fyrir hið þekkta Antiyal rauðvín frá Maipo dalnum.

 

Heimild:  decanter.com


mbl.is Palin fellur í áliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egils Permium

egilspremium.pngÉg smakkaði í fyrsta sinn ljósgullinn Egils Premium bjór í kvöld og vakti hann athygli mína fyrir kröftugt maltbragð. Sker hann sig úr öðrum mildari lagerbjórum.  Vakti bragðið sem batnaði er leið á dósina athygli mína.

Á bjórdósinni stóð að Egils Premium hefði lengra framleiðsluferli, hann væri tvímeskjaður og hefði hægari gerjun. Notað er íslenskt bygg frá bændum í Leirársveit, og aldagamlar tékkneskar aðferðir notaðar við bruggun.  Það gæfi sterkan karakter, aukna mýkt og meiri fyllingu.

Framleiðsla bjórsins hófst á bjórdaginn, 1. mars 2005 og skömmu síðar hlaut hann verðlaun á European Beer Star keppninni í Bæjaralandi í Þýskaland.  Hófst þá útrás í kjölfarið.

Á vefnum vinbud.is sem selur bjórinn er honum líst svo:  Ljósgullinn. Meðalfylling, mildur með sætuvotti og lítilli beiskju og mjúkum maltkeim.
Passar vel með alifuglum, lambakjöti, grillmat og á sólpallinum. 

Ég mæli meðs að fólk prófi þessa rammíslensku fraðmleiðslu en hafi plan B í bjórdrykkju því hann er ekki allra.

 


Beztu smásalarnir að mati Decanter

retailer-awards Á vef Decanter.com eru tilnefningar yfir bestu smásalana í léttvínsgeiranum.

Verðlaun verða veitt í mörgum flokkum. Meðal annars stórmarkaður ársins, vínkeðjur, smásalar ofl.

Ég birti hér lista yfir bestu léttvíns netverslanir ársins.

Léttvíns netverzlun ársins
Berry Bros - www.bbr.com
The Wine Society - www.thewinesociety.com
From Vineyards Direct - www.fromvineyardsdirect.com
South Africa Wines Online - www.sawinesonline.co.uk
Cadman Fine Wines - www.cadmanfinewines.co.uk
Swig - www.swig.co.uk
Averys - www.averys.com

Gjörið svo vel og berið saman úrvalið við vinbud.is.....


Á sjóstöng með Húna II

Húni II er sögufrægt skip. Sérstaklega er það frægt á Hornafirði. Það bar nöfnin Haukafell SF 111 og Sigurður Lárusson SF. Skipið er 132 tonna eikarbátur, smíðaður í  skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963. Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur bátinn til umráða og Hollvinir Húna II sjá um reksturinn. Þeir bjóða upp á siglingar á Pollinum á Akureyri í sumar. Ég fór í kvöldsiglingu með krökkunum mínum, Særúnu og Ara síðasta sunnudagskvöld og áttum saman eftirminnilegt kvöld við að kanna lífríki sjávar og upplifa land og haf.

Lagt var í kvöldsiglinguna frá Torfunefsbryggju kl. 20.00 en bryggjan er staðsett í hjarta Akureyrar. Siglt var inn fjörðinn og síðan beygt á bakborða og haldið út Eyjafjörðinn. Það var smávægileg gjóla og skýjað. Þegar komið var nálægt Svalbarðseyri var kúplað frá og fólki boðið að veiða á sjóstöng. Það var mikill spenningur, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni og hjálplegir skipverjar aðstoðuðu fúslega landkröbbana.  Sex sjóstangir voru á síðunni bakborðsmeginn. Eftir að allar sökkur voru komnar í botn, hófst veiðin. Stangirnar voru togaðar upp og sigu niður til skiptis. Loks kom fyrsti fiskurinn, það var lítil ýsa. Fylgdi fyrsta fisknum sú kvöð að kyssa þurfti skipstjórann. Kannaðist enginn við að hafa veitt ýsuna!

Ýsan var verkuð og flökuð. Fannst ungviðinu merkilegt að sjá hjartað slá löngu eftir að það var fjarlægt úr fiskinum og lá einmanna á aðgerðarborðinu. Síðan var maginn skoðaður og kom í ljós að hann var tómur, þess vegna beit hún á hjá okkur. Loks fengu krakkarnir að henda lifrinni og innyflum í hafið og fylgdust þau með er fýllinn barðist um fenginn.

Særún var við veiðar og skyndilega flæktist færi hennar við færi næsta veiðimanns. Þau drógu bæði upp og eftir smá stund birtist vænn ufsi. Hann hafði greinilega farið í ferð með öngulinn í munninum. Særúnu leist ekkert á aflann og forðaði sér og tóku áhafnarmeðlimir við að landa aflanum og greiða úr flækjunni. Þá var komin upp skemmtileg staða um borð, það var slegið upp grillveislu.

Ufsinn var flakaður og flökin krydduð og sett á grillið. Við héldum áfram að veiða. Ég fékk eina stöng og eftir nokkur húkk, fann ég að eitthvað hafði breyst. Ég dróg inn 15 faðma línuna og á króknum var agnarsmá lýsa. Við skiluðum henni aftur í hendur Ægis. Skömmu síðar kallaði skipstjórinn að veiðum væri lokið, draga ætti inn allar línurnar. Hófst þá ufsaveislan mikla. Bragðaðist fiskrétturinn mjög vel og var ufsin mun betri en ég átti von á, einnig liturinn, en hann var ljós og leit fiskurinn vel út. 

Mikil umræða hefur verið um sjóstangarveiði á Vestfjörðum en ferðaþjónustuaðilar þar hafa funið nýja gullæð. Hins vegar er úrkynjað kvótakerfi Þrándur í götu.  En vorum við að brjóta landslög?

 Ufsagrillveisla í hvalaskoðunarskipinu Húna II. Brúin glæsileg á skipinu.

„Samkvæmt 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er heimilt án sérstaks leyfis að stunda í tómstundum fiskveiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem fæst við slíkar veiðar, er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja hann eða fénýta á annan hátt.“

Nei,við veiddum og átum! Því brutum við ekkert af okkur.

Á heimstíminu út af Oddeyrartanga sáum við tvo kayaka. Það skrítna var að aðeins einn haus sást. Er við komum nær, sáum við að maður var á floti við hlið kayaksins. Hann komst ekki um borð. Áhöfnin á Húna II sigldi að ræðurunum og setti út stiga á stjórnborðssíðuna og syndi ræðarinn að honum og komst án vandræða um borð. Við höfðum bjargað manni úr greipum Ægis. Eflaust hefði hann getað komist að landi og klifrað upp sjóvarnargarð en um hundrað metrar voru að landi. En hann var alla vegana í öruggum höndum hjá frábærum skipverjum á Húna II.

Kayak

Búið að bjarga öðrum ræðaranum í Húna II. Hann komst ekki aftur um borð eftir að hafa hvolft kayaknum vegna öldugangs. Var hann orðinn nokkuð kaldur en varð ekki meint af.

Síðar um kvöldið var farið út Vaðlaheiði og horft á flugeldasýningu er hátíðinni Ein með öllu var slitið og hlustað á Árna Johnsen og þrettán þúsund þjóðhátíðargesti í Vestmannaeyjum syngja brekkusöng í útvarpinu. Þetta var eftirminnilegt kvöld.


T-bein steik á Hereford

Fór í vikunni á veitingastaðinn Hereford steikhús sem staðsett er á Laugarvegi. Ég var harðákveðinn í að bragða nautakjöt enda hljóta þeir Hereford menn að vera þar á heimavelli.

Á móti okkur tók hressilegur þjónn, líklega af ítölsku bergi brotinn. Hann afhenti matseðla sem voru vel hannaðir. Þar gat maður séð teikningar af bitunum og þyngdarflokkar vel skilgreindir. Í nautaflokknum var boðið upp á lundir, fillet, Entercote, framhryggjarsneið og T-bone steik.  Fyrir valinu í aðlarétt var þyngsta sneiðin, 450 g T-bein steik.

Ég var hrifinn af pöntunarspjaldinu á Hereford. Á borðinu var lítið spjald sem fylla þarf út. Fyrst er borðnúmer skrifað, síðan nafn. Eftir það er krossað við réttin og hversu mikið á að steikja hann. Auk þess er hægt að velja kartöflur, sósur og salat með mismunandi krossum. Þetta er snjallt og í fyrsta skipti sem ég tek þátt í svona krossaprófi.

Eldhúsið er frammi í sal og steikingarlyktin leggur um veitingasalinn. Ég var staðsettur bakvið glervegg sem geymdi söguleg Armagnac vín og sá ekki snjalla kokkana. T-Steikin kom fljótlega og dálítið blóðug enda hafði ég valið medium rare. Það er fulllítið enda mæla Hereford-menn með medium steikingu á vef sínum en ég komst að því eftir kvöldið. Steikin var lugamjúk og gekk fljótt á 450 grömmin. Ég fékk síðan sinar í einum bitanum. En á vef hereford.iser sagt um steikina. "Þverskorinn hryggur þá fylgir afturhryggur (fillet) og aftur parturinn á lundinni. Ysta lagið á hryggvöðvanum er látið fylgja (Sin og fita). Áríðandi er að skera sinina frá, hún er með öllu óæt. Því miður eru alltof margir sem hafa reynt að vinna á þessari sin, gefist upp og sagt að steikin sé of seig."

Ég gafst upp fyrir sininni en það hefði mátt koma þessu upplýsingum fram í tíma. Með steikinni var drukkið vín mánaðarins, Jindalee Shiraz frá Ástralíu. Höfugt og ferskt.

Eftirrétturinn var mjög vel heppnaður. Ég valdi djúpsteiktan Camembert. Mjög góður ostur og vel skreyttur frumlegur diskur með jarðarberjum.

Þó ég hafi lent í smá stríði við sinina í aðalréttinum, þá var gott grill eftirbragð í bragðlaukum fram eftir kveldi.

Það er margt frumlegt á Hereford steikhúsi og vel þess virði að kíkja í heimsókn ætli fók að gera sér dagamun. Þjónustan er alþjóðleg, tel að allir þjónarnir hafi verið erlendir. Staðurinn býður einnig upp á fisk, kjúlking og lambarétti. Einnig var hægt að fá humarsúpu og humar í skel. Ég var hins vegar vel mettaður eftir Humarhátíð. 

Þegar staðurinn var yfirgefinn sást hádegistilboð á spjaldi á Laugarvegi. Þríréttuð máltíð með hvalketi í aðalrétt á kr. 4.900. Ég hvalavinurinn ætla að kíkja einhvern daginn við og smakka. Maður þarf að þekkja vini sína.

Stjörnugjöfin:  ****,  fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Umgjörðin kemur manni á óvart, frumlegir diskar og góðar upplýsingar á vef.


Humar á Humarhátíð

HumarSivar

Það var haldið austur á bóginn á fimmtudagskvöld og mætt á Humarhátíð á Hornafirði. Þetta var ágætis fjölskylduskemmtun, frekar fámennt enda kom engin slæm frétt frá firðinum.  Það var mikil samkeppni um hátíðargesti um helgina á landinu og veðurspá ekki hagstæð.

Það er gaman að sjá hversu stórann sess humarinn er að skapa sér á hátíðinni og mikil breyting frá fyrri hátíðum. Vöruþróun á humri er í fullum gangi.  Einnig hefur orðið aukning á listviðburðum og komst maður ekki yfir allar sýningarnar.

Á vefnum horn.is var frétt um að skyndibitastaðurinn Kokkur á Höfn væri farinn að selja sælkerahumarsúpu úr staðbundnu hráefni í gegnum bílalúgu. Við keyptum þennan nýja skyndibita og kom hann vel út. Humarinn var þræddur upp á spjót og hægt að nýta til ýmiss brúks. Rjómabragð var af súpunni í bland við humarseyði.

 Hin rómaða humarloka Ósmanna í Hleininni var einnig smökkuð og lagðist vel í mig enda humarinn einstakt hráefni.  Hafnarbúðin hefur einnig boðið upp á Humarsúpu í brauði og kemur hún vel út.

Sívar Árni og Bestafiskmenn buðu upp á breiða línu af humarréttum. Þar var m.a. boðið upp á nýtt afbrigði af notkun pylsubrauða. Þeir buðu upp á Humarbrauð. Þessi útfærsla kom einna mest á óvart. Bragðmikill biti á góðu verði.

Humarhöfnin,  hefur svo vakið mikla athygli á humarréttum. Það er ekta staður fyrir sælkera. Þar er meira að segja hægt að fá Humarpizzu.

Nýsköpunin í matvælagerð heldur stöðugt áfram í ríki Vatnajökuls og á heimleiðinni var komið við í Árbæ og Jöklaís bragðaður en hann kemur beint úr spenanum á Árbæjarkúm. Kom hann vel út í bragðprófnunum enda úr úrvals hráefni.

Joklais

Flott auglýsing á túninu í Árbæ á Mýrum. Kýrnar eru rólegar að framleiða uppistöðuefnið í ísinn.


Smætlur

Nú um helgina verður Þórbergssmiðja haldin í Háskóla Íslands til að minnast 120 ára ártíðar meistara Þórbergs.

Það er við hæfi að hefja bloggið á nýyrði, smætlur, en Þórbergur var mikill orðasmiður. Einnig safnaði hann orðum.  Nafnið smætlur er nýtt orð yfir vinsælan rétt á Spáni, tapas. Hef ég heyrt því fleygt að Kristinn R. Ólafsson eigi mikið í þessu orði.

Nafnið er dregið af spænsku sögninni "tapar" sem þýðir "að loka, breiða yfir". Tapas eru alls skyns smáréttir sem oftast eru borðaðir á milli mála en geta einnig myndað heila máltíð.

Það er mikil dagskrá í Háskólanum tileinkuð meistara Þórbergi og það er einnig þétt dagskrá hjá mér yfir helgina. Ég ætla þó að reyna að komast á einhverjar fyrirlestra.

Nýyrðið smætlur er svo nýtt að  þegar gúgglað er eftir því koma aðeins þrjár niðurstöður. Einnig á Morgunblaðspúkinn eftir að læra það.


Þorrablót brottfluttra Hornfirðinga

Nú styttist í Þorrann. Skemmtilegast við Þorrann og mótvægi við þrælinn eru Þorrablótin. Þá snæði ég uppáhalds mat minn, þorramat. Hárkarl með brennivíni og harðfiskur með smjöri er toppurnn. Síðustu 29 ár hafa brottfluttir Hornfirðingar haldið þorrablót á höfuðborgarsvæðinu og þau hafa oft tekist mjög vel. Síðasta blót var mjög gott og ætla ég að mæta í veisluna í næsta mánuði. Ég skora á Hornfirðinga búsetta á höfuðborgarsvæðinu að skunda til leiks. Þeir verða ekki sviknir.

Hér er bréf sem ég fékk frá Þorrablótsnefndinni og birti það hér án leyfis.

Frá Þorrablótsnefnd brottfluttra Hornfirðinga

Kæri/ kæra Sigurpáll Ingibergsson

Nú er komið að þrítugasta þorrablóti Hornfirðinga á stórreyjavíkursvæðinu. Af því tilefni ætlum við að hafa veglegt þorrablót þann 9. febrúar næstkomandi.  Blótað verður í Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi eins og undanfarin ár en þau hafa nú nokkur blótin verið haldin í því ágæta húsi.

Við viljum hvetja fólk til að skrá sig á heimasíðu nefndarinnar en urlið er http://www.xblot.net

Á þessari síðu munum við leitast við að færa fréttir af framgangi mála og allar upplýsingar hvað varðar blótið munu koma þarna fram smátt og smátt.

Skráningin er sem sagt hafin og hvetjum við sem flesta að skrá sig sem fyrst.

Nefndin


Skötuveisla

Við fórum sömu leið og rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur hans Arnaldar í vali á veitingastöðum. Þeir eru þjóðlegir niðri á BSÍ og það var fjölmennt í skötuveislu í hádeginu.  Skötulyktin var góð fyrir utan umferðamiðstöðina er við lögðum bílnum og við greinilega á réttum stað.  Skatan klikkaði ekki en ég fékk nokkuð breitt úrval úr skötuborðinu. Meðal annars var boðið upp á tindabikkju. Hefði átt að taka meira af sterkustu skötunni. Í síðari ferðinni voru gellur, kinnar og saltfiskur smakkað. Ég fæ ekki flensu í janúar eftir þetta mikla skötuát!

Þessi þjóðlegi siður hófst fyrir Westan en ég man eftir skötuverkun á Hornafirði í saltskemmunum. Hér er mynd af Þorvarði Sigurðssyni frá Teigaseli (1942-2001) að verka skötu fyrir 25 árum á Hornafirði.

 

skataV


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 102
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 83
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband