Færsluflokkur: Bækur

200 ár frá fæðingu Sölva Helgasonar - Sólon Íslandus

Líkt og Kristur forðum
varstu krossfestur af lýðnum
sem til leti taldi heimspeki og list
Hög var hönd og hugur þinn
og að þér hændust börnin
og marga heita konu fékkstu kysst (Magnús Eiríksson)

Þann 16. ágúst eru 200 ár síðan Sölvi Helgason, flakkari, listamaður og spekingur fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð í Skagafirði, á ströndinni við ysta haf.

Ég hafði helst heyrt um Sölva í gengum lagið Sölvi Helgason flutt af hljómsveitinni Mannakorn.  Í fyrrasumar fór ég á Kjarvalsstaði en þar voru þrjár sýningar. Ein af þeim var Blómsturheimar sem tileinkuð var verkum Sölva. Listfræðingur lóðsaði okkur um sýningarnar og sagði frá 18 nýjum verkum Sölva frá Danmörku. Mér fundust blómamyndirnar ekkert sérlega spennandi, mikil endurtekning en blöð sem Sölvi hafði skrifað á vöktu athygli mína. Það voru örsmáir stafir með fallegri rithönd á þéttskrifuðu blaði, allt gjörnýtt.  Listfræðingurinn var spurður út í þetta og svarið var augljóst.

Skrift Sölva var frábær, og kunni hann margbreytta leturgerð. Venjulega skrifaði hann svo smátt, að ólæsislegt var með berum augum. Gerði hann það bæði til að spara blek og pappír og eins til að sýna yfirburði sína í því sem öðru. Þá gat fólkið, sem alltaf var á þönum í kringum hann, síður lesið úr penna hans, því að ekki skorti það forvitnina. Annars var það víst litlu nær, þótt það gæti stafað sig fram úr nokkrum línum. Það svimaði um stund af ofurmagni vizku hans. Það var allt og sumt.   (Sólon Íslandus II, bls. 286.)

Minnisvarðinn

Eftir þessa sýningu vissi ég aðeins meira um Sölva en fyrir aðra tilviljun kynntist ég lífshlaupi Sölva eða Sólon Íslandus í sumar er ég heimsótti Skagafjörð.  Ég heimsótti minnisvarða um Sölva við bæinn Lónkot í Sléttuhlíð og lagði rauða rós við minnisvarðann.  Þar frétti ég að til væri bók um hann, Sólon Íslandus eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Því var ákveðið að fá hana lánaða og lesa bindin tvö eftir farsæla dvölina nálægt Sléttuhlíð.

Minnisvarði  Sölvi Helgason

Ég sé Sölva Helgason fyrir mér þar sem hann situr á skýjahnoðra yfir Sléttuhlíð í Skagafirði. Augu hans flökta en staðnæmast við minnisvarðan í Lónkoti. Rósin þín og styttan mynna okkur á að einu sinni fyrir löngu var förumaður á Íslandi sem lifði í eigin heimi. Hann reyndi að opna augu samferða fólks síns á sjálfum sér í máli og myndum. Engin skildi hann fyrr en eilífðin hafði sléttað yfir sporin hans.”  -GT

 

Sólon Íslandus

Ég hafði gaman af lestri bókarinnar og hjálpaði dvöl mín mikið og gaf nýtt sjónarhorn. Ég áttaði mig miklu betur á landinu, heiðunum og kraftinum í hafinu sem Davíð lýsir svo meistaralega vel.  Skáldsagan segir á sannfærandi hátt frá lífshlaupi Sölva sem tekur sér nafnið Sólon Íslandus og er spegill á 19. öldina. Það kom á óvart þegar fréttist að Davíð væri að skrifa bók um Sölva  sem kom út árið 1940 en það er snjallt hjá höfundi að nota förumann til að ferðast um Ísland á þessum hörmungar tímum þar sem vistarbönd voru við lýði og alþýðufólk mátti ekki ferðast á milli sýslna án reisupassa.  Sagan er listilega vel skrifuð með mikið af fallegum gömlum orðum  sem sýnir hvað Davíð hefur mikið vald yfir tungumálinu og lifði ég mig vel inn í tímann fyrir 200 árum. Gagnrýnendum finnst hann draga ókosti Sölva meira fram en kosti í sögulega skáldverkinu. Persónusköpun er góð og margar persónur mjög eftirminnilegar.

Erfiðri æsku sem mótaði hann er lýst mjög sannfærandi og fallegu sambandi hans við móður hans en hún lést er hann var á unglingsaldri. Faðir hans ofdekraði hann en lést er Sölvi var fjögurra ára.  Samband stjúpföður hans var byggt á hatri.  Eftir að hann varð munaðarlaus fór hann á flakk eða gerðist landhlaupari. Mögulegt er að þessi áföll hafi gert hann sinnisveikan.

Frelsið

En Sólon Íslandus lét ekkert stöðva sig. Örlögin höfðu synjað honum þeirrar náðar, að stunda  bókvísi á skólabekk. Líkamlegt strit var honum ósamboðið. Hann barðist fyrir frelsis. Frjálsborinn maður,  hann vari hvorki hreppakerling né glæpamaður, heldur frjálsborinn höfðingi og spekingur, sjálfráður ferða sinna.  Jarðhnötturinn var hans heimili.

Þessi afstaða hans kostaði sitt og eyðilagði bestu ár lífs hans. Þegar Sölvi var 23 ára var hann handtekinn og ákærður fyrir flæking og að falsa yfirnáttúrlegan  reisupassa. Hann fékk dóm upp á 27 vandarhögg.  Nokkrum árum síðar var hann aftur ákærður fyrir lausamennsku og flakk. Hann uppskar  fleiri vandarhögg . Árið  1854 var hann síðan dæmdur til þriggja ára betrunarvistar í Danmörku. Sölvi stóð með sjálfum sér.

Þegar hann kom til Íslands  hélt hann flakkinu samt áfram og helgaði sig enn meir málaralistinni. En lífið var barátta og sýn bænda var sú að fólk hafði annað að gera í fjallkotunum en að góna út í loftið. Lifði ekki af fegurð, heldur striti.

En Sölvi svaraði: Er það ekki vinna að ferðast um landið og gera af því uppdrætti og kort? Er það ekki vinna að stunda vísindi og listir?

Í fari hans fór saman brengluð sjálfsímynd, lituð af oflæti, en jafnframt ókyrrð og stefnuleysi, sem þóttu almennt vera ógæfumerki. Sumir kölluðu hann loddara en aðrir snilling. (bls. 120 FÍ árbók 2016)

Allt eru þetta sjálfsögð réttindi í dag, að geta ferðast um landið og einstök barátta hans við embættismannakerfið. Aldri gafst hann upp.   Þarna rannsökuðu og dæmdu sýslumenn í sama málinu, mannréttindabrot voru framin.

Saga Sölva á vel við í dag, blökkumenn í Bandaríkjunum eru í sömu baráttu, samkynhneigðir og fleiri. En Sölvi var einn í baráttunni, ólíkt Rosa Parks sem neitaði að standa upp fyrir kúgurum sínum. Enginn skildi hann.

Eins dáist ég af sjálfstrausti hans og seiglu, standa upp í hárinu á embættismönnum og geta lifað á heiðum Íslands en veður voru oft slæm.

Sölvi lést 20. október 1895, 75 ára að aldri á Ysahóli í sömu sveit og hann fæddist. Vistarbandið sem hélt honum föngnum hættir á þessum tíma.

En hver er arfleið Sölva?  Mannréttindabarátta og listaverk. En hann er frumkvöðull í málaralist á Íslandi. Frjáls og sjálflærður listamaður með nýja stefnu sem fólk skildi ekki. Honum var ýtt til hliðar, hann er naivisti, en það sem hann gerði spratt úr hans eigin hugarheimi. Blómin eru ekki íslensk fjallablóm heldur úr hans fantasíu heimi. 

Einnig er óútgefið efni á Þjóðminjasafninu. Þar á meðal Saga Frakklands en hann var undir áhrifum frá frelsandi Frakklandi.

Eftir að hafa fræðst um Sölva, þá hefur hann vaxið mikið í áliti hjá mér þó hann hafi verið erfiður í samskipum og blómamyndirnar verða áhugaverðari og fallegri. Mæli með lesti á bókinni Sólon Íslandus, það er skemmtileg lesning. 

En best er að enda þetta á lokaorðum Ingunnar Jónsdóttur í Eimreiðinni 1923 en hún kynntist Sölva á efri árum en þá voru enn miklir fordómar út í lífsstíl Sölva: “En alt fyrir það hefir mér ekki gengið betur en öðrum að ráða þá gátu, hvort hann var heimspekingur eða heimskingi.”

Listaverk Sölvi Helgason

Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2016
Eimreiðin, tímarit 1923.
Harpa Björnsdóttir, ruv.is 2019.
Sólon Íslandus, Davíð Stefánsson 1940.
Sölvi Helgason, listamaður á hrakningi, Jón Óskar 1984.


Refurinn ***

Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er fjórða saga höfundar.  Sögusvið bókarinnar er í Höfn í Hornafirði og Lóninu.  Þetta er því áhugaverð bók fyrir Hornfirðinga og nærsveitarmenn.

Höfundur hefur kynnt sér umhverfið ágætlega. Ýmsum raunverulegum hlutum er fléttað inn í söguna. Flugvöllurinn, Kaffihornið, herstöðin á Stokksnesi og landsmálablaðið Eystrahorn koma við sögu. Einnig  Hafnarbraut,  Náttúrustígurinn og í lokin einbreiða brúin yfir Hornafjarðarfljót.

Einangrun en meginþemað.  Einangrun bæjarins Bröttuskriður austast í Lóni nálægt Hvalnesskriðum. Einangrun söguhetjunnar vegna ólíks menningarlæsis og einangrun löggunnar Guðgeirs.

Hafnarbúar koma vel út, eru hjálpsamir, sérstaklega flugafgreiðslumaðurinn enda líta innfæddir Hornfirðingar á ferðaþjónustuna sem þjónustu en ekki iðnað.

En söguhetjurnar eru ekki fullkomnar frekar en annað fólk. Söguhetjan Sajee er frá Sri Lanka og skilur íslenskt talmál bærilega en er með lélegan lesskilning.  Hún kemur fljúgandi til Hornfjarðar og átti að hefja vinnu við snyrtistofu Hornafjarðar en það var blekking. Hjálpsamur hóteleigandi finnur ræstingarvinnu fyrir hana á Bröttuskriðum undir hrikalegu Eystrahorni í nábýli við álfa og huldufólk. Þar búa mæðgin sem eru einöngruð og sérkennileg. Sajee leiðist vistin og vill fara en er haldið fanginni. Engin saknar hennar því hún á ekki sterkt bakland á Íslandi.

Fyrrverandi lögregluþjónn sem vinnur hjá Öryggisþjónustu Hornafjarðar fær þó áhuga á afdrifum erlendu konunnar og hefur eigin rannsókn. Þá hefst óvænt flétta sem kom á óvart en bókarhöfundur hafði laumað nokkrum upplýsingum fyrr í sögunni.  Það er því gaman að sjá hvernig kapallinn gengur upp.

Ágætis krimmi með #metoo boðskap, saga sem batnar þegar á bókina líður.

Refurinn 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tenglar:

Salka bókaútgáfa: https://cdn.shopify.com/s/files/1/1090/3582/products/Refurinn_web_1024x1024.jpg?v=1509525051

Kiljan: 

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/solveig-palsdottir-segir-fra-bok-sinni-refurinn

Skáld.is: 

https://www.skald.is/single-post/2017/10/27/Hva%C3%B0-getur-gerst-%C3%BEegar-%C3%B6rv%C3%A6nting-og-%C3%B3tti-tekur-v%C3%B6ldin---Vi%C3%B0tal-vi%C3%B0-S%C3%B3lveigu-P%C3%A1lsd%C3%B3ttur


Myrkrið veit ****

Bókin Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason er áhugaverð bók enda varð hún söluhæsta bók ársins.

Í þessari glæpasögu er kynntur nýr rannsóknarlögreglumaður til leiks, Konráð heitir hann og kynnist maður honum betur með hverri blaðsíðu. Hann er nokkuð traustur og áhugaverður, flókinn æska og með brotinn bakgrunn, visna hönd og persónuleg vandamál eins og allir norrænir rannsóknarlögreglumenn.  Í lok sögunnar kemur skemmtilega útfært tvist á karakter Konráðs.

Það sem er svo áhugavert við bækur Arnaldar er persónusköpun hans og hvernig hann kynnir hverja og eina persónu til leiks.  Einnig er tækni höfundar góð við að setja lesandann niður í tíðarandann. Fólk sem komið er á miðjan aldur kannast við mörg atriði sem fjallað er um og getur samsamað sér við söguna. 

Dæmi um það er Óseyrarbrúin og Keiluhöllin í Öskjuhlíð. Þessi mannvirki koma við sögu og fléttast inn í sögusviðið og gera söguna trúverðugri.  Ég fletti upp hvenær mannvirkin voru tekin í notkun og stenst það allt tímalega séð.  Keiluhöllin var tekin í notkun 1. febrúar 1985 og Óseyrarbrú 3. september 1988. Stafandi forsætisráðherrar voru aðal mennirnir við vígsluathafnirnar.

En í sögunni eru þrjú tímabil,  morðið á Sigurvin árið 1985, bílslys árið 2009 og sagan lokarannsókn Konráðs sem kominn er á eftirlaun árið 2016.

Einnig er falleg sena um Almyrka á tungli á köldum morgni á vetrarsólstöðum árið 2010 en þá yfirgefur eiginkona Konráðs jarðlífið. Allt gengur þetta upp. Annað sem er tákn í sögum Arnaldar er bíómyndir en þær koma ávallt við sögu, rétt eins og jarðarfarir í myndum Friðrik Þórs.

Sögusviðið þarf að vera nákvæmt fyrir Íslendinga. Eða eins og Ari Eldjárn orðaði svo skemmtilega í spaugi um kvikmyndina Ófærð:  „Hvernig eiga Íslendingar að geta skilið myndina þegar maður gengur inn í hús á Seyðisfirði og kemur út úr því á Siglufirði.“

Toppurinn í nostalgíunni er innslagið um rauðvínið The Dead Arm, Shiraz  frá Ástralíu.   (bls. 186)  - Sniðug tengin við visnu höndina og lokasenuna en vínið er staðreynd.

Eini gallinn í sögunni og gerir hana ósannfærandi er að Arnaldur hefur gleymt verðbólgudraugnum, peningar sem finnast í íbúð virðast ekkert hafa tapað verðgildi sínu.

Ég var einnig hrifin af elementum sem koma við sögu í bókinni en jökull, brýr loftslagsbreytingar, léttvín og kvótakerfið koma við sögu. Einnig minnir líkfundurinn í Langjökli mann á Geirfinns og Guðmundarmál, endurupptaka en jöklarnir vita svo margt.

Myndlíkingin við Ölfusá er tær skáldasnilld hjá Arnaldi, þegar ein sögupersónan situr þar og horfir í fljótið en jökullin sem er að bráðna geymdi líkið í 30 ár.

Það er einnig húmor og léttleiki í sögunni, meiri en ég hef átta að venjast frá Arnaldi.

Sem sagt vel skrifuð og fléttuð bók en glæpurinn og lausn hans er frekar óspennandi og liggur stundum í dvala.

Myrkrið veit

Hönnun á bókarkápu er glæsileg, form andlit í jöklinum. Vel gert.

 

Tenglar:

Óseyrarbrú - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122021&pageId=1688158&lang=is&q=%D3seyrarbr%FA

Keiluhöllin - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119930&pageId=1605489&lang=is&q=KEILUH%D6LLIN%20Keiluh%F6llin

Almyrkvi tungls - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=339641&pageId=5343991&lang=is&q=tungl%20tungl


Elon Musk

Elon MuskElon Musk er enginn venjulegur maður. Fremstur frumkvöðla í dag og er að skapa framtíð sem er í anda gullaldar vísindaskáldskaparins.

Var að klára vel skrifaða kilju um forstjóra SpaceX, milljarðamæringinn, frumkvöðulinn, fjárfestinn, verkfræðinginn og uppfinningamanninn Elon Musk eftir Ashlee Vance.  En nafnið Musk hefur oft heyrst í sambandi við nýsköpun, sjálfbærni og frumkvöðlastarfsemi undanfarið.

Ævi

Elon Musk fæddist í Pretoríu í Suður Afríku 28. júní 1971 og er því 46 ára gamall. Hann átti erfiða æsku, lenti í einelti og foreldrar hans skildu. Bjó hann hjá föður sínum en foreldrar hans og afar og ömmur  voru ævintýragjarnt fólk.  Hann virðist hafa verið á einhverfurófi. Elon var einfari og nörd, öfugt við systkini sín, hann las mikið og mundi allt sem hann las. Þegar allar bækur á bókasafninu höfðu verið lesnar, sérstaklega ævintýrabækur, sci-fi og teiknimyndasögur fór hann að lesa Encyclopaedia Britannica alfræðiorðabókina.

Forritunarhæfileikar fylgdu í vöggugjöf og 10 ára gamall lærði hann upp á eigin spýtur forritun. Tólf ára gamall skrifaði hann tölvuleikinn Blastar og seldi tölvutímariti. Hann var nörd!

Þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla 18 ára ákvað hann að fara til Kanada en móðurætt hans kom þaðan. Aðskilnaðarstefnan í Suður Afríku og vandamál tengd henni gerðu landið ekki spennandi fyrir snilling.

Í Kanada vann hann fyrir sér og gekk í háskóla en draumurinn var að flytja til Bandaríkjanna og upplifa drauminn þar í Silicon Valley.  Eftir háskólanám í Pennsylvaniu hóf hann árið 1995 doktorsnám í Stanford University í Kaliforníu og stofnaði með bróður sínum nýsköpunarfyrirtæki sem vann að netlausninni Zip2.  Eftir mikla vinnu þá var fyrirtækið selt til Compaq fyrir gott verð. Var hann þá orðinn milljónamæringur. Þá var ráðist í næsta sprotaverkefni sem var X.com, rafrænn banki sem endaði í PayPal. Fyrirtækið var síðan selt eBay uppboðsfyrirtækinu og söguhetjan orðinn yngsti milljarðamæringur heims.

Næsta skref var að láta æskudraum rætast,nýta auðæfin og helga sig geimnum.  Árið 2002 stofnaði hann geimferðafyrirtækið SpaceX sem hannar endurnýtanlegar geimflaugar. Markmiðið er að flytja vörur út í heim og hefja landnám á reikistjörnunni Mars.  Þegar geimævintýrið var komið vel á veg þá stofnaði hann rafbílafyrirtækið Tesla sem og markmiðið sjálfbærir og sjálfkeyrandi bílar. 

Einnig er hann stjórnarformaður í SolarCity, ráðgjafarfyrirtæki sem innleiðir sjálfbærar lausnir fyrir húseigendur.

Það er áhugavert að sjá hvað Musk lagði mikið á sig til að koma netfyrirtækjum sínum áfram, stanslaus vinna og uppskeran er ríkuleg.

Musk telur að lykillinn að sköpunargáfu sinni hafi komið frá bókalestri í æsku, sérstaklega teiknimyndasögunum en þar er ímyndunaraflið óheft.

Stjórnunarstíll

Í bókinni er stjórnunarstíll Musk ekki skilgreindur en hann lærði á hverju nýsköpunarfyrirtæki sem hann stofnaði  og hefur þróað sinn eigin stjórnunarstíl. En Musk er kröfuharður og gerir mestar kröfur til sjálfs sín. Einnig byggði hann upp öflugt tengslanet fjárfesta og uppfinningamanna sem hentar vel í skapandi umhverfi Silicon Valley.

Ég fann grein á netmiðlinum Business Insider um stjórnunarstíl Musk og kallar hann sjálfur aðferðina nanó-stjórnun. En hún er skyld ofstjórnun (e. micro-management) þar sem stjórnandi andar stöðugt ofan í hálsmál starfsfólks og krefur það jafnvel um að bera allt undir sig sem það þarf að gera. Musk segir að hann sé ennþá meira ofan í hálsmáli starfsfólks! (more hands-on).

Þessi stjórnunarstíll byggist á að sögn Musk: "I always see what's ... wrong. Would you want that? When I see a car or a rocket or spacecraft, I only see what's wrong."
"I never see what's right," he continued. "It's not a recipe for happiness."

Framtíðarsýn Musk

Er að endurskilgreina flutninga á jörðinni og í geimnum.

Lykilinn að góðu gengi fyrirtækja Musk er skýr framtíðarsýn. Hjá SpaceX er framtíðarsýnin: Hefja landnám á reikistjörnunni Mars og hvetur það starfsmenn áfram og fyllir eldmóði. Þeir eru að vinna að einstöku markmiði. 

Framtíðarsýnin hjá Tesla er sjálfbær orka og að ferðast í bíl verður eins og að fara í lyftu. Þú segir honum hvert þú vilt fara og hann kemur þér á áfangastað á eins öruggan hátt og hægt er. 

Musk hefur skýra sýn með framleiðslu rafbíla, sjálfbærni í samgöngum. Í hönnun er Gigafactory verksmiður sem framleiða liþíum rafhlöður sem knýja mun Tesla bílana í framtíðinni.

Fyrir vikið hefur Musk náð að safna að sér nördum, fólki sem var afburða snjallt á yngri árum og með svipaðan sköpunarkraft hann sjálfur.

Það gengur vel hjá fyrirtækjum Musk núna en það hefur gengið á ýmsu. Á því kunnuga ári 2008 urðu fyrirtækin næstum gjaldþrota.

Í nýlegri frétt um SpaceX er sagt frá metári en níu geimförum hefur verið skotið á loft og Tesla hefur hafið framleiðslu á Model 3 af rafbílnum og eru á undan áætlun.

Tesla

Einkaleyfi Tesla á uppfinningum tengdum rafbílunum hafa verið gefin frjáls. Fyrirtækið er rekið af meiri hugsjón en gróðavon.


Land föður míns

Ich bin ein Berliner!

Ég heimsótti Berlín í vor yfir helgi, naut lífsins og kynntist sorglegri sögu borgarinnar.  Hótelið var á Alexanderplatz stutt frá helsta stolti Austur-Þýskalands, 368 m háum sjónvarpsturni milli Maríukirkjunnar og rauða ráðhússins, en hverfið tilheyrði Austur-Berlín og því sáust styttur af Karl Marx og Friedrich Engels í almenningsgörðum. Húsin í hverfinu voru í austurblokkarstíl en þegar gengið var eftir skemmtigötunni: „Unter den Linden", sem er veglegasta gatan í Berlín tók glæsileikinn við.

Þar var Humboldt háskólinn sem hefur alið 29 nóbelsverðlaunahafa, Dómkirkjan, DDR-safnið, safnaeyjan, glæsileg sendiráð, áin Speer með fljótabátinn Captain Morgan. Trabantar í öllum litum vöktu athygli og við enda götunnar er helsta kennileiti Berlínar, Brandenborgarhliðið. Skammt frá hliðinu er Þinghús Þýskalands með sína nýtísku glerkúlu.

Íslenska sendiráðið í Berlín var einnig heimsótt en það er sameiginlegt með Norðmönnum, Svíum, Finnum og Dönum. Flott hönnun, sameiginleg móttaka en sjálfstæðar sendiráðsbyggingar. Vatnið milli sendiráðanna á reitnum táknar hafið á milli landanna.

Í mat og drykk var þýskt þema. Hofbrau-Berlin var heimsótt, ekta þýskur bjórgarður og snætt svína schnitzel með Radler bjór.  Síðar var Weihnstephan veitingastaðurinn heimsóttur og snætt hlaðborð frá Ölpunum sem vakti mismikla lukku.

Í borgarferðum er nauðsynlegt að fara í skipulagða skoðunarferð og þá bættist við sagan um 17. júní strætið, leifar af Berlínarmúrnum sem klauf borgina í tvennt, nýbyggingar á dauða svæðinu á Potsdamer Platz, Neukölln, Tempelhof flugvöllurinn, Bessastaði Þýskalands, Bellevue Palace eða forsetahöllina, tómt heimili kanslarans en núverandi kanslari, Angela Merkel býr í eigin íbúð, umhverfisvænt umhverfisráðuneyti,  Checkpoint-charlie, Zoo Station sem minnti á Actung Baby plötu U2, heimili Bowie á Berlínarárum hans, höfuðstöðvar Borgarlínu Berlínar, HB, kebab, aspars og Berliner weissbier.

Hjá Zoo Station mættust gamli og nýi kirkjutíminn. Hálfsprengd minningarkirkja Vilhjálms keisara minnti á heimsstyrjöldina síðari en hryðjuverk voru framin þarna 19. desember 2016 þegar 11 létust er vörubifreið var ekið á fólk á jólamarkaði.

Minningarreitur um Helförina var heimsóttur. 2.711 misstórar gráar steinblokkir sem minna á líkkistur. Aldrei aftur kom í hugann. Kaldhæðnislegt að jarðhýsi Hitlers var stutt frá.

Áhrifamikill staður var minningarreitur í Treptower Park um sovéska hermenn sem féllu í orrustunni um Berlín í apríl-maí 1945. Um 80.000 féllu og eru 5.000 hermenn Rauða hersins grafnir þarna. 
Á leiðinni að stærsta minnismerkinu, 12 metra styttu af hermanni með sverð og brotinn hakakross, haldandi á barni voru steinblokkir sem táknuðu eitt af ráðstjórnarríkjunum.

Land föður míns

Land-fodur-minsÞegar hugurinn reikaði um orrustuna um Berlín í Treptower garðinum þá rifjaðist upp að hafa heyrt um bók, Land föður míns eftir þýsku blaða- og sjónvarpskonuna Wibke Bruhns. Ég varð ákveðinn í að kaupa þessa bók og lesa strax við heimkomu.

Bókin er stórmerkileg og mjög áhrifamikil eftir stutta Berlínarferð. Maður lifði sig betur inn í söguna og hápunkturinn er þegar Wibke lýsir gönguferð föður síns eftir götunni Unter den Linden eftir loftárás bandamanna. Flestar byggingar hrundar og eldur logaði víða. Vatnslaust og rústir þriðja ríkisins blasa við.  Þetta  kallaði á gæsahúð.

Lesandinn fær beint í æð í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna með uppgangi Nasista. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og þátttöku í voðaverkum stríðsins.

Wibke hefur úr miklu magni af skjölum föður síns og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru efnamiklir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Hún nær að kynnast foreldrum sínum upp á nýtt og miðla okkur af heiðarleika, ekkert er dregið undan.


Þórbergur í Tjarnarbíó

„Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess. En sá sem veitir því hlátur er mestur velgerðarmaður þess.“ - Þórbergur Þórðarson

Öll þrjú boðorð Þórbergs eru uppfyllt í þessari sýningu, Þórbergur í Tjarnarbíó. Maður sá meiri fegurð í súldinni, maður var spakari og maður varð glaðari eftir kvöldstund með Þórbergi.

Er ungur ég var á menntaskólaárunum, þá fór ég á Ofvitann í Iðnó og skemmti mér vel. Man mjög vel eftir frábærum  samleik Jóns Hjartarsonar og Emils Guðmundssonar.  Nýja leikritið ristir ekki eins djúpt.

Ef hægt er að tala um sigurvegara í leiksýningunni er það Mamma Gagga sem leikin er af Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Hún fær sitt pláss og skilar því vel. Á eftir verður ímynd hennar betri. Líklega er það út af því að með nýlegum útgáfum bóka hefur þekking á hlutverki hennar aukist og svo er verkið í leikgerð Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og þaðan kemur femínísk tenging.

Leikmynd er stílhrein og einföld. Viðtal í byggt á frægum viðtalsþætti, Maður er nefndur og spurningar sóttar í viðtalsbók,  í kompaní við allífið. Sniðug útfærsla.  Sveinn Ólafur Gunnarsson skilar Magnúsi spyrli og  vel og verður ekki þurrausinn.  Friðrik Friðriksson á ágæta spretti sem Þórbergur. Sérstaklega fannst mér hann góður þegar hann tók skorpu í Umskiptingastofunni með Lillu Heggu í Sálminum um blómið. Stórmerkar hreyfimyndir af Þórbergi að framkvæma Mullersæfingar lyfta sýningunni upp á æðra plan.

Mannbætandi sýning og ég vona að fleiri sýningar verði fram eftir ári. Meistari Þórbergur og listafólkið á það skilið.

Þórbergur


Mjóifjörður

Sum örnefni eru augljós. Hér er eitt.
Mjóifjörður, 18 km langur og veðursæll, á milli Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Þorp með 24 íbúa í Brekkuþorpi, eitt minnsta þorp landsins. Heiðin lokuð yfir veturinn. Kilfbrekkufossar, rygðaður landgönguprammi, hvalveiðistöð og gamli tíminn heilla mann.
Hvalveiðistöð Ellefsens var á Asknesi og var byggð af Norðmönnum um aldamótin 1900 og var ein stærsta í heimi. Sem betur fer er tími hvalveiða liðinn.


Malarvegur liggur niður í fjörðinn, inn Slenjudal, yfir Mjóafjarðarheið og alveg út á Dalatanga. Það var gaman að keyra niður í Mjóafjörð. Á hlykkjóttri leiðinni sást Prestagil, þar bjó tröllskessa sem tældi til sín presta í Mjóafirði og í Sólbrekku var hægt að fá frægar vöfflur. Í kirkjugarðinum er eitt veglegsta grafhýsi fyrir einstakling sem til er á landinu. Þar hvílir Konráð Hjálmarsson (1858-1939).

Einnig var bókin "Hann er sagður bóndi" æviferisskýrsla Vilhjálms Hjálmarssonar keypt með vöfflunni og lesin er heim var komið. Gaf það meiri dýpt í sögu fjarðarins og bóndans! 

Mjóifjörður

Mjóifjörður séður ofan af Mjóafjarðarheiði með Fjarðará fyrir miðju. 


Everest ****

Fyrir nokkrum árum fór ég á bókamarkað í Perlunni. Um tíuþúsund titlar voru í boð en aðeins ein bók náði að heilla mig en það var bókin Á fjalli lífs og dauða (Into Thin Air) eftir Jon Krakauer.  Kostaði hún aðeins 500 kall. Voru það góð kaup.

a_fjalli_lifs_og_daudaÉg var stórhrifinn af bókinni og vakti hún margar spurningar um háfjallamennsku. Krakauer veltir upp mörgum steinum og sér litla dýrð í háfjallaklifri nútímans. En margir fjallgöngumenn hafa ekkert þangað að gera. Það er ávísun á slys. Einnig upplifði ég bókina betur því íslensku fjallamennirnir þrír sem náðu toppi Everest í maí 1997 fléttuðu sögusvið myndarinnar inn í söguna. 

Auk þess hafa fjallamennirnir Peter Habeler, Ed Viesturs og David Breashears komið hingað til lands á vegum FÍFL og haldið góða fyrirlestra.

Því var ég spenntur fyrir stórmyndinni í þrívídd, Everest sem stjórnað er að Baltasar Kormák.

EverestMargar áhugaverðar persónur og góðar persónulýsingar í bókinni sem er vel skrifuð. Skyldi myndin ná að  skila því?

Stórmyndin er sögð frá sjónarhorni Rob Hall (Jason Clarke) en hann sýndi mikið ofdramb, hafði komið mörgum óþjálfuðum ferðamönnum á toppinn. Aðrar áhugaverðar persónur eru: Bréfberinn Doug Hansen (John Hawkes) sem var að fara í annað sinn og besti klifrarinn. Beck Weathers, (Josh Brolin) sem er óhóflega kumpánalegur meinafræðingur frá Dallas í Texas. Rússneski leiðsögumaðurinn Anatoli Boukreev, leikinn af Ingvari Sigurðssyni. Hann þurft ekkert súrefni. Scott Fisher (Jake Gyllendal) hinum leiðangursstjóranum sem er lýst sem kærulausum og veikum leiðsögumanni. Kona Halls,Jan Arnold (Keira Knightley) kemur inn á mikilvægu augnabliki en myndin er ekki bara fjallamynd, heldur um samskipti fólks. Hafa eflaust margir fellt tár þegar síðasta samtal þeirra hjóna fór fram. Sögumaðurinn í bókinni Krakauer (Michael Kelly) kemur lítið við sögu, er áhorfandi.

Mér fannst meistaralega vel gert hvernig Baltasar notar Krakauer í myndinni en hann varpar fram spurningunni: "Til hvers ertu að fara á toppinn", og leiðangursmenn svara af hreinskylni. Áhrifaríkast er svar bréfberans Doug en hann vildi vera fyrirmynd skólakrakkanna í Sunrise-grunnskólanum, dreyma stóra og litla drauma og þunglyndið hjá Beck.

Sjerparnir fá litla athygli í myndinni en vega þyngra í bókinni. Enda markaður fyrir myndina Vesturlandabúar.

Eflaust á myndin eftir að fá tilnefningar fyrir grafík og tæknibrellur en ég sat framarlega og naut myndin sín ekki á köflum í gegnum gleraugun. Mér fannst sumt mega gera betur. 

Í 8000 metra hæð hafa menn ekki efni á að sýna samúð. Það kom í ljós í myndinni. Hver þarf að sjá um sjálfan sig því fjallið, vonda aflið í sögunni á alltaf síðasta orðið.

Ekki er farið djúpt ofan í orsök slyssins en Krakauer kafaði djúpt í bókinni. Göngumenn áttu að snúa kl. 14.00 en virtu það ekki. Fyrir vikið lágu 8 manns í valnum eftir storm. Hefðu menn virt reglur, þá hefði þessi saga ekki verið sögð.

Balti þekkir storma, rétt eins og í Djúpinu þá var stúdíóið yfirgefið og haldið út í storminn. Það gefur myndinni trúverðugleika.

Hljóð og tónlist spilar vel inní en það þarf að horfa aftur á myndina til að stúdera hana. Þrívíddarbrellur koma nokkrum sinnum vel út og gera menn lofthrædda. Gott atriði þegar klaki fór út í sal í einu snjóflóðinu. Margir gestir viku sér undan klakastykkinu.

Ágætis stórslysamynd sem sendir mann um stund til Himalaya og næsta skref er að lesa bók ofurmennisins Boukreev, The Climb.

#everestmovie


ísöldin og hornfirskir jöklar

Nýlega var opnuð ný gönguleið um Breiðarármörk en hún er fyrsti hluti af Jöklastíg, frá Öræfum og yfir í Lón. Fyrsti hluti er um fimmtán kílómetra og tengir saman þrjú jökullón, Jökulsárlón, Breiðárlón og Fjallsárlón.

Þetta er falleg gönguleið fyrir augað og á leiðinni eru fræðsluskilti með ýmiss konar gagnlegum, fróðlegum og skemmtilegum upplýsingum meðal annars um gróðurfar, fuglalíf og sambýli manns og jökuls.

Þá dettur manni í hug fyrstu rannsóknir á ísaldarkenningunni en hún kom fyrst fram 1815. Nokkrir leiðangar vor farnir til Íslands til að rannsaka náttúruna. Í bókinni ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde, segir frá fyrstu rannsóknarferð Svía undir stjórn Otto Torell. Aðalviðfangsefni var áhrif ísaldarjökla á myndun landsins

ice-age-cover"Heiðurinn af því að leiða kenningar um ísöldina til sigurs í Evrópu og brjóta niður trúna á syndaflóðið og öll afbrigði hennar, á Svíinn Otto Torell, sem með reynslunni úr ferðum sínum á sjötta og sjöunda tug nítjándu aldar á Íslandi, Grænlandi og Spitsbergen, sannfærðist og sannaði að ekki einungis okkar land, heldur líka Norður-Þýskaland, hafi einhvertímann verið þakið jökli.“   - 

Svo skrifar Hans W:son Ahlmann, „Pa skidor och till hast i Vatnajokulls rike“

Svo segir í bókinni: 

Úr skýrslu Torrels  Svínafell við Öræfajökul þann 5. Ágúst

Heinabergsjökull rennur saman við Skálafellsjökul og snertir hérumbil annan jökul austar. Framan jökulsins var bergið núið og rákað með álagshliðina að jöklinum, en stefna rákanna kom ekki heim við jökulinn eins og hann er nú, heldur við það sem verið hefði ef jökullinn hefði verið stærri og runnið saman við eystri jökulinn. Ruðningur á ísnum var í framhaldi af Hafrafelli sem stendur á milli Heinabergs- og Skálafellsjökuls. Er ég fór upp með Hafrafelli heinabergsmeginn fann ég ekki rákir við jökulinn, en greinilegar og vel afmarkaðar rákir úti í stóru gili sem náði frá hliðarruðningi jökulsins skáhallt gegnum neðri hluta bergsins. Þegar ég kom aftur fór ég hinsvegar meðfram þeirri hlið hins jökulsins (Skálafells) sem lá að fjallshlíðinni og fann þar víða hinar fallegustu rákir, ýmist fast við ísinn eða við jökulruðninginn. Þó undarlegt megi virðast mynduðust rákir á kletti einum horn hver við aðra, en í því er einmitt fólgin röksemd Waltershausens geng því að hinar íslensku rákir haf myndast af jöklum.

Sporðurðirnar eru yfirleitt úr smáhnullungum, möl og sandi og gegnbleyttar af jökulánni, en jarðarurðingar eru aftur á móti miklu meira úr stórgrýti og björgum."

Svo er merkilegt hér:

Milli Heinabergs- og Breiðamerkjurjökuls fór ég upp þrjá fjalldali sem lokuðust í botninn af jöklum uppi í fjöllunum sem ganga út úr Klofajökli. Þeir voru ákaflega forvitnilegir, þar sem greinilegt var að þeir voru botnar gamalla jökla. Þvert yfir dalbotninn fjalla á milli lágu nunir bergstallar með rákum sem lágu inn dalina, samsíða stefnu þeirra. Sumstaðar hafði núningurinn grafið skálar í bergið í dölunum.“ (bls. 160)

Einnig framkvæmdu leiðangursmenn skriðhraðamælingar á Svínafellsjökli í Öræfum, þær fyrstu hér á landi.

Hér eru líklega Birnudalur, Kálfafellsdalur og Hvanndalur sem Torell hefur heimsótt. Það væri gaman að finna bergstallana með rákum og skálar í berginu. 

Því má segja að hornfirskir jöklar hafi átt þátt í að staðfesta ísaldarkenninguna. Vonandi verður minnst á þetta á upplýsingaskiltunum. Gott innlegg fyrir menningartengda ferðaþjónustu.


Íslandsferð sumarið 1857

Fyrir nokkru áskotnaðist mér bók ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde (1834-1904).

Þetta var fyrsti sænski vísindaleiðangurinn til Íslands undir stjórn Otto Torell (1828-1900), en ferðafélagi hans var Nils 0:son Gadde sem skrifaði hjá sér lýsingar á ferðinni og því sem fyrir augu bar. Tveir aðrir Svíar voru með í leiðangrinum, Cato og Andres.

nilsosongadde_islandsferdsumarid1857

Leiðangurinn hófst í Þistilfirði og endaði á Akureyri með viðkomu á Mývatni. Þeir unnu að rannsóknum á jöklum í Hornafirði og mældu skriðhraða Svínafellsjökuls í Öræfum.

En Skjaldbreið er mér ofarlega í huga á Jónsmessu eftir Jónsmessugöngu með Ferðafélaginu um síðustu helgi. Þegar þeir félagar koma að Þingvöllum í lok ágúst og lýsa furðum landsvæðisins og þegar þeir sjá Skjaldbreið skrifar Gadde:

Þingvallasvæðið myndast af illræmdum hraunstraumi sem í annan endann teygir sig til upphafs síns, hinnar snævi þöktu hraundyngju Skjaldbreiðar – heiti fjallsins er samsett úr tveim orðum sem tákna skjöldur og breiður – en sökkvir hinum í Þingvallarvatn.  Á þessum hraunfláka eru hinar nafnfrægu gjár, Almannagjá og Hrafnagjá, ásamt fleiri gjám smærri.  Í nokkrum þeirra getur maður séð niður 100-200 fet: allt sem þar er að sjá er gert úr miklum hraunbjörgum.  Einnig finnast stórir hellar á jörðinni, sennilega þannig til orðnir að hraunið hefur haldið áfram að renna undir yfirborðinu eftir að  það var storknað„   

"Í hinu mikla dalflæmi blasir við jafnrunnið hraun með djúpum gjám, báðum megin þess fjallgarðarnir sem afmarka það og fyrir botninum Skjaldbreið með sinni breiðu bungu."                                    (bls. 113, Íslandsferð sumarið 1857)

Hér er Gadde eflaust undir áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og skáldi sem ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns. Hér er fyrsta erindið:

Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna-skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.

En Jónas vissi heldur ekki um landrekskenninguna né ísaldarkenninguna en fyrstu hugmyndir um ísöld komu fram um 1815 og urðu ekki viðurkenndar fyrr en um miðja nítjándu öldina. 

Kvæðið lifir, þótt kenningin um myndun þess sé í einhverjum atriðum fallin. En rómantíkin í kringum það hefur haldið ímynd Skjaldbreiðar og Þingvalla á lofti.

Svo heldur lífsnautnamaðurinn Gadde áfram nokkur síðar:

Almannagjá vestan hraunstraumsins úr Skjaldbreið og  Hrafnagjá austan hans urðu til við það að hraunflákinn, sem er jarðmíla á breidd, sökk. Vesturveggur Almannagjár og austurveggur Hrafnagjár mynda standberg sem gagnstæðir veggir gjánna sprungu frá við sig hraunsins á milli þeirra.“

Þarna er ekki komin þekking á landrekskenningunni en ummerki hennar eru augljós á Þingvöllum en 1915 setti þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) kenninguna fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915.   

Gadde er eins og flestir ferðamenn bergnuminn af náttúrufegurð landsins og bókstaflega á kafi í ýmsum undrum: eldfjöllum, goshverum, fossum og sólarlagi.

Það er gaman að lesa 158 ára frásögn, en þekking og skilningur á landmótun hefur aukist en upplifunin er ávallt sú sama

 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband