Færsluflokkur: Matur og drykkur

Kaldi - besti páskabjórinn

Það er orðin hefð hjá íslenskum bruggurum að bjóða upp á páskabjór. Fimm bjórar eru á markaðnum. Ég efndi til rannsóknar á vinnustað mínum og fékk átta bjóráhugamenn með í tilraunina. Smökkunin fór þannig fram að bjórinn var borinn fram í glösum og fengu smakkarar ekki að vita hvaða tengund var undir smásjánni. Fólk hafði í hug anda páskanna og vildi fá tenginu þarna á milli.  Smökkunin hófst á ljósustu bjórunum. Gefnar voru einkunir á bilinu 0 til 10.

 

Tegund

Styrkur

Flokkur

Litur

Verð

Lýsing

Stig

Egils páskabjór

5,0%

Lager

Gullinn

318

Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Létt korn, kæfa, baunir, hey.

52

Tuborg páskabjór

5,4%

Lager

Gullinn

299

Meðalfylling, þurr, mildur, lítil beiskja. Létt malt, karamella, baunir.

54

Víking páskabjór

4,8%

Lager

Rafgullinn

309

Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Léttristað korn, karamella, sítrus, mosi.

55

Kaldi páskabjór

5,2%

Lager

Rafgullinn

329

Mjúk meðalfylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Léttristað malt, grösugir humlar, baunir.

64

Miklholts papi

5,6%

Öl

Brúnn

399

Þétt fylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Malt, kakó, baunir, hey, létt krydd.

42

Kaldi - Paskabjor

Kaldi páskabjór frá Bruggsmiðjunni Árskógsströnd kom lang best út úr könnuninni. Hann fékk 64 stig. Hann er margslunginn og bragðgóður páskabjór sem kallar fram stemmingu og smellpassar með svínasteikinni.   Í bragðkönnun DV kom Kaldi eins vel út og var röðin mjög svipuð nema hvað vinnufélagar, sérstaklega kvennfólkið, var spart á háar einkunnir Miklholts Papa. Enda skapar sá bjór umræður.

Kaldi er bruggaður eftir aldagamli tékkneskri hefð. Vatnið er tekið úr lind við Sólarfjall í Eyjafirði. Saaz humlar og tékkneskt malt eru notaðir í framleiðsluna. Einn kostur er að bjórinn er án rotvarnarefna og viðbætts sykurs.

Ég er alltaf hrifinn af framleiðslu Ölvisholts manna. Finnst þessi súkkulaði-porter hjá þeim vel heppnaður og svo spyrða þeir söguna skemmtilega inn í framleiðsluna.

Risarnir, Egill, Tuborg og Vífilfell taka litla áhættu, þeir fylgja gömlu bragðlínunni og setja lítinn páskaanda í framleiðsluna.

Ég mæli því með bjórnum Kalda yfir páskahátíðina. Hann rímar einnig vel við veðrið síðustu daga, norðan Kaldi.


Þorrabjór

Suttungasumbl þorrabjór - frá Ölvisholti, mæli með honum. Var í gærkveldi, á Bóndadag, í mjög vel heppnuðu þorrahlaðborði og við smökkuðum alla fjóra þorrabjórana sem til eru á markaðnum. Suttungasumbl er undir miklum áhrifum frá bjórmenningunni í Belgíu. Minnti mig á munkabjórana, La Trappe og Orval. Ölbjórinn skýjaði var sterkastur bjóranna, 7.2%, og fór vel með það. Einn smakkara fann fyrir eik og annar sítrus. Eflaust hafa aðalbláberinn og krækiberin frá Vestfjörðum komið hér við sögu. Einnig er gaman hversu þjóðlegir bruggmeistararnir í Ölvisholti eru. Bætir það bjórmenninguna.

Í boði eru fjórar tegundir af þorrabjór. Suttungasumbl frá Ölvisholti, Jökull þorrabjór, Kaldi þorrabjór og Egilsþorrabjór. Voru allir bjórarnir í 330 ml flöskum og blind smökkun.

Smökkunarmenn þorrabjórsins voru mjög ánægðir með gæði og breidd íslenska þorrabjórsins og voru stoltir yfir því að geta á góða kvöldstund með íslenskri bjórframleiðslu og þjóðlegum íslenskum mat.

Jökull þorrabjór er með mikilli karamellu og því er mikil jólastemming í bjórnum. Var hann dekkstur bjóranna og greindu menn sitrus.

Kaldi þorrabjór var beiskastur, með humla og sítrus áhrifum. Hann er laus við rotvarnarefni. Fundu menn fyrir tékkneskum áhrifum.

Egils þorrabjór er hlutlausastur þorrabjóranna. Ölgerðarmenn taka ekki mikla áhættu. Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi.  Ágætis ímyndaruppbygging hjá Agli og styrkir sjálfsmyndina á Þorra.

TegundStyrkurFlokkurVerðLýsing
Suttungasumbl þorrabjór7,2%Öl409Rafrauður, skýjaður, meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Hveiti, malt, humlar. Höfugur.
Jökull þorrabjór5,5%Lager347Rafgullinn, móða. Létt meðalfylling, þurr, sýruríkur, miðlungsbeiskja. Malt, sítrus, ávaxtagrautur.
Kaldi þorrabjór5,0%Lager323Rafgullinn. Mjúk meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Malt, humlar, soðbrauð.
Egils þorrabjór5,6%Lager319Gullinn, meðalfylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Létt malt, ljóst korn.

Skjalfti-ThorrabjorJokull-ThorrabjorKaldi-ThorrabjorEgils-Thorrabjor


Skötuveizla á Þorláksmessu

Þeir eru skemmtilegir þessar hefðir sem koma upp árlega.  Skötuveisla er ein af þeim.  Stór hluti af fjölskyldunni hittist á Ölver við skötuhlaðborðið.  Það var einnig boðið upp á tindabikkju, skötustöppu, saltfisk og hangikjöt með uppstúf. Einnig voru þrír góðir síldarréttir í boði. Það var skemmtileg stemming þegar komið var að veitingastaðnum, sterk skötulykt angaði fyrir utan húsið í kuldanum. Hvert sæti var skipað í stóra salnum og góð stemming.  Skatan var mjög sterk og tók vel í hálsinn. Ég var með smá vott að kvefi en það rauk úr mér. Réttirnir sem fylgdu á eftir voru bragðlitir.  Lengi lifi skatan.

skataV

 

Á Vísindavefnum stendur þetta um skötu á Þorláksmessu:

"
Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þótt hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling. Þó var fólki stundum leyft að bragða aðeins á jólahangikjötinu ef það var soðið á Þorláksmessu."

Það er einnig gaman að velta því fyrir sér hvernig þessir siðir urðu til.

"Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind"

 

Þorvarður Sigurðsson frá Teigaseli (1942-2001) að verka skötu fyrir utan saltskemmurnar á Hornafirði fyrir 27 árum.


Jólabjór

Einn að góðum fylgifiskum jólanna er jólabjór.

Íslensku örbrugghúsin eru frumleg. Því bíð ég ávallt spenntur eftir afurðum frá þeim. Þar er nýsköpun lykilorðið.

Í fyrstu smökkun voru tveir jólabjórar í úrtakinu, Víking jólabjór og Kaldi Jólabjór.  Voru menn sammála um að Kaldi væri með meiri karakter.  Hinn rotvarnarlausi Kaldi var mildur á bragðið og endað í ágætri karamellu bragði. Víking var daufur í dálkinn og bragðlítill.

Í annarri smökkun voru þrír jólabjórar smakkaðir blindandi og voru fjórir bjóráhugamenn í dómarasætinu. Fyrst var fram borinn Egils Malt Jólabjór. Síðan belgíski bjórinn
Delirium Christmas og að lokum Ölvisholt Jólabjór Reyktur Bock.  Voru bjórnum gefnar einkunnir frá 0 til 10 og fagleg umsögn.

Egils Malt Jólabjór - (8, 7, 8, 8) - Dökkur, mildur og sætur, milt maltbragð. Ekta jólabjór. Sætt milt maltbragð sem gengur í flesta.

Delirium Christmas - (6, 8, 3, 7) - Þurr, batnar eftir því sem á líður, gruggugur með spírabragði, hrár með jurtabragði. Bjórinn hafði þá náttúru að lagast með hverjum sopa. Hann er sterkur, 10% og sá eini í öl-flokknum. Þessi bjór skapar umræður.

Ölvisholt Jólabjór Reyktur Bock- (4, 7, 5, 5) - Rammur, nýtur sín betur með hangikjöti. Bragðmikill reykkeimur einkennir bjórinn sem gerir hann sterkan og skarpan. Smellpassar með reyktum mat.

Eftir formlega blinda smökkun var Kaldi jólabjór á boðstólum og fannst sérfræðingum hann vera þessum þrem bjórum fremri.

Jökull jólabjór var uppseldur en hann var að fá góða dóma rétt eins og Tuborg.

Niðurstaðan er sú að litlu brugghúsin á Íslandi eru frumleg og fremri risunum í útfærslum sem velja öruggustu leiðina að bragðlaukunum.

KaldiJolabjorEgilsMaltJolabjorDeliriumChristmasOlvisholtJolabjorVikingJolabjor

Myndir fengnar af vefnum vinbudin.is og sýnir röð bjóranna í smökkuninni.


Vínsmökkun í Ríki Vatnajökuls

Vínskólinn er merkilegur skóli. Þar er skemmtilegt að vera.

Námið þar dýpkar skilning nemanda á góðum veigum. Eitt af markmiðum Vínskólans er að fara í vínsmökkunarferðir. Ávallt er farið erlendis í slíkar ferðir enda lítið um vínrækt hér á landi. En nýlega sá ég mjög athyglisverða nýbreytni. Vínskólinn ætlar að fara í vínsmökkunarferð innanlands.

AfurdVatnajokullHvernig má það vera hægt, ekki er mikið um víngerð hér landi. En það býr meira á bakvið vínsmökkun en bragð vínsins. Það er samsetning matar og víns. Einnig menning viðkomandi staðar. Ísland hefur upp á mikið að bjóða í mat. T.d. osta, villibráð og allt sjávarfangið.  Því er spennandi að fylgjast með hvernig til tekst með vínsmökkunarferð í Ríki Vatnajökuls. Ég fékk neðangreind skilaboð frá Dominique, skólastjóra Vínskólans fyrir stuttu.

Vínsmökkunarferð innanlands?
Það er vel hægt og hópur er að fara í fyrsta skipti í eins konar óvissuferð norður á land, þar sem fléttað verður saman mat úr héraði (Matarkistu Skagafjarðar og Eyjafjarðar) með kvöldmáltíð á Hótel Varmahlíð og hjá Friðrík V, heimsókn í héruðunum og vínsmökkun með matnum. Auðvelt í framkvæmd, gefandi að skoða hvað landið hefur uppá að bjóða - og það er ótrúlega margt.
Ríki Vatnajökuls í Hornafirði hefur samskonar dagskrá í boði og ekki er sú sveit verr setin hvað matarkistu varðar.
Vínskólinn er stoltur að vera á báðum stöðum samstarfsaðili þeirra sem gera matnum úr sveitum landsins svona hátt undir höfði.


Fiskidagurinn mikli

skutan.jpgHvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og  fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu.  Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.

Næsta gata var Mímisvegur.  Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar.  Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.

Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.

Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.

Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og  á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun  sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.

 


Lava frá Ölvisholt Brugghús

lavaHann er öflugur reykti LAVA Stout skjálftabjórinn frá Ölvisholti Brugghúsi.  Hann tekur vel í og rífur vel í kvefið enda dekkri á litinn en nýstorknað Hekluhraun.  Styrkurinn er mikill, 9.4% og vel falinn á bak við ristað malt og sætt lakkrís eftirbragð. 

Það fyrsta sem tungan skynjar er reykbragð og dúkkar hangiket þá upp í heilanum. Því er tilvalið að hafa með honum reykt kjöt eða reyktan laxfisk. Frönsk súkkulaðiterta er næsta sem heilinn skynjar.  En einn og sér er hann eins og sælgæti, sterkur lakkrís. Þeir eru að gera athyglisverða hluti, í örbrugghúsum landsins.  Eini gallinn við Lava-bjórinn er verðið,  kr. 441  fyrir síðustu hækkun. Þetta er bjór sem á eftir að skapa umræður, annað hvort líkar maður við hann eða ekki, rétt eins og með ríkisstjórnina.

Lava er á smettiskruddu,  og er ég orðinn vinur bjórsins eftir kvöldið.


Páskabjór frá Skjálfta

13950.pngPáskabjórinn frá Skjálfta er tímamótaframleiðsla. Fyrsti íslenski hveitibjórinn. Ölvisholt brugghús sem framleiðir Skjálfta er eitt af skemmtilegum örbrugghúsum "micro-brugghúsum" hér á landi og með þjóðlegar nýjungar.  Framleiðslan er gæðaframleiðsla og ástríða hjá framleiðandanum.

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari og félagar hjá Skjálfta eru  að gera góða hluti og uppfylla vel væntingar bjórunnandans.  Ég smakkaði Páskabjór frá Skjálfta og er hann kraftmikill. Páskabjórinn er sterkur, 6.2% og súkkulaðikeimur kemur fram eftir stutt ferðalag á tungunni. Smellpassar með páskaegginu. Bjórinn er rafgullinn á litinn enda  mjöðurinn grófsíaður, því er hann skýjaður.  Liturinn kemur af ristuðu korni sem notað er við bruggunina.

Ég hvet bjórunnendur til að prófa páskabjórana sem eru til sölu, frá Skjálfta, Kalda og Víking. 

Á vefnum RateBeer.com fær Páskabjór frá Skjálfta ágætis dóma


Lífrænn bjórdagur

Í dag eru nákvæmlega 20 ár síðan Bjórdagurinn rann upp. Það var eftirminnilegur dagur. Þá opnaðist Ísland. Bjórbann var sett á árið 1915 og var aðeins hægt að drekka smyglaðan bjór eða flugfreyjubjór í heilan mannsaldur.

Í tilefni dagsins, þá keypti ég tvo lífrænt ræktaða bjóra til að fagna áratugunum tveim og fagna nýrri hugsun í bjórgerð. Minnka eiturefnin.  Í dag voru norrænir víkingar og ráðmenn á ráðstefnu og var markmiðið að gera Norðurlönd að Grænum dal í Evrópu. Lífræn ræktun er partur af þeirri áætlun.

Lífrænu bjórarnir bresku sem til sölu í Vínbúðinni eru,  Fuller's Honey Dew og menntabjórinn Brakspear Oxford Gold. Ég keypti tvö eintök í tilefni tímamótanna.

Fullers

 

Flokkur: öl

Styrkleiki: 5%

Verð: 514 krónur.

Fuller's Honey Dew er eins og nafnið segir, hungansöl. Ljósgullin að lit og með mikið hungansbragð. Ferskur og með langt eftirbragð. Flaskan er 500 ml og virðuleg. Hungangsfluga flýgur á tappanum. Fínt hungansöl.

Þessi hunangsbjór er mest seldi lífræni bjór á Bretlandi.

 

 

 

Oxford

 

Flokkur: öl

Styrkleiki: 4,6%

Verð: 405 krónur.

Brakspear Oxford Gold er gullinn með miðlungs beiskju.  Frískur og með styttra eftirbragð en Fuller's. bjórinn. Hungansbragð er yfrignæfandi. Áægtis hunangsöl.

Þessir tveir lífrænu bjórar eiga margt sameiginlegt. Hugnangsbrað skín í geng. Verðlagning er aðeins hærri en meðalbjórverð. Lífrænir bændur nota ekki eitur á plöntur og skordýr.  Engin aukaefni, enginn sykur, engin gerilsneyðing Framleiðendur vinna ekki á MÓTI náttúrunni heldu MEÐ náttúrunni. Því er meiri aukavinna. Því er fórnarkostnaðurinn vonandi falin í minna DDT.

Mungát Þorrabjór

Mungát

Hið árlega Þorrablót Hornfirðinga  verður haldið í kvöld í félagsheimilinu Seltjarnarnesi.  Vel yfir 208 Hornfirðingar er skráðir til blóts og stefnir í góða skemmtun. Hin kunna Ólafía Hrönn Jónsdóttir verður veislustjóri og hinir hressu spámenn, Ingó og Veðurguðirnir sjá um dansleikinn.

Þegar svona stórviðburður á Þorra rekur á fjörur manns verður maður að gera  úttekt á þorrabjór landans. Það eru fjórar tegundir boðnar til sölu í vínbúðum landsins. Egils Þorrabjór, Jökull Þorrabjór, Kaldi Þorrabjór og ósíaður Mungát Þorrabjór.

Ég var spenntastur fyrir að hefja smakkið á Mungát Þorrabjórnum frá  Ölvisholt Brugghús. Þeir eru svo þjóðlegir á Suðurlandinu. Á flöskumiðanum stendur:

Mungát er forna íslenska alþýðuheitið á öli og var drykkur almúgans við veislur meðan höfðingjar sátu við háborðið og kneifuðu mjöð. Ölvisholt Mungát var bruggaður í mars 2008. Nú er bjórinn loks fullþroska, rétt í tæka tíð fyrir þorrann. Ríkuleg kryddun með hvönn og mjaðurt, sem voru notaðar á Íslandi fyrr á öldum við ölgerð, gerir Mungát að einstökum íslenskum bjór sem passar sérstaklega vel með þorramatnum.

Þegar gullinn almúgabjórinn Mungát fyllti bjórglasið sér glöggt að hann er ósíaður og því skýjaður. Það myndast mótmælastemming í manni við sjónina. Nokkur beiskja finnst við fyrsta sopa en þegar líður á glasið jafnast hún út. Bruggararnir eru að leika sér að bragðlaukum almúgans og með smá einbeitningu má finna blómið í drykknum.    Lýsing á bjór: Gullinn, skýjaður, meðalfylling, þurr, mildur, miðlungs beiskja. Maltbrauð, karamella, blóm, lifrarpylsa.

Þjóðlegur og spennandi drykkur sem minnir mig á La Trappe.  Litlu íslensku brugghúsin eru að standa sig feikna vel í framleiðslunni og ætla ég að einbeita mér að drykk frá þeim Kreppuárið 2009 og örugglega lengur meðan þau uppfylla væntingar mínar.  Ég fór að loknu bjórglasinu í leit að frekari upplýsingum um Mungát.

Kvæðið Mungát eftir Einar Benediktsson birtist í Hvömmum, sem kom út árið 1930.

Svo há og við er hjartans auða borg,
að hvergi kennir rjáfurs eða veggjar.
En leiti ég manns, ég lít um múgans torg;
þar lifir kraftur, sem minn vilja eggjar.
Hvað vita þessir menn um sælu og sorg,
er supu aldrei lífsins veig í dreggjar.
Ég þrái dýrra vín og nýja vini,
og vel mér sessunaut af Háva kyni.

Í Egilssögu má finna orðið mungát og hér er ein stórbrotin setning:

Þótt Ármóður hafi varla meint það, sem hann sagði við Egil forðum, „at honum þætti þat illa, er hann hafði eigi mungát at gefa þeim“, þá liggur í orðalaginu, að hér væri um góðgæti að ræða.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 226332

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband