Færsluflokkur: Menning og listir

Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði

Nú berast fréttir af því að þrjár langreyðar hafa verið veiddar og séu komnar í verstöðina í Hvalfirði. Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 30 árum 

Fyrir 30 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.

Á síðasta ári fóru 360.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn.

Hér á eftir er grein sem skrifuð var á horn.is 2003.

Á hvalaslóð
Þegar ég vann hjá Jöklaferðum hf á árunum 1993-1996 var ekkert sem takmarkaði fyrirtækið nema stærð alheimsins. Jöklaferðir eru að öllum líkindum fyrsta sérhæfða afþreyingarfyrirtækið í ferðaþjónustu hér á landi en það var stofnað í maí 1985. Markmið félagsins var að standa fyrir ævintýraferðum á Vatnajökul og nágrenni. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var hinn umdeildi sölumaður af guðs náð, Tryggvi Árnason.

Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF-44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Stímið þangað var um fjórir tímar. Töluverð kvika var í straumhörðum Ósnum og þegar Óli Björn keyrði á 10 mílunum var mikill veltingur. Hver fuglaáhugamaðurinn á fætur öðrum varð grænn og þegar ég hafði talið 12, varð ég líka sjóveikinni að bráð og sá mikið eftir því að hafa gefið kost á mér í þessa ferð. Þó höfðu menn tekið inn sjóveikistöflur. Loks sáust Hrollaugseyjar og við komin á hvalaslóð, sjólag var orðið gott.

Á leiðinni sáum við hnísur, minnstu hvalategund hér við land. Skyndilega kom höfrungavaða, (hnýðingur og stökkull) og lék listir sínar fyrir okkur, 5-10 dýr í hóp. Þeir eru afar hraðsyndir og koma oft stökkvandi á fleygiferð í átt að skipinu til þess að leika sér í bárunni sem kinnungurinn ryður frá sér. Sjóveikin var horfin og ég sá ekki lengur eftir því að hafa farið í þessa ferð. Næsta atriði var stórfenglegt en þá vorum við komin í hóp hnúfubaka, fjöldi á annan tug og var magnað að fylgjast með þeim koma upp úr sjónum og undirbúa köfun. Þessi ferlíki, hvítskellótt af hrúðurkörlum, geta orðið 17 metrar á lengd og 40 tonn að þyngd og ná háum aldri, lífslíkur 95 ár. Þegar þeir fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum úr sjónum og sést þá litamynstur neðan á sporðblöðkunni en engir tveir einstaklingar hafa sömu áferð. Við sigldum á milli þeirra í dágóða stund og var magnað að fylgjast með atferli hvalanna og fólksins sem var á dekki. Það má segja að þarna hafi verið mikill bægslagangur því eitt sérkenni tegundarinnar eru gríðarlöng bægsli sem geta orðið allt að sex metra löng. Á heimleiðinni bauð Bugga, Sigurbjörg Karlsdóttir humarkokkur, upp á humar, matreiddan á marga vegu. Sumir þátttakendur voru svo mikil náttúrubörn að þeir borðuðu aðeins grænmeti. Í september fór ég svo aftur í ferð með nærri 30 manna hóp frá bresku ferðaskrifstofunni Discover The World sem voru í helgarferð. Annar dagurinn fór í hvalaskoðun og hinn í jöklaferð. Í þessari ferð voru einnig kvikmyndatökumenn frá Saga Film (en þeir bjuggu til 15 mínútna kynningarmyndband), Mark Carwardine leiðsögumaður en hann er heimskunnur hvalasérfræðingur og rithöfundur, Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Eystrahorni og Jón Sveinsson apótekari. Stefnt var á Hrollaugseyjar. Á leiðinni sáum við hrefnu sem fylgdi okkur áleiðis en líkur á að sjá þær eru mjög miklar eða um 90%. Tvær hnísur sáust skyndilega en stundum getur verið erfitt að koma auga á þessi smáhveli, bakugginn sést í smástund og hún getur horfið eins og hendi sé veifað. Kapteinn Óli Björn var í stöðugu sambandi við trillukarlana sem voru dýpra en þeir höfðu enga hvali séð. Stutt frá Tvískerjum sást svo stórhveli, hnúfubakur, og hann skemmti okkur mikið. Strákarnir hjá Saga Film fóru út í hraðbát sem var um borð og nálguðust hnúfubakinn og eltu hann. Þeir náðu mögnuðum skotum af honum. Veislunni var ekki lokið því þegar við vorum á heimstíminu komu höfrungar og léku sér við bátinn. Þarna voru færri dýr á ferð enda komið haust en samneytið við Öræfajökul bætti það upp. Þetta var því nokkuð merkileg ferð eins og lesa má á greinunum „Hvalaskoðun” í Eystrahorni eftir Gunnþóru og „Sporðaköst undir jökli” eftir Ara Trausta Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. mars 1994. Síðar í mánuðinum fóru þrír hópar í hvalaskoðunar- og jöklaferð og alls komu 150 manns í hvalaskoðunarferðirnar þetta árið.
Það er gaman að lesa yfir greinarnar tæpum 10 árum eftir að þær voru skrifaðar. Blaðamenn eru hógværir á framtíð þessarar nýju greinar í ferðaþjónustu og enginn hefði þorað að spá að rúmlega 60.000 manns ættu eftir að fara í hvalaskoðunarferðir tæpum áratug síðar. Boðið var upp á sjóstangaveiði í ferðunum en ekki var mikill áhugi á þeim hjá ferðafólkinu, ekki í þeirra eðli að stunda veiðar. Flestir þeirra hafa mikinn áhuga á náttúruvernd, þ.á m. hvalafriðun. Í þeirra huga eru hvalir ekki nytjadýr heldur hluti náttúrunnar, eingöngu til að skoða og dást að. Því myndi líklega draga mikið úr aðsókn í hvalaskoðunarferðir ef hvalveiðar hæfust við Ísland. Eða eins og Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstövarinnar á Húsavík, orðar það: „Það gengur aldrei upp að sýna hval á stjórnborða og skjóta hann á bakborða”. Auk þess eru þessar ferðir meira en hvalaskoðun, þetta er náttúruskoðun í hæsta gæðaflokki þar sem landið er skoðað frá öðru sjónarhorni

Markaðsstarfið gekk vel hjá Clive Stacey og félögum hjá Discover the World, dótturfyrirtæki Arctic Experience í Englandi, og næsta ár seldist í mun fleiri ferðir. Var Ásbjörn fararstjóri í þeim ferðum næstu ár. Hann smitaðist þarna af hvalabakteríunni stóru og hefur byggt upp starfsemi Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík frá árinu 1997. Getur Húsavík kallast með réttu “hvalaskoðunarhöfuðborg Evrópu” en 25.000 manns fóru í ferðir þaðan á síðasta ári og er bærinn orðin stærsti einstaki hvalaskoðunarstaðurinn í Evrópu.

Hvalreki
Ég rifja þetta upp af því að á síðasta ári komu hvalir mikið við sögu á Hornafirði. Í vor rak hnúfubak inn í Hornafjörð, í lok ágúst strandaði kálffull hrefna í Skarðsfirði og háhyrningur fannst í vetur við Stokksnes. Hvalir eru stærstu dýr jarðarinnar og vekja því mikla eftirtekt. Ef hvalir lenda í ógöngum komast þeir á forsíður íslensku blaðanna og jafnvel í heimspressuna.

Það fyrsta sem hornfirsku náttúrubörnin, hvalaskurðarmenn, gerðu þegar búið var að skera hvalkjötið var að hringja til Húsavíkur og bjóða beinin og hrefnufóstrið til Hvalamiðstöðvarinnar. Ásbjörn Björgvinsson sagði í viðtali við DV í sumar að hann hefði orðið húkt á hvali eftir ferðirnar með Jöklaferðum og Discover the World fyrir tæpum áratug.
Mér finnst nú þarft að benda mönnum á að Hornfirðingar voru brautryðjendur í þessari afþreyingu og einnig þá staðreynd að árið 2001 fóru 60.550 manns í hvalaskoðunarferðir með 12 fyrirtækum en enginn frá Hornafirði! Það mætti svo sem geyma eitt beinasett á Hornafirði, þó ekki nema til að minnast uppruna hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Á þessari stundu fer um hugann upphafserindi í kvæði Davíðs Stefánssonar:
“Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná.”

Kafteinn Óli Björn Þorbjörnsson og Páfinn, Baldur Bjarnason vélstjóri, komu skipinu Sigurði Ólafssyni allaf í land með brosandi fólki en hvalaskoðunarferðir frá Höfn urðu ekki blóm þótt Jöklaferðir hafi sáð mörgum fræjum.

Því er vert að spyrja, af hverju er ekki boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Höfn? Ein skýringin er sú að langt er á góð hvalaskoðunarmið, því verða ferðir þaðan dýrari og lýjandi. Enginn Hornfirðingur treystir sér til að reka hvalaskoðunarbát sem þó gæti nýst í fleira, t.d. sjóstangaveiði, skemmtiferðir og skoðunarferðir um Ósinn.

Svo ég haldi hugarfluginu áfram fyrst ég er kominn í stuð, þá mætti huga að hvalasafni tengdu byggðasafninu. Ég vil minna á að í Grindavík var opnað Saltfisksetur í september síðastliðinn sem á að höfða til erlendra ferðamanna. En ég minni á að Hornfirðingar eru margfaldir Íslandsmeistarar í saltfiskverkun með EHD merkið heimsfræga. Hví ekki að stofna Humarsetur, þar eigum við heimsmeistaratitil, eða Síldarsetur með áherslu á reknetaveiðar. Væri ekki hægt að spyrða þessi söfn einhvernvegin saman? Svo væri hægt að tengja söfnin við Kaldastríðið með því að varðveita ratsjárstöðina og skermana á Stokksnesi. Þetta er kallað menningartengd ferðaþjónusta og gæti hún dafnað vel eins og hvalaskoðunarferðirnar.

Legg ég því til að næsti hvalur sem strandar á Hornafirði verði verkaður af náttúrubörnunum, Gústa Tobba, Kidda í Sauðanesi og hvalskurðarmönnum staðarins. Beinagrindin verði hengd upp í Nýheimum og hvalurinn verði nefndur Tryggvi Árnason í höfuðið á frumkvöðli hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.


Þakka Arnþóri Gunnarssyni fyrir faglega ráðgjöf og Tryggva Árnasyni fyrir upplýsingar við gerð pistilsins.


Hvalaskoðun II - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson

Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa

Heimildir:
DV, 21. júní 1993, „Hvalaskoðunarferðir frá Höfn: Hnúfubakar blása og höfrungar stökkva”, Ari Sigvaldason
Eystrahorn, 31. tölublað , 9. september 1993, „Hvalaskoðun”, Gunnþóra Gunnarsdóttir
Hvalaskoðun við Ísland, JPV-útgáfa 2002, Ásbjörn Björgvinsson & Helmut Lugmayr
Morgunblaðið, 26. september 1993, „Á hvalaslóð”, Guðmundur Guðjónsson
Morgunblaðið, 12. mars 1994, „Sporðaköst undir jökli”, Ari Trausti Guðmundsson


mbl.is Hvalirnir komnir til hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísmaðurinn Ötzi – ferðalangur frá koparöld

Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum.  Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.

Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.

Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.  

Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár,  skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun.   Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn

Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!   

Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.

Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.

Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.

Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.

Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.

 

Hvað gerði Ötzi?

Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður,  að leita að málmi, eða … kenningar um hann eru alltaf að breytast.

En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann.  Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.

Dauði Ötsi

Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.

En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum.  Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.

En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.

Ötzi

Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heimildir


200 ár frá fæðingu Sölva Helgasonar - Sólon Íslandus

Líkt og Kristur forðum
varstu krossfestur af lýðnum
sem til leti taldi heimspeki og list
Hög var hönd og hugur þinn
og að þér hændust börnin
og marga heita konu fékkstu kysst (Magnús Eiríksson)

Þann 16. ágúst eru 200 ár síðan Sölvi Helgason, flakkari, listamaður og spekingur fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð í Skagafirði, á ströndinni við ysta haf.

Ég hafði helst heyrt um Sölva í gengum lagið Sölvi Helgason flutt af hljómsveitinni Mannakorn.  Í fyrrasumar fór ég á Kjarvalsstaði en þar voru þrjár sýningar. Ein af þeim var Blómsturheimar sem tileinkuð var verkum Sölva. Listfræðingur lóðsaði okkur um sýningarnar og sagði frá 18 nýjum verkum Sölva frá Danmörku. Mér fundust blómamyndirnar ekkert sérlega spennandi, mikil endurtekning en blöð sem Sölvi hafði skrifað á vöktu athygli mína. Það voru örsmáir stafir með fallegri rithönd á þéttskrifuðu blaði, allt gjörnýtt.  Listfræðingurinn var spurður út í þetta og svarið var augljóst.

Skrift Sölva var frábær, og kunni hann margbreytta leturgerð. Venjulega skrifaði hann svo smátt, að ólæsislegt var með berum augum. Gerði hann það bæði til að spara blek og pappír og eins til að sýna yfirburði sína í því sem öðru. Þá gat fólkið, sem alltaf var á þönum í kringum hann, síður lesið úr penna hans, því að ekki skorti það forvitnina. Annars var það víst litlu nær, þótt það gæti stafað sig fram úr nokkrum línum. Það svimaði um stund af ofurmagni vizku hans. Það var allt og sumt.   (Sólon Íslandus II, bls. 286.)

Minnisvarðinn

Eftir þessa sýningu vissi ég aðeins meira um Sölva en fyrir aðra tilviljun kynntist ég lífshlaupi Sölva eða Sólon Íslandus í sumar er ég heimsótti Skagafjörð.  Ég heimsótti minnisvarða um Sölva við bæinn Lónkot í Sléttuhlíð og lagði rauða rós við minnisvarðann.  Þar frétti ég að til væri bók um hann, Sólon Íslandus eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Því var ákveðið að fá hana lánaða og lesa bindin tvö eftir farsæla dvölina nálægt Sléttuhlíð.

Minnisvarði  Sölvi Helgason

Ég sé Sölva Helgason fyrir mér þar sem hann situr á skýjahnoðra yfir Sléttuhlíð í Skagafirði. Augu hans flökta en staðnæmast við minnisvarðan í Lónkoti. Rósin þín og styttan mynna okkur á að einu sinni fyrir löngu var förumaður á Íslandi sem lifði í eigin heimi. Hann reyndi að opna augu samferða fólks síns á sjálfum sér í máli og myndum. Engin skildi hann fyrr en eilífðin hafði sléttað yfir sporin hans.”  -GT

 

Sólon Íslandus

Ég hafði gaman af lestri bókarinnar og hjálpaði dvöl mín mikið og gaf nýtt sjónarhorn. Ég áttaði mig miklu betur á landinu, heiðunum og kraftinum í hafinu sem Davíð lýsir svo meistaralega vel.  Skáldsagan segir á sannfærandi hátt frá lífshlaupi Sölva sem tekur sér nafnið Sólon Íslandus og er spegill á 19. öldina. Það kom á óvart þegar fréttist að Davíð væri að skrifa bók um Sölva  sem kom út árið 1940 en það er snjallt hjá höfundi að nota förumann til að ferðast um Ísland á þessum hörmungar tímum þar sem vistarbönd voru við lýði og alþýðufólk mátti ekki ferðast á milli sýslna án reisupassa.  Sagan er listilega vel skrifuð með mikið af fallegum gömlum orðum  sem sýnir hvað Davíð hefur mikið vald yfir tungumálinu og lifði ég mig vel inn í tímann fyrir 200 árum. Gagnrýnendum finnst hann draga ókosti Sölva meira fram en kosti í sögulega skáldverkinu. Persónusköpun er góð og margar persónur mjög eftirminnilegar.

Erfiðri æsku sem mótaði hann er lýst mjög sannfærandi og fallegu sambandi hans við móður hans en hún lést er hann var á unglingsaldri. Faðir hans ofdekraði hann en lést er Sölvi var fjögurra ára.  Samband stjúpföður hans var byggt á hatri.  Eftir að hann varð munaðarlaus fór hann á flakk eða gerðist landhlaupari. Mögulegt er að þessi áföll hafi gert hann sinnisveikan.

Frelsið

En Sólon Íslandus lét ekkert stöðva sig. Örlögin höfðu synjað honum þeirrar náðar, að stunda  bókvísi á skólabekk. Líkamlegt strit var honum ósamboðið. Hann barðist fyrir frelsis. Frjálsborinn maður,  hann vari hvorki hreppakerling né glæpamaður, heldur frjálsborinn höfðingi og spekingur, sjálfráður ferða sinna.  Jarðhnötturinn var hans heimili.

Þessi afstaða hans kostaði sitt og eyðilagði bestu ár lífs hans. Þegar Sölvi var 23 ára var hann handtekinn og ákærður fyrir flæking og að falsa yfirnáttúrlegan  reisupassa. Hann fékk dóm upp á 27 vandarhögg.  Nokkrum árum síðar var hann aftur ákærður fyrir lausamennsku og flakk. Hann uppskar  fleiri vandarhögg . Árið  1854 var hann síðan dæmdur til þriggja ára betrunarvistar í Danmörku. Sölvi stóð með sjálfum sér.

Þegar hann kom til Íslands  hélt hann flakkinu samt áfram og helgaði sig enn meir málaralistinni. En lífið var barátta og sýn bænda var sú að fólk hafði annað að gera í fjallkotunum en að góna út í loftið. Lifði ekki af fegurð, heldur striti.

En Sölvi svaraði: Er það ekki vinna að ferðast um landið og gera af því uppdrætti og kort? Er það ekki vinna að stunda vísindi og listir?

Í fari hans fór saman brengluð sjálfsímynd, lituð af oflæti, en jafnframt ókyrrð og stefnuleysi, sem þóttu almennt vera ógæfumerki. Sumir kölluðu hann loddara en aðrir snilling. (bls. 120 FÍ árbók 2016)

Allt eru þetta sjálfsögð réttindi í dag, að geta ferðast um landið og einstök barátta hans við embættismannakerfið. Aldri gafst hann upp.   Þarna rannsökuðu og dæmdu sýslumenn í sama málinu, mannréttindabrot voru framin.

Saga Sölva á vel við í dag, blökkumenn í Bandaríkjunum eru í sömu baráttu, samkynhneigðir og fleiri. En Sölvi var einn í baráttunni, ólíkt Rosa Parks sem neitaði að standa upp fyrir kúgurum sínum. Enginn skildi hann.

Eins dáist ég af sjálfstrausti hans og seiglu, standa upp í hárinu á embættismönnum og geta lifað á heiðum Íslands en veður voru oft slæm.

Sölvi lést 20. október 1895, 75 ára að aldri á Ysahóli í sömu sveit og hann fæddist. Vistarbandið sem hélt honum föngnum hættir á þessum tíma.

En hver er arfleið Sölva?  Mannréttindabarátta og listaverk. En hann er frumkvöðull í málaralist á Íslandi. Frjáls og sjálflærður listamaður með nýja stefnu sem fólk skildi ekki. Honum var ýtt til hliðar, hann er naivisti, en það sem hann gerði spratt úr hans eigin hugarheimi. Blómin eru ekki íslensk fjallablóm heldur úr hans fantasíu heimi. 

Einnig er óútgefið efni á Þjóðminjasafninu. Þar á meðal Saga Frakklands en hann var undir áhrifum frá frelsandi Frakklandi.

Eftir að hafa fræðst um Sölva, þá hefur hann vaxið mikið í áliti hjá mér þó hann hafi verið erfiður í samskipum og blómamyndirnar verða áhugaverðari og fallegri. Mæli með lesti á bókinni Sólon Íslandus, það er skemmtileg lesning. 

En best er að enda þetta á lokaorðum Ingunnar Jónsdóttur í Eimreiðinni 1923 en hún kynntist Sölva á efri árum en þá voru enn miklir fordómar út í lífsstíl Sölva: “En alt fyrir það hefir mér ekki gengið betur en öðrum að ráða þá gátu, hvort hann var heimspekingur eða heimskingi.”

Listaverk Sölvi Helgason

Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2016
Eimreiðin, tímarit 1923.
Harpa Björnsdóttir, ruv.is 2019.
Sólon Íslandus, Davíð Stefánsson 1940.
Sölvi Helgason, listamaður á hrakningi, Jón Óskar 1984.


Hornafjarðarmanni - Íslandsmót

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna verður haldið síðasta vetrardag í Breiðfirðingabúð. Keppt hefur verið um titilinn frá árinu 1998 og hefur Albert Eymundsson verið guðfaðir keppninnar. Nú tekur Skaftfellingafélagið í Reykjavík við keflinu.

HumarManniÞað er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður eystra og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið.

Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni.

Til eru nokkur afbrigði af Manna, hefðbundinn manni, Trjámanni, Laugarvatnsmanni og Hornafjarðarmanni og sker sá síðastnefndi sig úr þegar dregið er um hvað spilað verður. En mögulegir samningar eru sex talsins:  nóló, grand, hjarta, spaði, tígull og lauf.

Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Það er hentugt keppnisform fyrir mismunandi fjölda spilara. Fyrst er forkeppni og eftir hana er útsláttarkeppni.  Eftir stendur einn sigurvegari, sá sem fær flest prik. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni.

Albert Eymundsson endurvakti Hornarfjarðarmanna til vegs og virðingar þegar Hornafjörður hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins 1997 og hefur síðan verið keppt um Hornafjarðarmeistara-, Íslandsmeistara- og Heimsmeistaratitil árlega.  

Síðasta vetrardag, 18. apríl, verður haldið Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna og eru allir velkomnir. Spilað verður í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 og hefst keppnin kl. 20.00. Góðir vinningar. Aðgangseyrir kr. 1.000, innifalið kaffi og kruðerí, þar á meðal flatkökur með reyktum Hornafjarðarsilungi.

Sigurvegarinn fær sértakan farandverðlaunagrip sem Kristbjörg Guðmundsdóttir hannaði og hýsir í ár.


Refurinn ***

Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er fjórða saga höfundar.  Sögusvið bókarinnar er í Höfn í Hornafirði og Lóninu.  Þetta er því áhugaverð bók fyrir Hornfirðinga og nærsveitarmenn.

Höfundur hefur kynnt sér umhverfið ágætlega. Ýmsum raunverulegum hlutum er fléttað inn í söguna. Flugvöllurinn, Kaffihornið, herstöðin á Stokksnesi og landsmálablaðið Eystrahorn koma við sögu. Einnig  Hafnarbraut,  Náttúrustígurinn og í lokin einbreiða brúin yfir Hornafjarðarfljót.

Einangrun en meginþemað.  Einangrun bæjarins Bröttuskriður austast í Lóni nálægt Hvalnesskriðum. Einangrun söguhetjunnar vegna ólíks menningarlæsis og einangrun löggunnar Guðgeirs.

Hafnarbúar koma vel út, eru hjálpsamir, sérstaklega flugafgreiðslumaðurinn enda líta innfæddir Hornfirðingar á ferðaþjónustuna sem þjónustu en ekki iðnað.

En söguhetjurnar eru ekki fullkomnar frekar en annað fólk. Söguhetjan Sajee er frá Sri Lanka og skilur íslenskt talmál bærilega en er með lélegan lesskilning.  Hún kemur fljúgandi til Hornfjarðar og átti að hefja vinnu við snyrtistofu Hornafjarðar en það var blekking. Hjálpsamur hóteleigandi finnur ræstingarvinnu fyrir hana á Bröttuskriðum undir hrikalegu Eystrahorni í nábýli við álfa og huldufólk. Þar búa mæðgin sem eru einöngruð og sérkennileg. Sajee leiðist vistin og vill fara en er haldið fanginni. Engin saknar hennar því hún á ekki sterkt bakland á Íslandi.

Fyrrverandi lögregluþjónn sem vinnur hjá Öryggisþjónustu Hornafjarðar fær þó áhuga á afdrifum erlendu konunnar og hefur eigin rannsókn. Þá hefst óvænt flétta sem kom á óvart en bókarhöfundur hafði laumað nokkrum upplýsingum fyrr í sögunni.  Það er því gaman að sjá hvernig kapallinn gengur upp.

Ágætis krimmi með #metoo boðskap, saga sem batnar þegar á bókina líður.

Refurinn 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tenglar:

Salka bókaútgáfa: https://cdn.shopify.com/s/files/1/1090/3582/products/Refurinn_web_1024x1024.jpg?v=1509525051

Kiljan: 

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/solveig-palsdottir-segir-fra-bok-sinni-refurinn

Skáld.is: 

https://www.skald.is/single-post/2017/10/27/Hva%C3%B0-getur-gerst-%C3%BEegar-%C3%B6rv%C3%A6nting-og-%C3%B3tti-tekur-v%C3%B6ldin---Vi%C3%B0tal-vi%C3%B0-S%C3%B3lveigu-P%C3%A1lsd%C3%B3ttur


Myrkrið veit ****

Bókin Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason er áhugaverð bók enda varð hún söluhæsta bók ársins.

Í þessari glæpasögu er kynntur nýr rannsóknarlögreglumaður til leiks, Konráð heitir hann og kynnist maður honum betur með hverri blaðsíðu. Hann er nokkuð traustur og áhugaverður, flókinn æska og með brotinn bakgrunn, visna hönd og persónuleg vandamál eins og allir norrænir rannsóknarlögreglumenn.  Í lok sögunnar kemur skemmtilega útfært tvist á karakter Konráðs.

Það sem er svo áhugavert við bækur Arnaldar er persónusköpun hans og hvernig hann kynnir hverja og eina persónu til leiks.  Einnig er tækni höfundar góð við að setja lesandann niður í tíðarandann. Fólk sem komið er á miðjan aldur kannast við mörg atriði sem fjallað er um og getur samsamað sér við söguna. 

Dæmi um það er Óseyrarbrúin og Keiluhöllin í Öskjuhlíð. Þessi mannvirki koma við sögu og fléttast inn í sögusviðið og gera söguna trúverðugri.  Ég fletti upp hvenær mannvirkin voru tekin í notkun og stenst það allt tímalega séð.  Keiluhöllin var tekin í notkun 1. febrúar 1985 og Óseyrarbrú 3. september 1988. Stafandi forsætisráðherrar voru aðal mennirnir við vígsluathafnirnar.

En í sögunni eru þrjú tímabil,  morðið á Sigurvin árið 1985, bílslys árið 2009 og sagan lokarannsókn Konráðs sem kominn er á eftirlaun árið 2016.

Einnig er falleg sena um Almyrka á tungli á köldum morgni á vetrarsólstöðum árið 2010 en þá yfirgefur eiginkona Konráðs jarðlífið. Allt gengur þetta upp. Annað sem er tákn í sögum Arnaldar er bíómyndir en þær koma ávallt við sögu, rétt eins og jarðarfarir í myndum Friðrik Þórs.

Sögusviðið þarf að vera nákvæmt fyrir Íslendinga. Eða eins og Ari Eldjárn orðaði svo skemmtilega í spaugi um kvikmyndina Ófærð:  „Hvernig eiga Íslendingar að geta skilið myndina þegar maður gengur inn í hús á Seyðisfirði og kemur út úr því á Siglufirði.“

Toppurinn í nostalgíunni er innslagið um rauðvínið The Dead Arm, Shiraz  frá Ástralíu.   (bls. 186)  - Sniðug tengin við visnu höndina og lokasenuna en vínið er staðreynd.

Eini gallinn í sögunni og gerir hana ósannfærandi er að Arnaldur hefur gleymt verðbólgudraugnum, peningar sem finnast í íbúð virðast ekkert hafa tapað verðgildi sínu.

Ég var einnig hrifin af elementum sem koma við sögu í bókinni en jökull, brýr loftslagsbreytingar, léttvín og kvótakerfið koma við sögu. Einnig minnir líkfundurinn í Langjökli mann á Geirfinns og Guðmundarmál, endurupptaka en jöklarnir vita svo margt.

Myndlíkingin við Ölfusá er tær skáldasnilld hjá Arnaldi, þegar ein sögupersónan situr þar og horfir í fljótið en jökullin sem er að bráðna geymdi líkið í 30 ár.

Það er einnig húmor og léttleiki í sögunni, meiri en ég hef átta að venjast frá Arnaldi.

Sem sagt vel skrifuð og fléttuð bók en glæpurinn og lausn hans er frekar óspennandi og liggur stundum í dvala.

Myrkrið veit

Hönnun á bókarkápu er glæsileg, form andlit í jöklinum. Vel gert.

 

Tenglar:

Óseyrarbrú - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122021&pageId=1688158&lang=is&q=%D3seyrarbr%FA

Keiluhöllin - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119930&pageId=1605489&lang=is&q=KEILUH%D6LLIN%20Keiluh%F6llin

Almyrkvi tungls - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=339641&pageId=5343991&lang=is&q=tungl%20tungl


Siglunes á Barðaströnd

Frá Siglunesi var róið um aldir og sagt er: Sá sem frá Siglunesi rær – landi nær.

Siglunes er úrvörður Barðastrandar til vesturs og lífhöfn sjófarenda en útvörður í austri er Vatnsfjörður.

Siglunes liggur yst á Barðaströnd við opinn Breiðafjörðinn og andspænis Snæfellsnesi krýndu samnefndum jökli.

Siglunesið býður upp á fjöruferð, ferð upp til fossa og að fjárrétt undir sjávarbökkum. Siglunesá rennur niður fjallið og gengum við upp með ánni og geymir hún fjóra fossa Hæstafoss, Undirgöngufoss, Háafoss og Hundafoss. Útsýni mjög gott yfir hluta Barðastrandarinnar.

Síðan var farið út á Ytranes og  svæði þar sem verbúðir voru um aldir. Við sáum fimm seli og nokkur úrgang, mest frá nútíma útgerð.  Dásamlegt að ganga berfættur í gylltum heitum sandinum til baka með stórkostlegt útsýni út og yfir Breiðafjörð á jökulinn sem logar.

Þegar komið var aftur að Siglunesi var komið að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar. Austurhliðin hefur látið á sjá en er inn var komið þá sást eldavél. Ekki gerðu menn miklar kröfur til þæginda. Bærinn var byggður 1936 og bjó Erlendur til ársins 1962. Innviðin í bæinn komu úr kaupfélaginu í Flatey - það leiddi okkur á aðrar slóðir og þær hvernig alfaraleiðir lágu um Breiðafjörðinn. Þetta er hrein endalaus uppspretta heillandi sögu og ummerkja um það hvernig fólkið okkar komst af hér á öldum áður.

Að endingu var komið við að gestabók og minnisvarða um síðust hjónin sem bjuggu að Siglunesi.

Hús Erlendar

Að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar, austurhliðin hefur látið á sjá. Erlendur bjó þarna til ársins 1962.

Dagsetning: 31. júlí 2017
Gestabók: Já

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Þórbergur í Tjarnarbíó

„Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess. En sá sem veitir því hlátur er mestur velgerðarmaður þess.“ - Þórbergur Þórðarson

Öll þrjú boðorð Þórbergs eru uppfyllt í þessari sýningu, Þórbergur í Tjarnarbíó. Maður sá meiri fegurð í súldinni, maður var spakari og maður varð glaðari eftir kvöldstund með Þórbergi.

Er ungur ég var á menntaskólaárunum, þá fór ég á Ofvitann í Iðnó og skemmti mér vel. Man mjög vel eftir frábærum  samleik Jóns Hjartarsonar og Emils Guðmundssonar.  Nýja leikritið ristir ekki eins djúpt.

Ef hægt er að tala um sigurvegara í leiksýningunni er það Mamma Gagga sem leikin er af Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Hún fær sitt pláss og skilar því vel. Á eftir verður ímynd hennar betri. Líklega er það út af því að með nýlegum útgáfum bóka hefur þekking á hlutverki hennar aukist og svo er verkið í leikgerð Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og þaðan kemur femínísk tenging.

Leikmynd er stílhrein og einföld. Viðtal í byggt á frægum viðtalsþætti, Maður er nefndur og spurningar sóttar í viðtalsbók,  í kompaní við allífið. Sniðug útfærsla.  Sveinn Ólafur Gunnarsson skilar Magnúsi spyrli og  vel og verður ekki þurrausinn.  Friðrik Friðriksson á ágæta spretti sem Þórbergur. Sérstaklega fannst mér hann góður þegar hann tók skorpu í Umskiptingastofunni með Lillu Heggu í Sálminum um blómið. Stórmerkar hreyfimyndir af Þórbergi að framkvæma Mullersæfingar lyfta sýningunni upp á æðra plan.

Mannbætandi sýning og ég vona að fleiri sýningar verði fram eftir ári. Meistari Þórbergur og listafólkið á það skilið.

Þórbergur


Kolufoss í Víðidal

Fólki liggur svo á í dag. En ef fólk slakar á leið norður eða suður, á milli Blönduós og Hvammstanga, þá er tilvalið að heimsækja Kolufoss í Víðidal. Mjög áhugavert gljúfur Kolugljúfur hýsir fossinn. Glæsilegur foss með sex fossálum sést vel af brú yfir ána. Gljúfrin eru 6 km frá þjóðveginum. Tröllskessan Kola gróf gljúfrið sem skóp fossinn í Víðidalsá.

Í gljúfrum þessum er sagt að búið hafi í fyrndinni kona ein stórvaxin er Kola hét og sem gljúfrin eru kennd við. Á vesturbakka gljúfranna er graslaut ein sem enn í dag er kölluð Kolurúm, og er sagt að Kola hafi haldið þar til á nóttunni þegar hún vildi sofa. Að framanverðu við lautina eða gljúframegin eru tveir þunnir klettastöplar sem kallaðir eru Bríkur, og skarð í milli, en niður úr skarðinu er standberg ofan í Víðidalsá sem rennur eftir gljúfrunum.
Þegar Kola vildi fá sér árbita er sagt hún hafi seilst niður úr skarðinu ofan í ána eftir laxi.

Kolufoss

Kolufoss í Víðidalsá, og fellur í nokkrum þrepum.

Heimild

Mánudagsblaðið, 3 ágúst 1981


Af stöðumælum í náttúrunni

Hann Halldór, teiknari Fréttablaðsins kann að setja fréttir í sérstakt samhengi. Góður teiknari og húmoristi.  Hér er mynd sem birtist 24. febrúar um æðið í ferðaþjónustunni.

Halldór

En hér er mynd sem ég tók á Hlöðufelli og sýnir gjörning sem tók á móti okkur þreyttum göngumönnum er toppnum var náð.

Hlöðufell

Stöðumælir í 1.186 m hæð í víðerninu og ægifegurð. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.

Sami húmor!


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband