Færsluflokkur: Samgöngur

Siglunes á Barðaströnd

Frá Siglunesi var róið um aldir og sagt er: Sá sem frá Siglunesi rær – landi nær.

Siglunes er úrvörður Barðastrandar til vesturs og lífhöfn sjófarenda en útvörður í austri er Vatnsfjörður.

Siglunes liggur yst á Barðaströnd við opinn Breiðafjörðinn og andspænis Snæfellsnesi krýndu samnefndum jökli.

Siglunesið býður upp á fjöruferð, ferð upp til fossa og að fjárrétt undir sjávarbökkum. Siglunesá rennur niður fjallið og gengum við upp með ánni og geymir hún fjóra fossa Hæstafoss, Undirgöngufoss, Háafoss og Hundafoss. Útsýni mjög gott yfir hluta Barðastrandarinnar.

Síðan var farið út á Ytranes og  svæði þar sem verbúðir voru um aldir. Við sáum fimm seli og nokkur úrgang, mest frá nútíma útgerð.  Dásamlegt að ganga berfættur í gylltum heitum sandinum til baka með stórkostlegt útsýni út og yfir Breiðafjörð á jökulinn sem logar.

Þegar komið var aftur að Siglunesi var komið að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar. Austurhliðin hefur látið á sjá en er inn var komið þá sást eldavél. Ekki gerðu menn miklar kröfur til þæginda. Bærinn var byggður 1936 og bjó Erlendur til ársins 1962. Innviðin í bæinn komu úr kaupfélaginu í Flatey - það leiddi okkur á aðrar slóðir og þær hvernig alfaraleiðir lágu um Breiðafjörðinn. Þetta er hrein endalaus uppspretta heillandi sögu og ummerkja um það hvernig fólkið okkar komst af hér á öldum áður.

Að endingu var komið við að gestabók og minnisvarða um síðust hjónin sem bjuggu að Siglunesi.

Hús Erlendar

Að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar, austurhliðin hefur látið á sjá. Erlendur bjó þarna til ársins 1962.

Dagsetning: 31. júlí 2017
Gestabók: Já

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Duglegir ríkisstarfsmenn, brúarsmiðir á Steinavötnum

Stórt hrós til Vegagerðarinnar. Þeir eru duglegir ríkisstarfsmennirnir. Byggðu upp bráðabirgðabrú yfir Steinavötn í Suðursveit á mettíma. Magnað.

Nú þurfa þessir duglegu ríkisstarfsmenn bara að fá almennilega yfirmenn. Tveir síðustu yfirmenn þeirra, jarðýtan Jón Gunnarsson og Ólöf Nordal höfðu ekki mikinn áhuga á úrbótum og uppbyggingu innviða. Það kom fram í fjárlögum fyrir árið 2017 að það tæki hálfa öld ár að útrýma einbreiðum brúm. Flokkurinn hafnaði auðveldum tekjum og innviðir fúnuðu fyrir vikið. Vegatollar er nýjasta lykilorðið.

Það þarf að útrýma einbreiðum brúm, svartblettum í umferðinni og gera metnaðarfulla áætlun. Í samgönguáætlun 2011 sagði: "Útrýma einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla á sólarhring".  Í sumar voru tæplega 2.500 bílar á sólarhring á hringveginum í Ríki Vatnajökuls, eða 12 sinnum meira.

Í bloggi frá apríl 2016 eru taldar upp ógnir, manngerðar og náttúrulegar sem snúa að brúm og áhættustjórnun. Það þarf að fjarlæga þær og byggja traustari brýr í staðin. Brýr sem þola mikið áreiti og fara ekki í næstu skúr. Ferðaþjónustuaðilar í Skaftafellssýslu töldu að 50 milljónir hafi tapast á dag við rof hringvegarins við Steinavötn. Tjónið er komið í heila öfluga tvíbreiða brú.

Steinavötn

Mynd af 102 metra langri og 53 ára brúni yfir Steinavötn tekin um páskana 2016. Það er lítið vatn í ánni og allir stöplar á þurru og í standa teinréttir í beinni línu. 


mbl.is Nýja brúin opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbreiða brúin yfir Steinavötn fórnarlamb loftslagsbreytinga

Loftslagið er að breytast með fordæmalausum hraða. Úrkoman í Ríki Vatnajökuls er afsprengi loftslagsbreytinga.

September hefur skapað af sér öflugustu hvirfilbili í langan tíma á Atlantshafi. Irma, Jose og María eru sköpuð í mánuðinum í hafinu. Rigningin sem dynur á okkur er erfingi þeirra. Allir þekkja Harvey og Irmu sem gerðu árásá Texas, Flórida og nálægar eyjar nýlega.

Eina jákvæða við þetta er að náttúran sér annars um að losa okkur við þessar einbreiðu brýr, ekki gera stórnmálamenn það. Í dag eru 20 einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, svartblett í umferðinni. Nú verða þær 19!

Brú yfir Steinavötn var ekki á Samgönguáætlun og svo hefur samgönguráðherra, Jón Gunnarsson vill lækka skatta í kosningaloforðum en setja veggjöld á alla staði. Það er ekkert annað en dulbúin skattheimta sem kemur ósanngjarnt niður. Rukki Jón 300 fyrir hverja einbreiða brú, þá kostar ferðalagið 5.700 kall í aukna skatta.

Bæjaryfirvöld í Ríki Vatnajökuls og hagsmunaðilar í ferðaþjónustinni hafa ekki verið nógu beitt við að krefjast úrbóta. Enda flestir í flokknum. Þeir mættu taka Eyjamenn og Reyknesinga sér til fyrirmyndar.

En hvað geta Skaftelleingar og fólk á jörðinni gert best gert til að minnka áhrif loftslagsbreytinga? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.

22096204_10212689127376144_2780405253543625020_o

Ég á myndir af hættulegustu stöðum landsins.
Brúin yfir Steinavötn er einn af þeim. Nú löskuð og búið að loka henni. Einbreið 102 m löng, byggð 1964.Loftslagsbreytingar eru orsök úrkomunnar. Öfgar í veðri aukast.


mbl.is Bygging bráðabirgðabrúar hefst á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat í ágúst 2017

Þann 13. ágúst sl. var farið yfir 21 einbreiða brú í Ríki Vatnajökuls, áhættumat var endurskoðað í þriðja sinn. En minnka má áhættu með áhættustjórnun.

Engar breytingar frá síðasta mati fyrir hálfu ári. 
En hrósa má Vegagerðinni fyrir að:
   - öll blikkljós loguðu og aðvaranir sýnilegar
   - 500 metra aðvörunarskilti og málaðar þrengingar voru sýnileg. 

En engin leiðbeinandi hámarkshraði. 
Morsárbrú var tekin í notkun í lok ágúst og því ber að fagna. Nú eru hættulegu einbreiðu brýrnar 20.

Forvarnir
Ekkert banaslys hefur orðið á árinu og ekkert alvarlegt slys.  Árið 2015 varð banaslys á Hólárbrú og mánuði síðar alvarlegt slys á Stigárbrú. Síðan var farið í úrbætur og blikkljósum fjölgað úr 4 í 21.
Forvarnir virka. 

Bílaumferð hefur rúmlega tvöfaldast frá páskum 2016. Umferð þá var um 1.000 bílar á dag en fer í 2.300 núna. Aukning á umferð milli ágúst 2016 og 2017 er 8%.

Á facebook-síðu verkefnisins er haldið um niðurstöður.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel

Haldi ökumaður áfram austur á land, þá eru nokkrar einbreiðar brýr og þar vantar blikkljós en umferð er minni. Það má setja blikkljós þar.

Endurskoðað áhættumat

Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls. 21 of margar!


Sandsheiði (488 m)

Sandsheiði er gömul alfaraleið á milli Barðastrandar og Rauðsands. Gatan liggur upp frá Haukabergsrétt við norðanverðan Haukabergsvaðal um Akurgötu, Hellur, Þverárdal, Systrabrekkur að Vatnskleifahorni.

Þar eru vötn og ein tjörnin heitir Átjánmannabani en hún var meinlaus núna. Níu manna gönguhópurinn hélt áfram upp á Hvasshól, hæsta punkt og horfði niður í Patreksfjörð og myndaðist alveg nýtt sjónarhorn á fjörðinn. Uppalinn Patreksfirðingur í hópnum varð uppnuminn af nostalgíu. Nafnið Hvasshóll er mögulega komið af því að hvasst getur verið þarna en annað nafn er Hvarfshóll en þá hefur Rauðasandur horfið sjónum ferðamanna. Það var gaman að horfa yfir fjörðinn hafið og fjallahringinn og rifja upp örnefni.

Vaðall

Þegar horft var til baka af Akurgötu skildi maður örnefnið vaðall betur, svæði fjöru sem flæðir yfir á flóði en hreinsast á fjöru, minnir á óbeislaða jökulá.

Áfram lá leiðin frá Hvasshól,um Gljá og niður í Skógardal á Rauðasand. Á leið okkar um dalinn gengum við fram á Gvendarstein (N:65.28.154 - W:23.55.537), stóran steinn með mörgum smáum steinum ofaná. Steinninn er kenndur við Guðmund góða Hólabiskup. Sú blessun fylgir steininum að leggi menn þrjá steina á hann áður en lagt er upp í för komast þeir heilir á leiðarenda um villugjarna heiði. Endað var við Móberg á Rauðasandi eftir 16 km. göngu. Algengara er að hefja gönguna þaðan.

Gljá

Góður hluti háheiðinnar er svo til á jafnsléttu, heitir Gljá. Það sér í Molduxavötn sem bera nafn sitt af stökum grjóthólum eða klettastöpum er nefnast Molduxar. Molduxi þýðir stuttur, þrekvaxinn maður.

Á leiðinni yfir heiðina veltu göngumenn fyrir sér hvenær Sandsheiðin hafi verið gengin fyrst. Skyldi hún hafa verið notuð af Geirmundi heljarskinni og mönnum hans í verstöðinni á Vestfjörðum? Ekki er leiðin teiknuð inn á kort í bókinni Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson.

Sandsheiðin er einstaklega skemmtileg leið í fótspor genginna kynslóða.

Þegar á Rauðasand er komið verðlaunaði gönguhópurinn sig með veitingum í Franska kaffihúsinu en bílar höfðu verið ferjaðir daginn áður. Landslagið á staðnum er einstakt,afmarkast af Stálfjalli í austri og Látrabjargi í vestri og fyllt upp með gylltri fjöru úr skeljum hörpudisks.

Síðan var haldið að Sjöundá og rifjaðir upp sögulegir atburðir sem gerðust fyrir 215 árum þegar Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir myrtu maka sína.

Að lokum var heitur Rauðasandur genginn á berum fótum og tekið í strandblak.

Dagsetning: 1. Ágúst 2017
Hæð: 488 metrar
Hæð í göngubyrjun: 16 metrar við Haukabergsrétt (N:65.28.833 - W:23.40.083)
Hvasshóll (488 m): (N:65.29.892 - W:23.46.578)
Móberg upphaf/endir (29 m): (N:65.28.194 - W:23.56.276)
Hækkun: 462 metrar
Uppgöngutími Hvasshóll: 180 mín (09:30 - 12:30) 8 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (09:30 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 16 km
Veður kl. 12.00: Léttskýjað, ANA 3 m/s, 12,4 °C
Þátttakendur: Villiendurnar 9 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel gróið land í upphafi og enda með mosavöxnum mel á milli um vel varðaða þjóðleið

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Móskarðshnjúkur (807 m)

Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.

Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.

Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.

Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt. 

Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.

Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."

Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).

Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni. 

Móskarðshnjúkur

Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.

Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður

Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.


Elon Musk

Elon MuskElon Musk er enginn venjulegur maður. Fremstur frumkvöðla í dag og er að skapa framtíð sem er í anda gullaldar vísindaskáldskaparins.

Var að klára vel skrifaða kilju um forstjóra SpaceX, milljarðamæringinn, frumkvöðulinn, fjárfestinn, verkfræðinginn og uppfinningamanninn Elon Musk eftir Ashlee Vance.  En nafnið Musk hefur oft heyrst í sambandi við nýsköpun, sjálfbærni og frumkvöðlastarfsemi undanfarið.

Ævi

Elon Musk fæddist í Pretoríu í Suður Afríku 28. júní 1971 og er því 46 ára gamall. Hann átti erfiða æsku, lenti í einelti og foreldrar hans skildu. Bjó hann hjá föður sínum en foreldrar hans og afar og ömmur  voru ævintýragjarnt fólk.  Hann virðist hafa verið á einhverfurófi. Elon var einfari og nörd, öfugt við systkini sín, hann las mikið og mundi allt sem hann las. Þegar allar bækur á bókasafninu höfðu verið lesnar, sérstaklega ævintýrabækur, sci-fi og teiknimyndasögur fór hann að lesa Encyclopaedia Britannica alfræðiorðabókina.

Forritunarhæfileikar fylgdu í vöggugjöf og 10 ára gamall lærði hann upp á eigin spýtur forritun. Tólf ára gamall skrifaði hann tölvuleikinn Blastar og seldi tölvutímariti. Hann var nörd!

Þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla 18 ára ákvað hann að fara til Kanada en móðurætt hans kom þaðan. Aðskilnaðarstefnan í Suður Afríku og vandamál tengd henni gerðu landið ekki spennandi fyrir snilling.

Í Kanada vann hann fyrir sér og gekk í háskóla en draumurinn var að flytja til Bandaríkjanna og upplifa drauminn þar í Silicon Valley.  Eftir háskólanám í Pennsylvaniu hóf hann árið 1995 doktorsnám í Stanford University í Kaliforníu og stofnaði með bróður sínum nýsköpunarfyrirtæki sem vann að netlausninni Zip2.  Eftir mikla vinnu þá var fyrirtækið selt til Compaq fyrir gott verð. Var hann þá orðinn milljónamæringur. Þá var ráðist í næsta sprotaverkefni sem var X.com, rafrænn banki sem endaði í PayPal. Fyrirtækið var síðan selt eBay uppboðsfyrirtækinu og söguhetjan orðinn yngsti milljarðamæringur heims.

Næsta skref var að láta æskudraum rætast,nýta auðæfin og helga sig geimnum.  Árið 2002 stofnaði hann geimferðafyrirtækið SpaceX sem hannar endurnýtanlegar geimflaugar. Markmiðið er að flytja vörur út í heim og hefja landnám á reikistjörnunni Mars.  Þegar geimævintýrið var komið vel á veg þá stofnaði hann rafbílafyrirtækið Tesla sem og markmiðið sjálfbærir og sjálfkeyrandi bílar. 

Einnig er hann stjórnarformaður í SolarCity, ráðgjafarfyrirtæki sem innleiðir sjálfbærar lausnir fyrir húseigendur.

Það er áhugavert að sjá hvað Musk lagði mikið á sig til að koma netfyrirtækjum sínum áfram, stanslaus vinna og uppskeran er ríkuleg.

Musk telur að lykillinn að sköpunargáfu sinni hafi komið frá bókalestri í æsku, sérstaklega teiknimyndasögunum en þar er ímyndunaraflið óheft.

Stjórnunarstíll

Í bókinni er stjórnunarstíll Musk ekki skilgreindur en hann lærði á hverju nýsköpunarfyrirtæki sem hann stofnaði  og hefur þróað sinn eigin stjórnunarstíl. En Musk er kröfuharður og gerir mestar kröfur til sjálfs sín. Einnig byggði hann upp öflugt tengslanet fjárfesta og uppfinningamanna sem hentar vel í skapandi umhverfi Silicon Valley.

Ég fann grein á netmiðlinum Business Insider um stjórnunarstíl Musk og kallar hann sjálfur aðferðina nanó-stjórnun. En hún er skyld ofstjórnun (e. micro-management) þar sem stjórnandi andar stöðugt ofan í hálsmál starfsfólks og krefur það jafnvel um að bera allt undir sig sem það þarf að gera. Musk segir að hann sé ennþá meira ofan í hálsmáli starfsfólks! (more hands-on).

Þessi stjórnunarstíll byggist á að sögn Musk: "I always see what's ... wrong. Would you want that? When I see a car or a rocket or spacecraft, I only see what's wrong."
"I never see what's right," he continued. "It's not a recipe for happiness."

Framtíðarsýn Musk

Er að endurskilgreina flutninga á jörðinni og í geimnum.

Lykilinn að góðu gengi fyrirtækja Musk er skýr framtíðarsýn. Hjá SpaceX er framtíðarsýnin: Hefja landnám á reikistjörnunni Mars og hvetur það starfsmenn áfram og fyllir eldmóði. Þeir eru að vinna að einstöku markmiði. 

Framtíðarsýnin hjá Tesla er sjálfbær orka og að ferðast í bíl verður eins og að fara í lyftu. Þú segir honum hvert þú vilt fara og hann kemur þér á áfangastað á eins öruggan hátt og hægt er. 

Musk hefur skýra sýn með framleiðslu rafbíla, sjálfbærni í samgöngum. Í hönnun er Gigafactory verksmiður sem framleiða liþíum rafhlöður sem knýja mun Tesla bílana í framtíðinni.

Fyrir vikið hefur Musk náð að safna að sér nördum, fólki sem var afburða snjallt á yngri árum og með svipaðan sköpunarkraft hann sjálfur.

Það gengur vel hjá fyrirtækjum Musk núna en það hefur gengið á ýmsu. Á því kunnuga ári 2008 urðu fyrirtækin næstum gjaldþrota.

Í nýlegri frétt um SpaceX er sagt frá metári en níu geimförum hefur verið skotið á loft og Tesla hefur hafið framleiðslu á Model 3 af rafbílnum og eru á undan áætlun.

Tesla

Einkaleyfi Tesla á uppfinningum tengdum rafbílunum hafa verið gefin frjáls. Fyrirtækið er rekið af meiri hugsjón en gróðavon.


Einbreiðar brýr í Ríki Vatnjaökuls - endurskoðað áhættumat

Undirritaður endurskoðaði áhættumat fyrir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls um síðustu helgi og greindi umbætur frá áhættumati sem framkvæmt var fyrir tæpu ári síðan. í ágúst 2016 var framkvæmt endurmat og hélst það óbreytt. Þingmönnum Suðurkjödæmis, Vegagerðinni og fjölmiðlum var sent áhættumaið ásamt myndum af öllum einbreiðum brúm.
   1) Það eru komin blikkljós á allar 21 einbreiðu brýrnar í Ríki Vatnajökuls, blikkljós voru aðeins fjögur fyrir ári síðan.
   2) Undirmerki undir viðvörun: 500 m fjarlægð að hættu. Þetta merki er komið á allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls.
   3) Lækkun á hraða á Skeiðarárbrú.

Snjór og hálkublettir voru á vegi svo ekki sá vel á málaðar aðvaranir á veg, þrengingar og vegalínur.

Það er mikil framför að hafa blikkljós, þau sjást víða mög vel að, sérstaklega þegar bein aðkoma er að vegi.
Því breyttist áhættumatið á 8 einbreiðum brúm.  Sjö fóru úr áhættuflokknum "Dauðagildra" í áhættuflokkinn "Mjög mikil áhætta".
Ein einbreið brú, Fellsá fór í mikil áhætta en blikkljós sést vel.

Hins vegar þarf að huga að því að hafa tvö blikkljós eins og á Jökulsá á Sólheimasandi en öryggi eykst, t.d. ef peran springur eða verður fyrir hnjaski en fylgjast þarf með uppitíma blikkljósanna.

Því ber að fagna að þessi einfalda breyting sem kostar ekki mikið hefur skilað góðum árangri.  Ekkert alvarlegt slys hefur orðið síðan blikkljósin voru sett upp en umferð ferðamanna, okkar verðmætasta auðlind, hefur stóraukist og mikið er um óreynda ferðamenn á bílaleigubílum á einum hættulegasta þjóðveg Evrópu.
T.d. var svo mikið af ferðamönnum við Jökulsárlón að bílastæði við þjónustuhús var fullt og bílum lagt alveg að veg og þurftu sumir að leggja á bakkanum vestan meginn og ganga yfir Jökulsárbrú með allri þeirri hættu sem því fylgir.

ROI eða arðsemi fjárfestingar í blikkljósum er stórgott.  Merkilegt að það blikkljósin hafi ekki komið fyrr.

En til að Þjóðvegur #1 komist af válista, þá þarf að útrýma öllum einbreiðum brúm.  Þær eru 21 í Ríki Vatnajökuls en 39 alls á hringveginum.

Nú þarf metnaðarfulla áætlun um að útrýma þeim, komast úr "mjög mikil áhætta" í "ásættanlega áhætta", en kostnaður er áætlaður um 13 milljarðar og hægt að setja tvo milljarða á ári í verkefnið. Þannig að einbreiðu brýrnar verða horfnar árið 2025!

Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/

Fleiri mögulegar úrbætur á meðan einbreitt ástand varir:
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald

Áhættumat 2017 - Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls


Akstur og áfengi
Akstur og áfengi fer ekki saman. Nú fer öll orka í svokallað áfengisfrumvarp. Í frétt frá Landlækni á ruv.is kemur í ljós að samfélagslegur kostnaður á ári getið orðið 30 milljarðar á ári sverði meingallað áfengisfrumvarp að lögum.

Hér er frétt á ruv.is: Samfélagskostnaður yfir 30 milljörðum á ári.
"Rafn [hjá Landlækni] segir að rannsóknirnar sýni að kostnaður þjóðarinnar yrði ekki eingöngu heilsufarslegur, heldur líka einfaldlega efnahagslegur. Hann gæti numið yfir þrjátíu milljörðum króna á ári."
En það kostar 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum.  Rúmlega tvöfalt meiri kostnaður verði áfengisfrumvarp að lögum!  

Upp með skóflurnar og hellum niður helv... áfengisfrumvarpinu.  Annars má hrósa þingmönnum Suðurkjördæmis, sýnist hlutfallið endurspegla þjóðina en um 75% landsmanna eru á móti áfengisfrumvarpinu, svipað hlutfall og hjá þingmönnum Suðurkjördæmis.


Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat

Fagna mjög nýjustu fréttum frá fjárlaganefnd um breytta forgangsröð á innviðum landsins og að einbreiðum brúm verði útrýmt á næstu árum.
"Það krefjist mikilla samgöngubóta með fækkun einbreiðra brúa svo dæmi sé tekið." - segir í frétt á ruv.is

Það þokast í umferðaröryggismálum. Því ber að fagna.

Í vor framkvæmdi undirritaður úttekt á einbreiðum brúm í Ríki Vatnajökuls, tók myndir og sendi niðurstöður víða, m.a. til Innanríkisráðuneytisins, fjölmiðla og þingmanna.

Undirritaður tók myndir af öllum 21 einbreiðum brúm í fyrri ferð og einnig í ferð í síðust viku.  Niðurstaða, óbreytt áhættumat!

  • Engar breytingar eru varðandi blikkljós,  aðeins eru fjögur.
  • Lækkaður hámarkshraði er aðeins á tveim brúm,  Jökulsárbrú (70-50-30 km) og Hornafjarðarfljóti (50 km).
  • Leiðbeinandi hámarkshraði er hvergi.
  • Upplýsingar til erlendra ferðamanna eru ekki sjáanlegar


Eina breytingin sem sjáanleg er að við nokkrar brýr hafa yfirborðsmerkingar verið málaðar. Línur hafa verið málaðar og alls staðar eru málaðar þrengingar, vegur mjókkar, á veg en sú merking er ekki til í reglugerð. Spurning um hverju þetta breytir þegar snjór og hálka sest á vegina í vetur.
Niðurstaðan er að áhættumatið er óbreytt milli úttekta.

Nú er spurningin til innanríkisráðherra, þegar vika er liðin af ágúst: er fjármagnið búið eða koma fleiri umferðarskilti með hámarkshraða eða leiðbeinandi hraða í ágúst og blikkljós en þau eru stórlega vanmetin?

Endurskoðað áhættumat

Yfirlit yfir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls og niðurstaða úr endurskoðuðu áhættumati.

Vefur sem safnar upplýsingum um einbreiðu brýrnar.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel


Kolufoss í Víðidal

Fólki liggur svo á í dag. En ef fólk slakar á leið norður eða suður, á milli Blönduós og Hvammstanga, þá er tilvalið að heimsækja Kolufoss í Víðidal. Mjög áhugavert gljúfur Kolugljúfur hýsir fossinn. Glæsilegur foss með sex fossálum sést vel af brú yfir ána. Gljúfrin eru 6 km frá þjóðveginum. Tröllskessan Kola gróf gljúfrið sem skóp fossinn í Víðidalsá.

Í gljúfrum þessum er sagt að búið hafi í fyrndinni kona ein stórvaxin er Kola hét og sem gljúfrin eru kennd við. Á vesturbakka gljúfranna er graslaut ein sem enn í dag er kölluð Kolurúm, og er sagt að Kola hafi haldið þar til á nóttunni þegar hún vildi sofa. Að framanverðu við lautina eða gljúframegin eru tveir þunnir klettastöplar sem kallaðir eru Bríkur, og skarð í milli, en niður úr skarðinu er standberg ofan í Víðidalsá sem rennur eftir gljúfrunum.
Þegar Kola vildi fá sér árbita er sagt hún hafi seilst niður úr skarðinu ofan í ána eftir laxi.

Kolufoss

Kolufoss í Víðidalsá, og fellur í nokkrum þrepum.

Heimild

Mánudagsblaðið, 3 ágúst 1981


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 98
  • Frá upphafi: 226533

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 80
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband