Móskarðshnjúkur (807 m)

Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.

Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.

Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.

Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt. 

Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.

Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."

Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).

Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni. 

Móskarðshnjúkur

Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.

Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður

Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 35
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 112
  • Frá upphafi: 226372

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 98
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband