Færsluflokkur: Samgöngur

Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - Áhættustjórnun

Ég geri mér grein fyrir að einbreiðu brýrnar 21, verða ekki allar teknar úr umferð strax með því að breikka þær eða byggja nýja en það má efla forvarnir stórlega. Markmiðið hjá okkur öllum hlýtur að vera að enginn slasist eða láti lífið. Takist það þá er það mikið afrek.
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega og ferðast flestir í leigubifreiðum. Slys á ferðamönnum hefur tvöfaldast frá árinu 2008.
Á Páskadag voru um 2.500 bifreiðar við Seljalandsfoss, um 1.000 í Ríki Vatnajökuls og 250 fyrir austan Höfn. - vegagerdin.is
Í samgönguáætlun 2011 segir: Útrýma einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla á sólarhring.

En markmið áhættustjórnunar er að ákvarða nauðsynlegar aðgerðir til að fjarlægja, minnka eða stjórna áhættu.

Ógnir
Náttúrulegar
- Ægifegurð í Ríki vatnajökuls - erlendir ferðamenn horfa á landslag og missa einbeitningu
- Niðurbrot byggingarefnis. Meðalaldur einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls er tæp 50 ár.
- Hálka
- Viðvörunarskylti sjást stundum ekki vegna snjólaga um vetur
- Sól lágt á lofti
- Lélegt skyggni, þoka eða skafrenningur, skyndilega birtist hætta og ekkert svigrúm
- Jarðskjálftar, hitabreytingar, jökulhlaup eða flóð geta skapað hættu

Manngerðar ógnir
- Óreyndir ökumenn, sérstaklega frá Asíu
- Krappar beygjur að brúm
- Umferðarmerkið Einbreið brú - aðeins á íslensku
- Umferðarmerki við einbreiðar brýr séríslensk, aðrar merkingar erlendis
- Brýr stundum á hæsta punkti, ekki sér yfir, blindhæð
- Einbreiðar brýr, svartblettir í umferðinni
- Lélegt viðhald á brúm. Ryðgaðar og sjúskuð vegrið. Ósléttar.
- Hált brúargólf
- Beinir vegakaflar, býður upp á hraðakstur
- Flestir ferðamenn koma akandi frá höfuðborginni og byrja á tvíbreiðum brúm (68 alls) en svo koma slysagildrur, jafnvel dauðagildrur
- Hringvegurinn lokast um langan tíma verði óhapp á brú.
- Litlu eða stuttu brýrnar eru hættulegri en lengri, þær sjást verr, lengri brýrnar gefa meira svigrúm og ökuhraði hefur minnkað
- Lítill áhugi Alþingismanna og ráðherra á öryggismálum á innviðum landsins
                
Úrbætur
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fjölga umferðamerkum, kröpp vinsri- og hægri beygja, vegur mjókkar.
- Skoða útfærslu á vegriðum
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
- Bæta göngubrú norðanmeginn við Jökulsárlón á Breiðarmerkursandi
- Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn

Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm. Jarðskjálftar og flóð eru náttúrlegir áhættuþættir en hryðjuverk og erlendir ferðamenn ekki.

Þingmenn í Suðurlandskjördæmi og stjórnarþingmenn verða að taka fljótt á málunum. Einhverjir hafa þó sent fyrirspurnir á Alþingi og ber að þakka það. Auka þarf fjármagn í forvarnir og öryggismál. Arðsemi fjárfestingarinnar (ROI) er mikið. 

Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/

Í haust verður gerð samskonar úttekt áhugamanns um aukið umferðaröryggi. Vonast undirritaður til að jákvæðar breytingar verði í vor og sumar og ekkert slys verði í kjördæminu og landinu öllu. Það er til núllslysamarkmið.
 
En hafið í huga fræga setningu úr myndinni Schindlers List meðan manngerða Tortóla fárviðrið gengur yfir: "Hver sem bjargar mannslífi bjargar mannkyninu"

Jökulsárlón á Breiðarmerkursandi

Brúin yfir Jökulsárlón á Breiðamerkusandi, hengibrú byggð 1967, 108 m löng, 4,2 m breið og 34 tonna vagnþungi.  Mjög mikil áhætta.


Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - áhættumat

Ég átti leið um Suðurland um Páskana, ferðaðist í bíl á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur og það var geysileg umferð erlendra ferðamanna. Vandræði að fá bílastæði á vinsælum ferðamannastöðum. Enda ferðaþjónustan orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi og ferðamenn eiga góða þjónustu og tryggt öryggi skilið. En mest af þessu ágætu ferðamönnum hefur litla ökureynslu. Sumir hverjir eru nýbúnir að fá bílpróf fyrir Íslandsferð.

Vegagerðin mældi 83% aukningu á bílaumferð um Mýrdalssand milli marsmánaða. Er hræddur um að það fjármagn sem áætlað er í merkingar á einbreiðum brúm sé allt of naumt skammtað. Það þarf að gera þetta vel meðan brýrnar, svartblettir í umferðinni eru á Hringveginum.

Í Ríki Vatnajökuls er hættuástand vegna 21 einbreiðra brúa. Einbreiðar brýr voru ódýrari í byggingu, það er ástæðan fyrir tilveru  þeirra. Nú er öldin önnur. Ég tók mynd af öllum einbreiðu brúnum og framkvæmdi áhættumat og læt það fylgja með, ókeypis. Það er mín samfélagsleg ábyrgð.
Allar einbreiðu brýrnar lenda í hættuflokknum og 7 brýr eða þriðjungur lendir í flokknum dauðagildra.

Áhættumat einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls

Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls.


Af stöðumælum í náttúrunni

Hann Halldór, teiknari Fréttablaðsins kann að setja fréttir í sérstakt samhengi. Góður teiknari og húmoristi.  Hér er mynd sem birtist 24. febrúar um æðið í ferðaþjónustunni.

Halldór

En hér er mynd sem ég tók á Hlöðufelli og sýnir gjörning sem tók á móti okkur þreyttum göngumönnum er toppnum var náð.

Hlöðufell

Stöðumælir í 1.186 m hæð í víðerninu og ægifegurð. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.

Sami húmor!


Tækifærin liggja í loftinu

Það var gleðileg frétt á visir.is í morgun um ákvörðun Bæjarráðs Hornafjarðar: "Yfirlýsing um loftslag".

„Með yfirlýsingunni ábyrgist sveitarfélagið að vinna ötullega að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni og hvetja jafnframt íbúa og fyrirtæki til þátttöku,“ bókaði bæjarráðið og fól bæjarstjóranum að ganga frá samningnum við Landvernd.

Þetta er mjög gott grænt skref enda eru jöklarnir að hverfa fyrir framan nefið á Hornfirðingum og landið að lyftast um 10 mm á ári. Stóru skipin gætu lent í vandamálum í innsiglingunni innan fárra áratuga.

Með þessu verðar skaftfellsk fyrirtæki umhverfisvænni, þau munu innleiða umhverfisstefnu og huga að sjálfbærum rekstri. En eins og staðan er í dag þá sést umhverfisstefna hjá mjög fáum ferðaþjónustufyrirtækjum á Hornafirði.

Ef þú ætlar að breyta heiminum verður þú að byrja á því að breyta sjálfum þér. 

Á loftslagssýningu COP21 í Frakklandi var snjóbíll sem notaður var á Suðurskautslandinu en hann var rafknúinn. Veit ekki hvort hann henti fyrir ævintýraferðir á Vatnajökli en ég hugsaði heim er ég sá hann. Sótspor á jöklinum myndi minnka mjög mikið með sjálfbærri tækni. Rafmagn frá Smyrlu rétt fyrir neðan Jöklasel.

Snjóbíll

Snjóbíll á 8 hjólum eða beltum sem notaður var á Suðurskautslandinu. Í eigu Venturi. Drægni 40 km og hámarkshraði 25 km/klst.


Rafbílavæðing Íslands

Eftir góða niðurstöðu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) þá er tími jarðefnaeldsneytis og kola liðinn. 

Nú er stórt tækifæri fyrir nýsköpun í samgöngum. Á SolutionsCOP21 sýningunni í Grande Palace glerhöllinni voru margar lausnir í boði. Rafmagn, vetni, metan og lífrænt gas. 

Maður gekk út bjartsýnni á framtíðina eftir að hafa hitt fólkið sem var fullt af eldmóð að kynna frantíðarlausnir. Vonandi upphaf að nýrri franskri byltingu.

Einfaldast er að innleiða rafmagn hér á landi og hlutfallseg sala rafbíla næst mest í heiminum. Uppbygging hraðhleðslustöðva er þegar hafin hjá ON. Innan skamms verða 13 hleðslustöðvar tilbúnar. Því miður hefur bílaframleiðendum ekki tekist að hafa sömu hraðhleðslutengi á bílum sínum. Japanir nota svokallaðan CHAdeMO-staðal á meðan flestir evrópsku bílaframleiðendurnir nota Combo. Enn eitt tengið er svo AC43 sem Renault Zoe notar og Tesla sem var mjög vinsælt á sýningunni er með enn aðra gerð tengja. ON var með Chademo-staðalinn en verið að útvíkka fyrir önnur tengi. 

Þetta er því mikil kjarabót fyrir fjölskyldur. Meðan dagurinn af jarðefnaeldsneyti er á þúsund krónur, þá er dagurinn með raforku á hundrað kall. Stórkostleg kjarabót og sparar gjaldeyri og minnkar útblástur.

 

Hleðslustöð Renault Zoe

Hér eru hleðslulausnir hjá Renault Zoe, AC43. Þrjár mismunandi hleðslueiningar og hægt að sjá hleðslutíma á myndinni.

Annars var hönnun á rafbílum mjög listræn.

Toyota með frúar eða herrabíl á þrem hjólum

Toyota með frúar eða herrabíl á þrem hjólum

Rafskutla

Rafskutla notuð í Strasbourg

Heimild:

700 rafbílar á Íslandi, eftir Jón Björn Skúlason og Sigurð Inga Friðleifsson. Morgunblaðið, desember 2015.


Fláajökull

Fláajökull, sem er skriðjökull og gengur úr suðausturhluta Vatnajökuls niður á Mýrar í Hornafirði hefur lengi verið uppáhaldsjökull minn en ég horfði nær daglega á hann í æsku ofan af Fiskhól og hef í gegnum tíðina séð Jökulfell sem er í jökulsporði hans stækka.  Þegar myndir frá byrjun síðustu aldar eru skoðaðar þá sést Jökulfell ekki. Það er hulið ísstáli.

Umgjörð Suðursveitar, Mýra og Nesja í Hornafirði er mjög óvenjuleg og á sér kannski hvergi hliðstæðu, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Stutt til sjávar og hver skiðjökullinn eftir annan steypist niður frá Vatnajökli og breiðir úr sér. Það er ótrúlega stutt frá grænu sveitinni upp í meginhvel Vatnajökuls, aðeins 15 km. Ferðamönnum nútímans finnst þetta einnig heillandi sýn og tilbúnir að greiða hátt gjald fyrir upplifunina sem er einstök: Voldugur jökullinn seilist niður í byggð í gegnum fjallaskörð og dali niður á græna og votlenda byggðina.  En fyrr á öldum háðu bændur mika baráttu við vötnin. Skaftfellsk þrautseigja sem hélt lífinu í byggðinni.

Fláajökull

Fláajökull frá þjóðvegi. Jökulfell sækkar á hverju ári.

Ég heimsótti vin minn Fláajökul 3. ágúst 2015 og velti því um leið fyrir mér þegar ég gekk yfir traustra göngubrúnna yfir kolmórauða jökulánna Hólmsá að einhvern tíma í framtíðinni gætu ísjakar og jöklar heyrt sögunni til og aðeins verið til á myndum. Það er ein afleiðing hnattrænnar hlýnunnar. 

Jöklar vita svo margt. Jöklar geyma ótrúlegt magn upplýsinga um veður og loftslag.

Á síðasta mælingarári hörfaði sporður Fláajökuls um 78 metra. Hörfunin frá 1995-2000 var að meðaltali 10-25 m/ári en hefur verið 50-78 m/ári síðan þá.

Í fróðlegri ritgerð, Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging eftir Heimi Ingimarsson er fjallað um hörfunargarða og dembigarða jafngangsjökla. Einnig hörfun jökulsporðsins.

Fláajökull og Hólmsá

Hólmsá, sem rennur undan Fláajökli, hefur lengi ógnað byggð á Mýrum

Áægtis upplýsingar eru um baráttu Mýramanna og jökulsins víða nálægt bílastæðinu. Árið 1937 voru miklar framkvæmdir og einnig 2002. Densilegur kamar tekur á móti ferðamönnum og smá mátti geitur frá Húsdýragarðinum í Hólmi. 

Fláajökull hefur einnig borið nafnið Hólmsárjökull en Hólmsá kemur frá honum en einnig Djúpá sem fellur í Hornafjarðarfljót. Einnig hafa nöfnin Mýrajökull og Hólsárjökull verið notuð yfir skriðjökulinn.

Heimildir:
Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging, Heimir Ingimarsson, 2013
Við rætur Vatnajökuls, Árbók FÍ 1993, Hjörleifur Guttormsson
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009.
Geographic Names of Iceland‘s Glaciers: Historic and Modern, Oddur Sigurðsson og Richard S. Williams jr, 2008.


mbl.is Tveir í sjálfheldu við Fláajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrossaborg (441 m)

Hrossaborg (441 m)á Mývatnsöræfum er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall (Hverfell) í Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeytigos í vatni eða við miklar grunnvatnsbirgðir. Hrossaborg er eldri, u.þ.b. 10.000 ára, en Hverfjall 2500 ára.

Veðrun hefur sorfið úr Hrossaborg og er hún því ekki eins vel formuð og Hverfjall.

Mývetningar beittu hrossum sínum gjarnan á þessu svæði og notuðu gíginn sem aðhald fyrir þau á meðan leitum var haldið áfram. Að þeim loknum var allt stóðið rekið niður í Mývatnssveit. Vegur liggur alla leið inn í gíginn, sem lítur út eins og stórt hringleikahús, þegar inn er komið. Leiðin inn í Herðubreiðarlindir (#F88) liggur steinsnar austan Hrossaborgar.

Til eru tvær aðrar Hrossaborgir, á Skarðsströnd.

Hrossaborg

Séð niður í Hrossaborg. Rúta SBA-Norðurleið sést til hægri.Fylgt er slóða upp á gígbarminn. Þaðan er mikið útsýni yfir Mývatnsöræfi.

Dagsetning: 17. júlí 2015
Hæð vörðu: 441 m
GPS-hnit vörðu: (N:65.36.820 – W:16.15.731)
Hæð rútu: 380 m (N:65.36.924 – W:16.15.488)
Hækkun: 60 m
Erfiðleikastig: 2 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

 

Heimildir
Ódáðahraun, Ólafur Jónsson
nat.is - Hrossaborgir


Hólárjökull 2015

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

160707

Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólárjökull 05.08.2015

Hólárjökull, 5. ágúst 2015. Augljós rýrnun á 9 árum. Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/


Ísjakar í fjörunni við Jökulsárlón

Það var mikið af jökum og ferðamönnum í fjörunni við Jökulsárlón í gær. Mikið af ís streymdi úr Jökulsárlóni út á haf og sunnanáttin skutlað þeim upp í fjöru. Geysimargar myndir voru teknar og flugu um samfélagsmiðla. Jöklarnir eru að hverfa.

Jakar við Jökulsárlón

Til­komu­mik­il upp­lif­un get­ur fal­ist í að skoða ísjakana í fjörunni. En eftir nokkra áratugi verður Jökulsárlón orðið að firði og jakaburður hættir fari fram sem horfir.


mbl.is Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kverkfjöll - Hveradalir

Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.

En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.

Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.

Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.

Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.

En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.

Kverkjökull- ganga

Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.

Göngukort

Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.

Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 226719

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 84
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband