Færsluflokkur: Bækur

Jómfrúræða Ólafs Thors

Það er merkilegt að skoða söguna. Hún virðist endurtaka sig í sífellu. Hinn mikli leiðtogi Íhaldsflokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thor komst á þing árið 1926 í aukakosningum.  Hann hafði sig ekki mikið frammi fyrsta árið en jómfrúræða hans fjallaði um gengismál. Það er kunnugt málefni.

Fannst honum íslenska krónan of hátt metin. En þá var ekki Seðlabanki og forsætisráðherra ákvað gengið.  Vildi Ólafur fella gengi krónunnar svo útflytjendur fengu meira fyrir sinn snúð á kostnað innflutnings.

Það er merkilegt að nú, 83 árum síðar skulu við Íslendingar enn vera fangar gengis íslensku krónunnar. Verðum við ekki að skipta henni út fyrir stöðugan gjaldmiðil svo komandi kynslóðir þurfi ekki að hlusta á sömu ræðurnar.

Ég er þessa stundina að lesa bókina Thorsararnir, auður - völd - örlög efir Guðmund Magnússon og er merkilegt að lesa bókina nú eftir bankahrun. Margt líkt með skyldum, 70 árum síðar.  Mútur, fjármagn tekið úr rekstri útgerðarfélaga, gjaldeyrishöft og grimm pólitík.

Í kvikmyndinni Draumalandið er minnst á skörungsskap Ólafs Thors er hann hafnaði því að  Bandaríkjamenn reistu hér á landi 5 herstöðvar og leigðu landið til 99 ára. Það var djörf ákvörðun en rétt. Peningar hefðu streymt inn í landið en við orðið feitt leiguþý. Nú vilja flokksmenn Ólafs Thors selja erlendum auðhringum orku okkar á "lægsta verði í heimi". Væri Ólafur Thors sammála?


Myrkárdagur

Nú er ég að lesa metsölubókina Myrká eftir Arnald Indriðason. Líklega eru 30 þúsund Íslendingar í sömu sporum og ég í dag, 10% þjóðarinnar, að hjálpa Elínborgu að leysa morðgátuna um símvirkjann Runólf og nauðgunarlyf hans. Ég er búinn að lesa tvo þriðju bókarinnar og það er komin ansi góð mynd á atburði helgarinnar. Hringurinn farinn að þrengjast, mun fljótlegra en ég bjóst við. Morðinginn er ekki fundinn en ég held að ég sé búinn að finna þann seka. 

Erlendur er í leyfi á Austurlandi og rannsóknarlögreglan Elínborg kynnt fyrir okkur. Lesendur kynnast fjölskyldu hennar og virðist fjölskyldulíf rannsóknarmanna og kvenna vera mikilvægur þráður í íslenskum glæpasögum. Arnaldur notar fjölskyldumeðlimi óspart til að kalla fram mótvægi við aðrar persónur í sögunni sem oftast liggja undir grun.  Það er fróðlegt að fylgjast með bloggaranum Valþóri, uppreisnarsömum unglingi á heimilinu. Hann bloggar eins og við hér á blog.is, segir frá leyndarmálum fjölskyldunnar og opinskár samskiptum við kærustur. En Runólfur heitinn bloggaði ekki.

Ég hlakka til kvöldsins og hlakka til að sjá sögulok. Vona að Arnaldur nái ekki að leika á mig á endasprettinum.


Nú-Nú

Ég rakst fyrir tilviljun á bókina Nú-Nú á bókasafni Kópavogs. Ég ákvað að leigja mér eintak og sé ekki eftir því. Þetta er bók sem maður á að eiga uppi í bókahillu hjá sér.

Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð. Minningar Steinþórs Þórðarsonar á Hala í Suðursveit.
Hér er íslenzk frásagnarkúnst eins og hún gerist bezt á síðustu öld. Sagnir af hreinu og sönnu mannlífi sunnan jökla. Steinþór er afi Þórbergs Torfasonar, bloggvinar míns.

Margt fólk kemur við sögu  og tengjast flestir Breiðabólstaðarbæjunum. Ég fann tvær stuttar frásagnir  af langafa mínum, Sigurði Sigurðarsyni, snikkara, frá Holtaseli á Mýrum. Það leiddi síðan til þeirrar ánægju að rekja ættir í Íslendingabók.  

Bókin Nú-Nú var gefin út árið 1970 og prentuð nákvæmlega orðrétt eftir segulböndum sem frásögn Steinþórs var útvarpað af veturinn 1969 til 1970.  Ekkert er fiktað við málfræðina og koma sum orð einkennilega fyrir. T.d. "vængjonum" og "bastofunni".

Enda þetta blogg með því að segja frá því hvað Steinþór gerði við peninginn rúmar 30 krónur, sem hann vann sér inn í vegavinnu er hann var 16 ára. En hann keypti snemmbæra kú á Hala, sem kostaði 70 krónur.

"Og líklega hefur nú faðir minn fengið hana heldur ódýrari en það, að hann borgaði hana í harðri mynt svona upp undir það að hálfu leyti. Hún var keypt af Þorsteini Jónssyni [1857 - 1938] á Kálfafelli". 

Þorsteinn var bróðir langa-langömmu minnar. Svo heldur hann áfram:

"Þorsteinn var einn af þessum ágætu mönnum, sanngjörnu mönnum, sem sáu alltaf hag hinna, sem að erfiðara voru settir, og reyndi eftir því sem hann gat að hlynna að þeim. Ef að samskot voru í Suðursveit, þá var alltaf víst, að Þorsteinn var hæstur. Ef einhver bað um að lána sér, þá var það sjálfsagt, ekkert að tala um veð, ekkert að tala um vexti, bara að hjálpa og lána."

Það er gleðilegt að lesa þetta. Maður er ekki kominn af okurlánurum, lifandi á tímum hæstu vaxta í heimi.


Fyrirbænir prestsins

Meira er sagt frá Skaftfellingum í bókinni Vadd' úti. Klerkurinn í Bjarnanesi, Eiríkur Helgason kemur við sögu en hann þróaði Hornafjarðarmannan milli þess er hann messaði. Grípum niður í frásögnina af fyrstu rannsóknarferðinni á Vatnajökul 1951.

 "Þá kom þar að Eiríkur Helgason, prestur í Bjarnanesi, skólabróðir Jóns Eyþórssonar. Hann flutti yfir okkur mikla tölu og bað fyrir ferðum okkar á jöklinum, að Guð almáttugur héldi verndarhendi yfir okkur og veður reyndust okkur hagstæð."

 Á öðrum degi brast á stórviðri sem stóð lengi.

"Þetta voru hryllilegir sólarhringar og ekki gæfuleg byrjun á leiðangrinum. Þegar mestu kviðurnar gengu yfir varð Jóni oft á orði að prestinum, skólabróður sínum hefði nú verið betra  að halda kjafti og að lítið hafi Guð almáttugur gert með orð prestsins."

Eftir 40 daga á víðáttum Vatnajökuls í rysjóttum veðrum hittust leiðangursmenn og klerkur:

"Farið var með allan leiðangursbúnaðinn til Hafnar í Hornafirði. Þegar þangað kom hittum við séra Eirík Helgason, sem hafði beðið fyrir ferð okkar á jökulinn og sérstaklega fyrir góðu veðri. Jón Eyþórsson sagði strax að fyrirbænir hans hafi komið að litlu liði.

Séra Eiríkur sagði okkur þá að fara varlega í að gera lítið úr þeirri blessun sem hann óskaði að fylgdi okkur. Ef hann hefði ekki beðið fyrir okkur hefðum við líklega drepist. Meðan við vorum á jöklinum hafði nefnilega gengið yfir landið eitt versta norðaustanbál sem menn höfðu kynnst á Íslandi."

Magnaður klerkur séra Eiríkur! - Niðurstöður leiðangursins sem Eiríkur blessaði, var: Meðalhæð Vatnajökuls er 1220 metrar, en meðalhæð undirlags jökulsins 800 metrar. Meðalþykkt jökulíss er því 420 metrar og flatarmál 8.390 ferkílómetrar. Ef allur ís Vatnajökuls bráðnaði myndi yfirborð sjávar um alla jörð hækka um 9 millimetra. Til samanburðar myndi sjávarborð hækka um 5,6 metra ef Grænlandsjökull færi sömu leið.

 


Náttúrulega

Nýlega lauk ég við bókina Vadd' úti, ævisögu Sigurjóns Rist. Það var skemmtileg lesning. Gaman að sjá sjónarhorn vatnamælingamannsins á rafvæðingu landsins. Einnig var fróðlegt að lesa söguna í kreppunni, en Sigurjón fæddist og ólst upp í kreppu. Mótaði hún hann alla tíð. Hann var mjög nýtinn og sparsamur. Góður ríkisstarfsmaður.

Margar góðar sögur eru í bókinni enda ferðaðist hann víða. Meðal annars vann hann með Austur-Skaftfellingum. Kvískerjabræður komu við sögu í fyrstu vísindaleiðangri á Vatnajökul.  Tek ég hér bút úr ævisögunni:

"Þegar við vorum að draga litla trékassa yfir lónið, sem voru aðskildir frá öðru dóti og sérstaklega vel gengið frá, spurðu bræður hvað væri í þessum kössum. Ég sagði að það væri sprengiefni. Þá sögðu þeir: Náttúrulega. Í farangrinum voru mörg skíði, þar á meðal mín. Þeir spurðu mig að því hvort ég væri mikill skíðamaður og sagði að ég teldi mig nú ekki mjög mikinn skíðamann. Náttúrulega, svöruðu bræður. Mér fannst þetta kyndugt, en kom mér þó ekki alveg á óvart. Jón Eyþórsson hafði bent mér á að orðanotkun Öræfinga væri stundum öðruvísi en hjá öðrum landsmönnum. Til dæmis segðu þeir ævinlega náttúrulega, þegar aðrir notuðu orðatiltækið; einmitt það!"

Sverrir Hermannsson fv. alþingismaður, sagði mér eitt sinn frá því að það hefði verið merkilegt að halda framboðsræður fyrir alþingiskosningar í Öræfum. Öræfingar hefðu helgið á allt öðrum stöðum í ræðunni en aðrir Austfirðingar. Og allir hefðu þeir hlegið sem einn.

Síðar í kaflanum er sagt frá heimsókn leiðangursmanna til Kvískerja:

"Eftir þessa ágætu máltíð [reyktan fýl í Fagurhólsmýri]  var farið austur að Kvískerjum og gist þar um nóttina. Þar var vel tekið á móti okkur. Frakkarnir ráku augun í pall sem gerður hafði verið úr rekavið til að gera við og smyrja bíla á. Þeir urðu skotnir í þessum palli og sáu sér leik á borði að smyrja víslana áður en haldið væri á jökulinn. Við leituðum eftir því hvort þeir mættu þetta. Hálfdán, sá bræðranna sem sá um bíla- og vélakost heimilisins, skoðaði víslana og lagði mat á þá og gaf síðan leyfið.

Við fengum oft að heyra það síðar hvað Frakkarnir voru hrifnir af þessu. Þarna hafi verið farið að meið miklu öryggi og engum asa. Hálfdán hafi vegið það og metið hvort pallurinn þyldi víslana, áður en hann veitti leyfið. Álit þeirra á Íslendingum óx töluvert við þessa prúðu og traustu framkomu."

Útrásarvíkingarnir hefðu átt að taka Hálfdán á Kvískerjum sér til fyrirmyndar. Vonandi mun næsta kynslón útrásarvíkinga gera það.

Kviskerjabræður

Kvískerjabræður, Hálfdán, Helgi og Sigurður.  Mynd fruma.is


Nelson níræður

Fyrir nokkrum árum fór ég á árlegan bókamarkað í Perlunni. Þar voru þúsundir bókatitla til sölu. Ég vafraði um svæðið og fann grænleita bók sem bar af öllum. Hún kostaði aðeins  fimmhundruð krónur. Þetta var eina bókin sem ég keypti það árið.  Hún hét Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela.

NelsonMandelaFjölvi gaf út bókina árið 1996 og er ágætlega þýdd af Jóni Þ. Þór og Elínu Guðmundsóttur. Bókin hafði góð áhrif á mig. Hún sýndi stórbrotinn mann í nýju ljósi.

Thembumaðurinn Rolihlahla sem fæddist fyrir 90 árum er síðar nefndur Nelson á fyrsta skóladegi var bráðvel gefinn drengur.  Nafnið Rolihlahla merkir á máli Xhosa "sá sem dregur trjástofn", en í daglegu máli er það notað yfir þá, sem valda vandræðum.  Nelson Mandela átti eftir að valda hvíta meirihlutanum í S-Afríku miklum vandræðum í baráttunni við aðskilnaðarstefnuna, Apartheid.

Þegar Nelson var 38 ára var bannfæringu létt af léttvigtarmanninum. Hann fór í frí til átthaganna. Þar er áhrifamikil frásögn. 

"Þegar kom framhjá Humansdorp varð skógurinn þéttari og í fyrsta skipti á ævinni sá ég fíla og bavíana. Stór bavíani fór yfir veginn fyrir framan mig og ég stöðvaði bílinn. Hann stóð og starði á mig, eins og hann væri leynilögreglumaður úr sérdeildinni. Það var grátbroslegt að ég, Afríkumaðurinn, var að sjá þá Afríku, sem lýst er í sögum, í fyrsta sinn. Þetta fallega land, hugsaði ég, allt utan seilingar, í eigu hinna hvítu og forboðið svörtum. Það var jafn óhugsandi að ég gæti búið í þessu fallega héraði og að ég gæti boðið mig fram til þings."

Mæli með að fólk lesi sem mest um Nelson Mandela í dag og næstu daga. Það er mannbætandi.

Þetta voru mjög vel heppnuð bókarkaup.   Til hamingju með daginn, Rolihlahla Mandela.

 


120 ára?

Í dag, 12. mars er afmælisdagur meistara Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala. Ekki er alveg öruggt að Þórbergur sé 120 ára en lengi vel var talið að hann væri fæddur árið 1889. En kirkjubók ein breytti aldrinum. Haldið var upp á merk tímamót á oddatöluárinu áður fyrr. T.d. hundrað ára ártíðin.

Þórbergur var mikill nákvæmnismaður og því er þetta ósamræmi ennþá spaugilegra.

Í bókamarkaði í Perlunni voru aðeins þrjár bækur eftir Þórberg. Edda, Ýmsar ritgerðir I og II. Hina átti ég fyrir.

Ég fjárfesti í ritgerðunum tveim en hafði lesið fyrir nokkru.  Ein ritgerðin er ritdómur um Hornstrendingabók eftir Þorleif Bjarnason. Heitir hún Einum kennt - öðrum bent. Er þessi ritdómur einn sá magnaðasti sem skrifaður hefur verið hér á landi og þó víðar væri leitað! Grípum niður kafla 2 - Skallar.

"..Víða stafa þessir skallar í frásögninni ekki af sniði bókarinnar, því síður heimildarþurrð, heldur af skorti höfundarins á nákvæmni og skilning á verki því, sem hann hefur tekizt á h endur. Ég skal nefna nokkur dæmi þessu til skýringar.

Í lýsingunni á sjóbúðunum í Skáladal á bls. 51 er t.d. ekki getið um stærð búðanna, ekki minnzt á birtugjafa, ekki lýst dyrum og dyraumbúnaði, ekkert orð um búðargólfin, ekki sagt frá gerð rúmstæðanna, ekki greint frá rúmfatnaði vermanna, þagað um það, hvar þeir höfðu sjóföt sín, þegar í landi var legið, o.fl. o.fl."

Ég var nýlega búinn að lesa þessa gagnrýni Þórbergs á Hornstrendingabók þegar ég gekk á Strýtu (1.456 m) í Eyjafirði. Á toppnum hugsaði ég til Þórbergs. Ég yrði að þramma á toppnum, sem var sléttur efst til að hafa allar lengdir frá norðri til suðurs og austur til vesturs á tæru í leiðarlýsingu minni á fjallgöngunni.


Þórbergs lykillinn - X, I2, X30 og Z45

Jólagjafirnar komu samkvæmt áætlun. Ein bókin sem ég fékk og reiknaði með að fá var bókin, ÞÞ í fátæktarlandi - þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar eftir Pétur Gunnarsson.  Mitt fyrsta verk yfir jólahátíðina var að lesa bókin og hafði ég gaman að.  Ég komst að því að ég er nokkuð vel lesinn í Þórbergi enda búinn að lesa flest allar bækur sem hann hefur skrifað auk bóka sem gefnar hafa verið út um meistara Þórberg.

Stíllinn hjá Pétri er oft skemmtilegur í bókinni, myndrænn og léttur. Hann hefur eflaust lært eitthvað af meistaranum við skrifin.  Það sem kom mér helzt á óvart er hversu mikill bóhem Þórbergur var en sú mynd hefur ekki mikið birst af honum.

Þórbergur hélt nákvæmar dagbækur og hefur Pétur grúskað lengi yfir þeim. Nokkur tákn eru í bókinni og undirstrikanir sem ekki er búið að ráða. Pétur hefur hins vegar fundið út að  þar sem fundur við Kristínu Guðmundsdóttur er undirstrikaður fylgir X efst á síðu.  

Á þessum síðum er líka töluvert um merkjamál eða dulmál sem skortir forsendur til að skilja og tíma til að ráða. Hvað merkja I2, X30 og Z45?

Þessi tákn eru enn ein snilldin hjá Þórbergi en hann vissi að bækurnar yrðu lesnar eftir sinn dag. Því hefur hann skráð prívat upplýsingar með þessum hætti.

Í byrjun árs las ég frétt á forsíðu Fréttablaðsins um að dulmálssérfræðingar hafa fengið leyfir fyrir því að grafa skurð á í Skipholtskróki á Kili í leit sinni að heilögum kaleik Jesú Krists og öðrum dýrgripum musterisriddara. Ítalski verkfræðingurinn og dulmálssérfræðingurinn Giancarlo Gianazza telur sig hafa ráðið flóknar vísbendingar fornra skálda og listmálara.

Er ekki ráðið að fá Gianazza til að rannsaka dagbækur Þórbergs og finna út úr þessum táknum Þórbergs. 

Önnur spurning er hvort Þórbergur sé einn af lykilmönnum í varðveislu dýrgripa musterisriddara rétt eins og Snorri Sturluson og þessi tákn tengist staðsetningunni á dýrgripunum?

Að lokum er spurning hvort hér sé efniviður fyrir hinn íslenska táknfræðing Dr. Robert Langdon eða jafnvel Erlend - Bókin gæti heitið Þórbergs lykillinn. Thorbergs Code á ensku!

 


"Ó blessuð Suðursveit! Aldrei hefðir þú gert svona!"

Það verður gaman að lesa bókina eftir Pétur Gunnarsson, ÞÞ í fátæktarlandi: Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar um jólin.  Ég hlakka til að kynnast Þórbergi betur.  Er nýbúinn að lesa bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal en þar segir Margrét Jónsdóttir ekkja Þórbergs Þórðarsonar frá. Það er létt og skemmtileg bók.

 


mbl.is Þórbergur ekki við eina fjölina felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðvandir Öræfingar

Fyrst minnst var á bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal í síðustu færslu þá er ekki úr vegi að kíkja í kaflann Rigningarsumar í Suðursveit.

Ég hef haldið mikið upp á frásögn Þórbergs á Vatnadeginum mikla en sú frásögn er einstök í sinni röð, einkum með tilliti til málfars í sambandi við veður og vötn. Kíkjum á hvernig  Margrét Jónsdóttir upplifði ferðina yfir Skeiðará. 

"Við lögðum af stað um morguninn og riðum úr hlaði undir heiðbjörtum himni, öll á þaulvönum vatnahestum, pósturinn Runólfur Jónsson í Svínafelli, Þórbergur og ég. Síðan bættist fimmti maðurinn í hópinn, Runólfur Bjarnason í Skaftafelli, sem talinn var mesti Skeiðarárfræðingur í Öræfum.

Um leið og Þórbergur hitti Runólf í Skaftafelli, spurði hann:

"Er ekki Skeiðará mikil núna, Runólfur?"

"Jú, það er ansi mikið í henni," svarar hann

Þá leist Þórbergi ekki á blikuna, því að hann þekkti vel, hve orðvandir Öræfingar voru. Ansi mikið táknaði á þeirra máli ekkert minna en andskotans ósköp - svo útlitið var ekki gott.

Á leiðinni brýndi Þórbergur fyrir mér vatnaboðorðin fjögur, svo að ég fær mér nú ekki aftur að voða, en þau hljóðu svo:

Fyrsta boðorð: Haltu ekki fast í tauminn

Annað boðorð: Stattu ekki í ístöðunum.

Þriðja boðorð: Haltu annarri hendi af öllu afli í faxið, ekki í hnakkinn.

Og fjórða boðorð: Horfðu ekki niður í vatnið, heldur skaltu einblína á Lómagnúp." 

Í þessari frásögn koma mörg sérkenni fram. Yfirburðaþekking Skaftfellinga á Skeiðará. Þekking sem hefur tapast eftir að brýr komu til sögunnar. Geðgóðir hestar, húmor og skipulag Þórbergs. Einnig hversu margbrotin íslenskan getur verið. Ansi mikið getur haft stóra merkingu. Tungumálið er ekki bara samskiptatæki, það er miklu dýpra en það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 110
  • Frá upphafi: 226395

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 100
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband