Færsluflokkur: Bækur

Orðvandir Öræfingar

Fyrst minnst var á bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal í síðustu færslu þá er ekki úr vegi að kíkja í kaflann Rigningarsumar í Suðursveit.

Ég hef haldið mikið upp á frásögn Þórbergs á Vatnadeginum mikla en sú frásögn er einstök í sinni röð, einkum með tilliti til málfars í sambandi við veður og vötn. Kíkjum á hvernig  Margrét Jónsdóttir upplifði ferðina yfir Skeiðará. 

"Við lögðum af stað um morguninn og riðum úr hlaði undir heiðbjörtum himni, öll á þaulvönum vatnahestum, pósturinn Runólfur Jónsson í Svínafelli, Þórbergur og ég. Síðan bættist fimmti maðurinn í hópinn, Runólfur Bjarnason í Skaftafelli, sem talinn var mesti Skeiðarárfræðingur í Öræfum.

Um leið og Þórbergur hitti Runólf í Skaftafelli, spurði hann:

"Er ekki Skeiðará mikil núna, Runólfur?"

"Jú, það er ansi mikið í henni," svarar hann

Þá leist Þórbergi ekki á blikuna, því að hann þekkti vel, hve orðvandir Öræfingar voru. Ansi mikið táknaði á þeirra máli ekkert minna en andskotans ósköp - svo útlitið var ekki gott.

Á leiðinni brýndi Þórbergur fyrir mér vatnaboðorðin fjögur, svo að ég fær mér nú ekki aftur að voða, en þau hljóðu svo:

Fyrsta boðorð: Haltu ekki fast í tauminn

Annað boðorð: Stattu ekki í ístöðunum.

Þriðja boðorð: Haltu annarri hendi af öllu afli í faxið, ekki í hnakkinn.

Og fjórða boðorð: Horfðu ekki niður í vatnið, heldur skaltu einblína á Lómagnúp." 

Í þessari frásögn koma mörg sérkenni fram. Yfirburðaþekking Skaftfellinga á Skeiðará. Þekking sem hefur tapast eftir að brýr komu til sögunnar. Geðgóðir hestar, húmor og skipulag Þórbergs. Einnig hversu margbrotin íslenskan getur verið. Ansi mikið getur haft stóra merkingu. Tungumálið er ekki bara samskiptatæki, það er miklu dýpra en það. 


Er nú spyrillinn þurrausinn?

Var að horfa á bókaþáttinn Kiljuna í kvöld.  Einn gesta þáttarins var Matthías Johannessen ritstjóri. Egill og Matthías áttu skemmtilegt spjall saman. Gaman að heyra afstöðu Matthíasar á birtingu á efni eftir sig á Netinu, matthias.is.

Fyrir stuttu las ég bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal en þar segir Margrét Jónsdóttir ekkja Þórbergs Þórðarsonar frá. Það er létt og skemmtileg bók.

Það er gaman að sjá sjónarhorn Margrétar á atburðum. Hún segir þar frá viðtali sem ungur maður, hár vexti og ljóshærður, bjartur yfirlitum og drengjalegur á við Þórberg fyrir tímaritið Helgafell í tilefni af sjötugsafmæli hans. Matthías Johannessen hét ungi maðurinn  og kemur aftur og aftur í heimsókn til þeirra hjóna. Smátt og smátt breyttist blaðaviðtalið í heila bók. Viðtalsbókin koma út á afmælisdegi Þórbergs, hinn 12. mars 1959, þegar hann varð sjötugur. Í kompaníi við allífið hét hún. Matthías skrifaði fleiri viðtalsbækur og eflaust er það rétt sem Egill sagði í þættinum í kvöld að þær séu ein mesta snilld í íslenskri blaðamennsku.

Eitt sinn var Matthías búinn að þræla sér svo út fyrir andskotans íhaldið, að hann sat kúguppgefinn í stólnum og steinþagði:

  Þá segir Þórbergur:    "Er nú spyrillinn alveg orðinn þurrausinn?"

Þarna heyrðist orðið spyrill í fyrsta skipti, því að Þórbergur bjó það til.  Þetta var ekki eina orðið sem nýyrðasmiðurinn Þórbergur bjó til á farsælli æfi.


Þórbergur Þórðarson, lýsir borgarmenningunni.

Fyrr í mánuðinum heimsótti ég Þórbergssetur á Hala í Suðursveit. Það var skemmtileg og fróðleg heimsókn. Svo vel vildi til að lesið var úr verkum Þórbergs á safninu. Þorbjörg Arnórsdóttir sá um lesturinn og gerði vel.

Ég hlustaði á lesturinn um baðstofuna í Bergshúsi við eftir gerð af Bergshúsi. Þórbergur var nákvæmur meður og lýsti hlutum vel og skemmtilega. Hann kunni að lesa hús. Það var gaman að sjá safngripinn umvafinn sögunni. 

Þorbjörg Arnórsdóttir benti á að bókmenntafræðingar hefðu fundið út að Þórbergur væri fyrsti sem skrifaði um lífið í borginni á 20. öldinni. Það á eflaust eftir að gera Þórberg merkilegri í framtíðinni. Þórbergur var því bloggari á undan sinni samtíð.

Í gærkveldi keyrði ég frá Keflavík í borgina sem Þórbergur lýsti svo vel fyrir öld. Snæfellsjökull og Snæfellsnes var glæsilegt að sjá í sólsetrinu. Skýin voru mögnuð, mynduðu flott mynstur í ákveðinni hæð eftir ósýnilegri beinni línu. Bezt að enda blogg dagsins á lýsingu á glugga í Bergshúsi.

"Og þegar við litum út um hann, blasti Faxaflóinn við augum okkar, en handan við flóann reis Snæfellsjökull yzt við sjóndeildarhringinn eins og risavaxinn tólgarskjöldur með gömlum myglufeyrum.
Það þótti fögur sjón, þegar maður gat borgað fyrir sig um næstu mánaðarmót. En hve heimurinn yrði fagur, ef allir gætu borgað fyrir sig!"

Ofvitinn, Þórbergur Þórðarson. Kaflinn um baðstofuna.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 364
  • Frá upphafi: 232821

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 325
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband