Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat

Fagna mjög nýjustu fréttum frá fjárlaganefnd um breytta forgangsröð á innviðum landsins og að einbreiðum brúm verði útrýmt á næstu árum.
"Það krefjist mikilla samgöngubóta með fækkun einbreiðra brúa svo dæmi sé tekið." - segir í frétt á ruv.is

Það þokast í umferðaröryggismálum. Því ber að fagna.

Í vor framkvæmdi undirritaður úttekt á einbreiðum brúm í Ríki Vatnajökuls, tók myndir og sendi niðurstöður víða, m.a. til Innanríkisráðuneytisins, fjölmiðla og þingmanna.

Undirritaður tók myndir af öllum 21 einbreiðum brúm í fyrri ferð og einnig í ferð í síðust viku.  Niðurstaða, óbreytt áhættumat!

  • Engar breytingar eru varðandi blikkljós,  aðeins eru fjögur.
  • Lækkaður hámarkshraði er aðeins á tveim brúm,  Jökulsárbrú (70-50-30 km) og Hornafjarðarfljóti (50 km).
  • Leiðbeinandi hámarkshraði er hvergi.
  • Upplýsingar til erlendra ferðamanna eru ekki sjáanlegar


Eina breytingin sem sjáanleg er að við nokkrar brýr hafa yfirborðsmerkingar verið málaðar. Línur hafa verið málaðar og alls staðar eru málaðar þrengingar, vegur mjókkar, á veg en sú merking er ekki til í reglugerð. Spurning um hverju þetta breytir þegar snjór og hálka sest á vegina í vetur.
Niðurstaðan er að áhættumatið er óbreytt milli úttekta.

Nú er spurningin til innanríkisráðherra, þegar vika er liðin af ágúst: er fjármagnið búið eða koma fleiri umferðarskilti með hámarkshraða eða leiðbeinandi hraða í ágúst og blikkljós en þau eru stórlega vanmetin?

Endurskoðað áhættumat

Yfirlit yfir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls og niðurstaða úr endurskoðuðu áhættumati.

Vefur sem safnar upplýsingum um einbreiðu brýrnar.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel


Hólárjökull hörfar

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Efri myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. 

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

Hólárjökull 2016

 

Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.

Draga þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.

 

 

 

 

 

Hólárjökull 5. ágúst 2016.

 

Hólárjökull 2006 og 2015

Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/

Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/


Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - áhættumat

Ég átti leið um Suðurland um Páskana, ferðaðist í bíl á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur og það var geysileg umferð erlendra ferðamanna. Vandræði að fá bílastæði á vinsælum ferðamannastöðum. Enda ferðaþjónustan orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi og ferðamenn eiga góða þjónustu og tryggt öryggi skilið. En mest af þessu ágætu ferðamönnum hefur litla ökureynslu. Sumir hverjir eru nýbúnir að fá bílpróf fyrir Íslandsferð.

Vegagerðin mældi 83% aukningu á bílaumferð um Mýrdalssand milli marsmánaða. Er hræddur um að það fjármagn sem áætlað er í merkingar á einbreiðum brúm sé allt of naumt skammtað. Það þarf að gera þetta vel meðan brýrnar, svartblettir í umferðinni eru á Hringveginum.

Í Ríki Vatnajökuls er hættuástand vegna 21 einbreiðra brúa. Einbreiðar brýr voru ódýrari í byggingu, það er ástæðan fyrir tilveru  þeirra. Nú er öldin önnur. Ég tók mynd af öllum einbreiðu brúnum og framkvæmdi áhættumat og læt það fylgja með, ókeypis. Það er mín samfélagsleg ábyrgð.
Allar einbreiðu brýrnar lenda í hættuflokknum og 7 brýr eða þriðjungur lendir í flokknum dauðagildra.

Áhættumat einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls

Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls.


Að deyja úr frjálshyggju

Þær safnast undirskriftirnar hjá endurreisn.is. Það styttist í 70 þúsund manna múrinn verði rofinn.

Ég lenti í lífsreynslu í sumar og þurfti að leita á náðir heilbirgðiskerfisins og eru það ný lífsreynsla fyrir mér en hef náð áratug án þess að þurfa að leita læknis.

Skrifaði grein á visir.is: Frá Kverkfjöllum til Tambocor, þriggja mánaða krefjandi ferðalag.

Að leggja fjármagn í heilbirgðiskerfið er fjárfesting en ekki útgjöld. Hvert mannslíf er verðmætt. Um hálfur milljarður!

Hér á landi vantar lækna. Það vantar hjúkrunarfólk. Það vantar fjármagn, kærleik og skilvirkt heilbrigðiskerfi. Það vantar góða stjórnmálamenn. Það vantar rétta forgangsröðun. Það er vísvitandi verið að brjóta heilbrigðiskerfið niður innanfrá. Það er verið að undirbúa innrás frjálshyggjunnar.  

Heilbrigðiskerfið á Íslandi er eflaust á heimsmælikvarða fyrir heilbrigt fólk, en þegar reynir á kerfið eru biðlistarnir langir.  Þeir eru í boði stjórnvalda. Þau bera ábyrgð á stöðunni. Fagfólkið á spítalanum gerir sitt bezta.

Við skulum von að okkur Íslendingum takist að endurreisa heilbrigðiskerfið og hafa sambærilegt heilbrigðiskerfi og hin Norðurlöndin búa við til að vernda okkar mikilvægust eign, heilsuna.

Vonandi deyr enginn úr frjálshyggju. 


Rafbílavæðing Íslands

Eftir góða niðurstöðu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) þá er tími jarðefnaeldsneytis og kola liðinn. 

Nú er stórt tækifæri fyrir nýsköpun í samgöngum. Á SolutionsCOP21 sýningunni í Grande Palace glerhöllinni voru margar lausnir í boði. Rafmagn, vetni, metan og lífrænt gas. 

Maður gekk út bjartsýnni á framtíðina eftir að hafa hitt fólkið sem var fullt af eldmóð að kynna frantíðarlausnir. Vonandi upphaf að nýrri franskri byltingu.

Einfaldast er að innleiða rafmagn hér á landi og hlutfallseg sala rafbíla næst mest í heiminum. Uppbygging hraðhleðslustöðva er þegar hafin hjá ON. Innan skamms verða 13 hleðslustöðvar tilbúnar. Því miður hefur bílaframleiðendum ekki tekist að hafa sömu hraðhleðslutengi á bílum sínum. Japanir nota svokallaðan CHAdeMO-staðal á meðan flestir evrópsku bílaframleiðendurnir nota Combo. Enn eitt tengið er svo AC43 sem Renault Zoe notar og Tesla sem var mjög vinsælt á sýningunni er með enn aðra gerð tengja. ON var með Chademo-staðalinn en verið að útvíkka fyrir önnur tengi. 

Þetta er því mikil kjarabót fyrir fjölskyldur. Meðan dagurinn af jarðefnaeldsneyti er á þúsund krónur, þá er dagurinn með raforku á hundrað kall. Stórkostleg kjarabót og sparar gjaldeyri og minnkar útblástur.

 

Hleðslustöð Renault Zoe

Hér eru hleðslulausnir hjá Renault Zoe, AC43. Þrjár mismunandi hleðslueiningar og hægt að sjá hleðslutíma á myndinni.

Annars var hönnun á rafbílum mjög listræn.

Toyota með frúar eða herrabíl á þrem hjólum

Toyota með frúar eða herrabíl á þrem hjólum

Rafskutla

Rafskutla notuð í Strasbourg

Heimild:

700 rafbílar á Íslandi, eftir Jón Björn Skúlason og Sigurð Inga Friðleifsson. Morgunblaðið, desember 2015.


Dómsdagsklukkan

Í dag ber að fagna. Nýr loftslagssamningur verður undirritaður í París sem byggir á trausti.

Ólafur Elíasson og grænlenski jarðfræðingurinn Minik Rosing settu upp listaverkið Ice Watch á Place du Panthéon. 12 grænlenskum ísjökum var komið fyrir á á Place du Panthéon og mynda vísa á „Dómsdagsklukku“. 

Það var áhrifaríkt að sjá ísklukkuna. Þarna var fólk af öllum aldri og öllum kynþáttum alls staðar úr heiminum. Margir hverjir að sjá ísjaka í fyrsta skipti og gaman að upplifa viðbrögð þeirra, ungra sem aldna. Þarna fræðir listin fólk á áþreifanlegan hátt og kemur vonandi hreyfingu á hlutina. En Hólárjökull og Dómsdagsklukkan eiga margt sameiginlegt, bæði að hverfa inn í tómið.

Ólafur Elíasson vonast til að listaverkið nái að brúa bilið milli gagna, vísindamanna, stjórnmálamana og þjóðhöfðingja og venjulegs fólks.

Við skulum grípa þetta einstaka tækifærir, við – heimurinn- getum og verðum að grípa til aðgerða nú. Við verðum að umbreyta þekkingu á loftslaginu í aðgerðir í þágu loftslagsins,“ segir Ólafur Elíasson. „Listin getur breytt skynjun okkar og heildarsýn á heiminum og Ice Watch er ætlað að gera loftslagsbreytingar áþreifanlegar. Ég vona að verkið geti orðið mönnum innblástur til að takast á hendur sameiginlegar skuldbindingar og grípa til loftslagsaðgerða.“

12068673_10207010540495021_5931083496929781539_o

80 tonnum af ísjökum frá Grænlandi og mynda þeir vísana á klukku


#mittframlag

Hann var ánægjulegur föstudagurinn 4.september en þá fékk ég boð um að mæta í franska sendiráðið og taka á móti verðlaunum í ljósmyndakeppninni #mittframlag. Sendiherra Frakka og starfsfólk ásamt samstarfsaðilum verkefnisins voru mjög viðkunnanleg og hjálpleg enda ætla Frakkar að ná árangri á COP21 fundinum í byrjun desember. Verðlaunin voru ferð fyrir tvo til Parísar meðan fundurinn, sem gæti orðið mikivægasti fundur mannkyns, stendur yfir.

Eftir að hafa æft mig í frönsku yfir daginn var tekinn strætó, leið 5 niður í bæ. Farið út hjá BSÍ og gengið eftir Fríkirkjuveginum og meðfram Tjörninni. Ég var klæddur svörtum fötum, samt ekki á leið í jarðarför heldur í umhverfisvænstu litunum.

Hornfirðingar eru að upplifa loftslagsbreytingar með eigin augum. Jöklarnir sem hafa vakað yfir okkur í þúsund ár eru að hverfa. Fyrir nokkru voru þeir taldi ásamt eldfjöllum undir þeim til 7 undur veraldar. Píramídar okkar eru að hverfa fyrir framan nefið á okkur. Ég lagði mitt af mörkum til að stöðva þróunina í Ríki Vatnajökuls. Verðum að halda hitabreytingum undir 2 gráðum. Ég sendi inn mynd af Hólárjökli en ávallt þegar ég keyri framhjá honum tek ég mynd af skriðjöklinum hverfandi.

Ljósmyndin sem vann er verkefni sem ég hef unnið síðastliðin 9 ár og gæti talist sem endurljósmyndun. Aðferð sem gengur út á að taka gömul verk og endurvinna sömu sjónarhorn.

Hólárjökull - Vatnajökull

Mynd af Hólárjökli vinnur ljósmyndaleik. Samsett mynd af Hólarjökli frá 2006 til 2015.

Dómnefnd ljósmyndaleiksins Mitt framlag hefur valið mynd Sigurpáls Ingibergssonar af Hólarjökli sigurvegara í ljósmyndaleiknum #MittFramlag. Dómnefndin taldi að samsettar myndir Sigurpáls af Hólarjökli sem teknar eru með tíu ára millibili sýni í hnotskurn áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Vísindamenn telja að 80 af jöklum á Íslandi muni bráðna fyrir lok þessarar aldar. Því er spáð að Langjökull, næststærsti jökull landsins, hverfi innan hálfrar annarar aldar.
Sigurvegarinn í vali dómnefndar hlýtur ferð fyrir tvo til Parísar á meðan COP21, Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, stendur yfir í desember. Icelandair og franska sendiráðið á Íslandi gáfu vinninginn og hefur Sigurpáll og gestur hans tök á að heimsækja ýmsa viðburði í tengslum við loftslagsráðstefnuna.
Alls bárust 154 ljósmyndir í ljósmyndaleikinn. Tilgangurinn var að vekja almenning til vitundar um lofslagsbreytingar. Engin skilyrði voru um val á myndefni að öðru leyti en því að myndirnar skyldu minna með einum eða öðrum hætti á loftslagsbreytingar.
Myndum var hlaðið inn á á netið með Instagram, Twitter og Facebook og á vefsíðu leiksins, www.mittframlag.is
Ljósmyndaleikurinn var haldinn í samvinnu Evrópustofu, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Umhverfisstofnunar, Sendiráðs Fraklands á Íslandi, Reykjavíkurborgar, Kapals - markaðsráðgjafar og UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Ég er ákaflega stoltur að því að hafa unnið ljósmyndakeppnina og þarna náð að sameina tvö áhugamál mín, ljósmyndum og umhverfismál. Veit að myndin hefur haft áhrif á fólk og vakið upp umræðu. Gef allan höfundarétt og vonandi fá komandi kynslóðir að njóta þess. 

Tæknilega séð er myndin ekki mikið afrek, það má ýmislegt finna að henni en sagan sem hún geymir er áhrifarík. Segir meira en þúsund orð.


Fossaganga í Skjálfandafljóti

Skjálfandafljót er fjórða lengsta á landsins, lengd fljótsins er 178 km. Það var því ákveðið að ganga rúma 20 km með eystri bakka Skjálfandafljóts. Gangan hófst við Réttartorfu og endaði við stuðlaðan Aldeyjarfoss.

Á leiðinni var hugsað til mögulegrar virkjunar, Hrafnabjargavirkjunar en á teikniborðinu eru þrír kostir, A, B og C. Við gengum eftir Fljótsdalnum sunnan við Hrafnabjörg og værum á kafi væri búið að virkja.

Með virkjun myndi stóru gróðursvæði á hálendinu vera sökkt með 25 km löngu miðlunarlóni og Aldeyjarfoss myndi þorna upp.

Í Skjálfandafljóti eru margir fallegir fossar með söguleg nöfn: Ullarfoss, Barnafoss, Goðafoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargafossar og minna þekktir eru, Geitafoss, Ingvararfossar, og syðst er Gjallandi, en þeir eru fleiri.  Við ákváðum að heimsækja Hrafnabjargafossa, Ingvararfossa og Aldeyjarfoss í ferðinni.

Ferðin gekk vel frá Réttartorfu en ein á er á leiðinni, Sandá og vorum við ferjuð yfir.

"Hljóðlítið fljótið safnar enn í sig sopum úr ótal lænum áður en það fossar tignarlegt af stöllum Hrafnabjarga og nokkru neðar fram af hamraskrúði Aldeyjarfoss." (bls. 327, Hálendið í náttúru Íslands).

Það er gaman að ganga í gamla árfarvegi Skjálfandafljóts og finna fyrir pússuðu hrauninu og virða fyrir sér skessukatlana. Leiðin eftir gamla fljótsfarveginum er vel gróin við Stórutungu og mjög falleg. 

Það má ekki hrófla við fossunum, þeir eiga aðeins eftir að skapa tekjur fyrir komandi kynslóðir. Ég rifja oft upp þegar fyrstu hvalaskoðunarferðirnar voru farnar fyrir 22 árum, þá fóru 200 manns í ferð en í dag hefur talan þúsundfaldast!

Hrafnabjargafossar

Hrafnabjargafossar, margslungnir, minna á Goðafoss og fleiri fagra fossa.

Ingvararfossar

Kraftmiklir Ingvararfossar, frumgerð að Aldeyjarfossi eða Hjálparfossi í Þjórsá.

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss er myndrænn vegna samspils svarts basalts og hvíts vatns.

Dagsetning: 10. júlí 2015 
Göngutími: 330 mín (12:30 - 18:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  20 km 
Veður kl. 15 Mývatn: Alskýjað, NV 4 m/s,  7,2 °C. Raki 71%. 
Þátttakendur: Frænku-gönguhópur, 7 manns og trúss.
GSM samband:  Lélegt á köflum.

Gönguleiðalýsing: Gengið í hrauni eftir mögulegu miðlunarlóni, Fljótsdalnum og eftir vegaslóða.


Græn skref í ríkisrekstri

Þetta eru fimm græn skref fyrir okkur, en umhverfisvæn skref fyrir mannkynið....

Það var góður dagur í vinnunni í dag. Við hjá ÁTVR fengum viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að ná 5 grænum skrefum og tók það stuttum tíma.

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. Við tókum þetta í einu stökki enda búin að vinna heimavinnuna og fyrirmynd í samfélagslegri ábyrgð.
www.graenskref.is

Viðurkenning - 5 græn skref

Grænu skrefin 5 tekin í einu grænu stökki. Enda búið að vinna að samfélagslegri ábyrgð frá 2001.

Opinber fyrirtæki jafnt sem sveitarfélög og almenn fyrirtæki geta ekki annað en hagnast á því að innleiða umhverfisstjórnun inn í ferla fyrirtækisins. Sóun minnkar, þekking á sjálfbærni eykst og ákvarðanataka verður markvissari.  Því eru Græn skref í ríkisrekstri góður kostur.

Af hverju Græn skref?

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er nú 404 ppm en upphafi iðnbyltingar, en þá er hann talinn hafa verið um 280 ppm.
Til að eðlilegt líf þrífist á jörðinni er talið að styrkur CO2 þurfi að vera 350 ppm. Því þurfum við að taka okkur á.

Hitastig mun hækka um 2 til 4 gráður á Celsíus á næstu 100 árum
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúrulega ferla á jörðinni og því ber öllum skylda að bregðast gegn þessum breytingum.

Íslendingar eiga eitt hæsta sótspor í heimi. Íslendingar þurfa að gera ráðstafanir (handprint).
Endurvinnsla og gróðursetning trjáa er eitt svar. Einnig endurheimt votlendis og þróa nýja tækni.
Hætta að brenna jarðefnaeldsneyti í samgöngum og rafvæða bílaflotann.

Einnig markvisst átak í notkun á plasti og plastpokum. Plastið eyðist ekki upp og höfin eru að fyllast af plastögnum. Ólíkt lífrænum efnum „hverfur" plast aldrei í náttúrunni heldur safnast upp í umhverfinu, sérstaklega í höfunum.

Draga þarf losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá því sem losunin var árið 1990 ef ekki, þá fara hollensku leiðina og kæra stjórnvöld. En þeim var skipað að draga úr losun með dómi.

Óstöðugleiki í heiminum vex. Við erum að falla á tíma.

Jörðin hitnar, jöklarnir hverfa sjávarborð hækkar og höfin súrna.


Sláttur og spretta sumarið 2015

Enginn fyrsti sláttur í dag. Fyrir nákvæmlega ári síðan sló ég slátt #2 í garðinum. Svona er vorið búið að vera kalt.
Grenitrén fengu að kenna á djúpum lægðum í vetur. Halla líflaus til vesturs. Loftslagsbreytingar. Kaldur sjór.

Grassprettan í garðinumFlekkótt garðflötin eftir kaldan maí. Líflaus grenitrén snúa undan vindi.

Hér er yfirlit yfir slátt í Álfaheiði 11 fyrstu ár aldarinnar.  http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1168563/

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 105
  • Frá upphafi: 226414

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 99
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband