Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

75 frá hernámi Noregs

Nú eru liðin 75 ár síðan Þjóðverjar hernámu Noreg og Danmörku í heimsstyrjöldinni síðari.

Mér var hugsað til 10. apríl fyrir 75 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrir þrem árum. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.

Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl  1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður.  Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda flota með fimm herskipum til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.

Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis.  Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.

Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil.  En hún er mjög vel þekkt í Noregi.

Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi.  Stríð eru svo heimskuleg.  Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".

En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.

Oscarsborg

Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.

 


Kakóið í páskaegginu

Æ, nú skemmir maður kannski páskastemminguna. En maður kemst ekki hjá því að rifja upp hvaðan súkkulaðið kemur sem er í páskaegginu og hvernig það var framleitt.

Sá grein í The Guardian um slæmar aðstæður kakóbænda á Fílabeinsströndinni og Ghana en 60% af kakóbaunum heimsins koma þaðan. Þar er mikið byggt á vinnu barna, 1,5 milljón barna vinna við að koma vörunni á markað, annað orð yfir þessa vinnu er barnaþrælkun.

Dæmigerður kakóbóndi fær aðeins 6,6% af verði afurðarinnar í sinn hlut og vinnuaðstæður eru slæmar.

Verst er að heyra að ef aðeins 1% af 86 milljón dollara markaðskostnaði væri notað til að styrkja bændur þá myndu kjör þeirra bætast gífurlega.

Þrír risar eru á páskaeggjamarkaðnum íslenska, Nói-Síríus, Góa og Freyja. Aðeins eitt er með verkefni fyrir bændur en það er Nói-Síríus.Súkkulaði frá þeim er QPP framleitt. QPP (Quality partner program) gerir kakóræktendum kleift að rækta og framleiða kakóið á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Freyja og Góa gefa ekki upp neina vottun á sínum vefsíðum. Þau vinna ekki að samfélagslegri ábyrgð.

Vona að þið njótið páskanna en pælið í þessu og skrifið íslenskum páskaeggjaframleiðendum bréf og biðjið um stefnu þeirra um siðræna vottun í aðfangakeðjunni.

Ég naut betur páskaeggs #2 frá Nóa-Síríus þegar ég las um QPP verkefnið.

cocoa-beans

Kakóbaun sem súkkulaðið í páskaegginu er unnið úr.

Tenglar:

http://www.theguardian.com/business/2015/apr/04/cheap-chocolate-cocoa-farmers-africa-easter-eggs?CMP=fb_gu


Margnota burðapokar

Á göngu á föstudaginn langa rakst ég á þrjá fjúkandi burðapoka úr plasti. Skora á fólk að vera samfélagslega ábyrgt og virkja Plastpokalaus Laugardagur - Plastic Bag Free Saturdays átakið í dag.

Margnota burðapokar eru framtíðin.

Áætlað er að um 50 milljónir plastpoka falli til á ári hverju hér á landi. Það eru um 1.120 tonn af plasti. Langstærstur hluti þessara plastpoka fer í urðun með öðrum heimilisúrgangi en á urðunarstöðunum tekur niðurbrot pokanna nokkrar aldir, jafnvel þúsund ár.

Notkun einnota plastpoka veldur miklum umhverfisáhrifum því talsvert magn af plasti er hvorki endurunnið né fargað heldur berst til sjávar með regni, frárennsli og ám eða fýkur til hafs. Plastefni brotna þar niður í smærri einingar á mjög löngum tíma, en eyðast jafnvel aldrei að fullu. Plast safnast því upp í umhverfinu.

Plastið hefur mikil áhrif á allt lífríki því árlega drepst mikill fjöldi sjófugla og sjávarspendýra eftir að hafa étið plast, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Þá geta ýmis mengandi efni loðað við plastagnirnar, s.s. þrávirk lífræn efni.

 

Fjúkandi einnota plastpoki

Einnota plastpoki á leið í sjóinn.

Vínbúðirnar eru framarlega í flokki. Hér er tlinefning til Nýsköpunarverðlauna, Margnota burðapokar.


Kóngakrabbahátíð

Þær eru válegar fréttirnar um fyrsta kóngakrabbann sem veiddist á Breiðamerkurdýpi. Vonandi er krabbinn einfari en hann hefur slæm áhrif á lífríkið nái hann fótfestu.

Humarstofninn gæti tapað. Jafnvel hrunið.

Þessi heimsókn á ekki að koma á óvart. Mannfólkið mengar umhverfið. Íslendingar eiga stærsta kolefnisfótsporið. Loftslagsbreytingar, eru metnar sem ein mesta samfélagsógn 21. aldar.

Höfin eru að hitna og súrna. Heimshöfin taka við um fjórðungi allrar losunar manna á koltvísýring með þeim afleiðingum að þau súrna og áhyggjur fara vaxandi af því að hafið sé ferli sem muni leiða til alvarlegra og óafturkræfra áhrifa á vistkerfi og fæðukeðju heimshafanna, allt frá svifdýrum til fisks. 

Við skiptum ekki um kennitölu á sjónum. 

Verður  í framtíðinni haldin kóngakrabbahátíð á Hornafirði í stað humarhátíðar?

Kóngakrabbahátíð

Fyrsti kóngakrabbinn sem veiðist í íslenskri lögsögu.  Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni veiddi krabbann og myndin er fengin af facebook-síðu sjómanna.


Sjálfbærni og heilsufarsmælingar

Lærdómur ársins var að skilja GRI sjálfbærnivísana og sjálfbærni.  Við hjá ÁTVR vorum fyrsta Ríkisstofnunin sem gerði GRI sjálfbærniskýrslu.
 
Síðustu þrjú ár hefur verið boðið upp á heilsufarsmælingar hjá ÁTVR og árangur á heilsu starfmanna góður og á rekstur fyrirtækisins.  Mikil mælingahefð er í fyrirtækinu og stöðugleiki í rekstrinum. Því hefur verið gaman að fylgjast með ákveðnum vísum og hafa þeir bent í réttar áttir.
 
Fjarvistum hefur fækkað, starfsfólk er ánægt í vinnunni, viðskiptavinir eru ánægðir, mengun hefur minnkað, kolefnisfótsporið hefur minnkað, reksturinn er góður og það sem athyglisverðast er að  55 starfsmenn hafa farið úr of háum blóðþrýstingi í eðlilegan á tímabilinu.  Þeir hafa breytt um lífsstíl.  Heilsuræktarstyrkir og samgöngusamningar eiga þar drjúgan hlut að máli. Einnig hefur fræðsla um mataræði og markmiðssetningu hjálpað til.
 
Með breyttum lífsstíl er hægt að spara mikið fjármagn í heilbrigðiskerfinu. Heilsufarsmælingar eru mjög öflug forvörn. Öll fyrirtæki á Íslandi ættu að bjóða upp á heilsufarsmælingu og sýna þannig samfélagslega ábyrgð. Ekki veitir af. 
 
Hér er áramótamyndin, stóra myndin.
Heilsufarsmæling og sjálfbærni
 
Heilsufarsmælingar hjá ÁTVR hafa staðið yfir í þrjú ár og jákvæður árangur. Myndin sýnir Stóru myndina en þá tengjast GRI sjálfbærnivísarnir inn í sjálfbæru víddirnar þrjár. Fyrst eru stefnur skilgreindar. Síðan fer GRI vinnan af stað. Rauðu kassarnir eru heilsufarsmælingar, heilsuræktarstyrkir og samgöngusamningur. Það kemur hreyfingu á fólkið, dælir blóði um fyrirtækið. Niðurstaðan er jákvæð. Neikvæðir þættir minnka. Niðursaðan: Fyrirtækið þekkt fyrir góða þjónustu og samfélagslega ábyrgð.
 
Hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint sem: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“ 

Sjálfbær þróun er hugtak sem vísar til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og reynt að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta.
 
Gleðilegt sjálfbært nýtt ár! 
 
Tenglar:
Fyrirlestur hjá Umherfisstofnun:  Svannurinn - Reynslusaga innkaupaaðila
 
 
 

Hrakvirði

Mikið var gaman á landsleiknum í gær. Íslendingar voru vel klæddir í fánalitunum og studdu íslensku leikmennina á vellinum vel.  Annað eins hefur ekki sést í Laugardalnum. Svo mikil var stemmingin í Austur-stúkunnu að fólk stóð allan leikinn.

Við inngang að vellinum var boðið upp á húfur og trefla. Sérstakur trefill var hannaður út af leiknum mikilvæga. Íslensku litirnir voru á öðrum helmingnum og rauðir og hvítir, köflóttir litir Króatíu meginn. Dagsetning leiksins kom einnig fyrir. Svona til að minna eigandann á leikinn og vekja nostalgíu síðar meir.

Trefillinn kostaði kr. 3.000 á leikvellinum og var það heldur hátt verðlag. Við feðgar féllum ekki fyrir freistingunni.  En dauðlangaði í enn einn trefilinn.

 Stuðningstrefill

Þegar leiknum lauk sneri fólk heim á leið. Tæplega tíu þúsund manns í einni röð. Á fjölförnum leiðum voru sölumenn, erlendir, líklega Króatar og buðu trefla til kaups. Nú var verðið komið niður í tvö þúsund og við 98 metrum frá Laugardalsvelli.  Okkur dauðlangaði í enn einn trefilinn.

Við héldum áfram með straumnum. Fólk spjallaði um leikinn. Fannst dómarinn slakur.  Modric lítill en snöggur, rauða spjaldið harður dómur og Kristján í markinu góður.  Þegar við nálguðumst Suðurlandsbrautina var einn einn útlendingurinn hlaðinn treflum. En nú var verðið komið niður í eitt þúsund og við 313 metrum frá Laugardalsvellinum.  Eftirspurnin var ekki mikil.  En á rúmum 200 metrum hafði verðið lækkað mikið. Við feðgar vorum loks orðnir sáttir við verðið og keyptum einn trefil til minningar.

Þarna lærði Ari um hrakvirði.  Treflarnir verða verðlausir eftir leikinn.

Ekki voru fleiri erlendir sölumenn en trúlega hafa treflarnir verið framleiddir í Kína og klókir sölumenn tekið áhættuna.

En allt í einu kom upp í hugann Ragnheiður Elín Árnadóttir, af öllum mönum eftir þetta óvænta hrakvirðisnámskeið. Nú vill iðnaðar- og viðskiptaráðherra selja dýrmæta orku okkar á hrakvirði rétt eins og fyrri Ríkisstjórnir. Bara til að koma af stað einhverri bólu í kjördæminu og tryggja mögulegt endurkjör.  Til að selja fleiri eignir landsmanna á hrakvirði og láta flokksfélagana mata krókinn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, skrifaði ágætis grein um raforkusamninga og sá ég hann þegar heim var komið.  Dýrasti samningur Íslandssögunnar nefnist hún og er um raforkusamning við Alcoa.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fv. Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde er ekki að standa sig. Snurpar vel rekna Landsvirkjun.

Við þurfum góða ráðherra. Kjósendur bera ábyrgð.


Hvalaskoðun 1993

Hvalurinn – hvílíkt tákn! Hann er eina spendýrið sem rúmast ekki innan mannlegrar lögsögu – eina spendýrið sem við getum ekki haft í dýragarði. Hann er dýrið sem svamlar um heiminn eftir sínum risabrautum og hefur samskipti við frændur og frænkur með sínu heimullegu hljóðum og hann á ekki neitt undir mönnunum; hann er frjáls; hann er náttúran sem hefur gildi í sjálfri sér; hann er fagurt sköpunarverk, tröllaukinn leyndardómur, hann er fjarlægur og ræður því sjálfur hvenær hvernig hann birtist, og hann hlýtur að vita eitthvað sem við vitum ekki … [Guðmundur Andri Thorsson, 2006]

Nú berast fregnir að því að langreyður sem er í útrýmingarhættu og veiddur á Íslandi er notaður í gæludýrafóður í Japan. 

Aðgerðasinnar á vefsíðunni Avaaz.org eru að safna undirskriftum og þegar milljón verður náð ætla þeir að senda forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte listann og biðja um banna flutning hvalkjöts í gegnum hollenskar hafnir.

„Langreyðar eru töfrandi skepnur. En eftir nokkra daga mun yfir 180 af þessum skepnum í útrýmingarhættu verða slátrað af einum auðjöfri og félögum hans, sem eiga það sumaráhugamál að skutla þá, búta þá niður og að senda þá til Japans í gegnum Holland - til þess eins að búa til hundamat!“

Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 20 árum og sannaðist það sem ritað er hér í byrjun.

Fyrir 20 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.

Á síðasta ári fóru 175.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn. Svona geta hlutirnir breyst og vaxið hratt.

Hnúfubakar eru í útrýmingarhættu en stofninn hefur vaxið. Norður-Atlantshafsstofninn talinn vera á bilinu 12.000 til 14.000 dýr.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=194840&pageId=2615022&lang=is&q=Ari 

DV júlí 1993

Frétt í ferðablaði DV 21. júlí 1993.

Greinar á horn.is um hvalaskoðun frá Hornafirði

http://web.archive.org/web/20030826144551/http://horn.is/pistill.php?ID=60

http://web.archive.org/web/20030826144702/http://horn.is/pistill.php?ID=62


Fagradalsfjall (391 m)

Fagradalsfjall (391 m), vestasta fjallið í Reykjanesfjallgarðinum var heimsótt á baráttudegi verkalýðsins. Í fjallinu eru þrjú flugvélaflök frá seinni heimsstyrjöld. Markmiðið var að finna þau og minnast þess hversu vitlaus stríð eru.

Fagradalsfjall er fyrir norðaustan Grindavík. Það er fjalllendi með mörgum fjöllum af öllum stærðum og gerðum. Á kortum er það merkt mjög greinilega sem Fagradalsfjall en það fjall má telja sem kjarnann í þessu fjalllendi. Þau fjöll sem ganga út úr því bera einnig sín eigin nöfn.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu þar sem það rís hæst. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar. Hæsti hlutinn heitir Langhóll og gægist 40 metra yfir hásléttuna.

Á föstudaginn, 3. maí kl. 16.20 verða 70 ár síðan B24D sprengiflugvél fórst í fjallinu. Í henni var æðsti yfirmaður herafla Bandríkjanna í Evrópu, hershöfðinginn Frank M. Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Einn komst af.

Kastið í FagradalsfjalliKastið vestan við Fagradalsfjall. Þar hafnaði B-24D "Hot Stuff" sprengiflugvélin. Sandhóll lúrir á bakvið.


Því leikur Fagradalsfjall, þó lágreist sé, nokkra sögu í heimssögunni. Síðar tók Dwight D. Eisenhower við yfirmannsstöðunni. Stjórnaði aðgerðum í Normandy og varð í kjölfarið 34. forseti Bandaríkjanna.

Menn hafa velt því fyrir sér hvernig Kalda stríðið hefði litið út ef Andrews hefði lifað af heimsóknina til Íslands og Fagradalsfjall verið aðeins lægra. Hann var miklu mildari maður, ekki eins kaldur og Ike.

Því er viðeigandi að ganga á Fagradalsfjall á köldum baráttudeginum, fyrsta maí, og minnast í kuldanum hermanna 28 sem létust þar í hildarleiknum.

Ekki gekk okkur vel að finna flugvélaflökin þrjú.  En það mætti klárlega gera upplýsingaskilti á Suðurstrandarvegi fyrir framan fjallið sem segir þessa merkilegu sögu. Einnig gefa upp staðsetningarpunkta svo göngufólk geti fundið það sem eftir er af flökunum og rifjað upp atburði þessa og tilgangsleysi stríða.

Göngufólk getur fylgst með krafti náttúrunnar. Orðið vitni að því hvernig hún brytjar flökin niður í tímans tönn.

Útsýni yfir Reykjanesskagann er mjög gott af toppi Fagradalsfjalls, ofan af Langhól. Körfuboltabæirnir, Grindavík og Keflavík sjást vel ásamt minni þorpum.  Einnig sér til höfuðborgarinnar og austur til Eyjafjallajökuls.  Fjallaröðin, Keilir, Litlihrútur, Kistufell og Stórihrútur er glæsileg í návígi.

Dagsetning: 1. maí 2013
Hæð Fagradalsfjalls: 391 m
GPS hnit á Landmælingastöpli á toppi Fagradalsfjalls: (N:63.54.280 - W:22.16.379)
Hæð í göngubyrjun:  86 metrar (N:63.51.985 - W:22.19.162) við Suðurstrandarveg
Hækkun: 305 metrar         
Uppgöngutími: 154 mín (11:58 - 14:32) – 6 km loftlína, með leit að braki
Heildargöngutími: 320 mínútur (11:58 - 17:18)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  14 km
Veður kl. 15 Grindavík: NNA 7 m/s, 1,2 °C. Raki 44%
Veður kl. 12 Grindavík: NNA 8 m/s, 0,5 °C. Raki 47%
Þátttakendur: Rannsóknar- og friðarferð, 4 alls í föruneyti
GSM samband:  Já, en óstöðugt í dölum


Gönguleiðalýsing
: Lagt frá Suðurstrandarvegi með stefnu á Kastið (2,2 km). Leitað að flugvélarflaki B-24. Síðan haldið upp á hásléttuna með stefnu á toppinn um mosavaxið móberg. Þaðan haldið niður í Drykkjarsteinsdal með stefnu á Stórahrút. Mikill uppblástur.

Heimildir:
Illugi Jökulsson: http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Illuga_utlondum/breytti-fagradalsfjall-ekki-bara--gangi-seinni-heimsstyrjaldar-heldur-lika-kalda-stridsins
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=6506
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=4185
Grétar William: http://gretarwilliam.wordpress.com/2007/10/24/fagradalsfjall-21-oktober-fundum-tvo-flugvelaflok-af-thremur/
Keilir: http://www.keilir.net/is/keilir/frettir/minningarathofn-um-andrews-hershofdingja
Heimildarmynd um B-24 Liberator, Andrews og flugslysið á Fagradalsfjalli [YouTube]
Toppatrítl: http://www.toppatritl.org/ganga20020501.htm


Skipulag á Siglufirði

Þegar gengið er fyrir ofan snjóflóðagarðinn eftir slóðanum að Hvanneyrarskál þá sést bæjarskipulagið vel á Siglufirði og þá er augljóst að menn hafa hugsað fram í tímann.

Ég get tekið undir með Birni þegar hann segir að: "Siglufjörður er einn fárra bæja á Íslandi sem hafa raunverulegan miðbæjarkjarna. Göturnar liggja eftir Hvanneyri eftir reglustikumynstri og þeim hugmyndum sem sr. Bjarni Þorsteinsson setti fram."

Fyrir vikið er Siglufjörður fallegur bær og á stórmekilega sögu sem speglast í Síldarminjasafninu. Ég skil vel að Birni líki vel við Aðalgötu í Siglufirði. Þar var gott mannlíf í sumar.  Ágætir matsölustaðir, kaffihús, Sportvöruverslun og tískuverslun. Allur bragur bar vott um gamalt stórveldi.

Að sjá yfir Hvanneyrina minnti mig á borgina la Laguna á Tenerife en  hún var notuð sem módel af Kólumbusi fyrir margar borgir í Ameríku.

Skipulag á Siglufirði

Aðalgata frá fjöru til fjalla. Siglufjarðarkirkja (anno 1932) í öndvegi.  Snjóflóðavarnargarðar í forgrunni.


Strákagöng rufu einangrun Siglufjarðar en nú hafa Héðinsfjarðargöng opnað allt upp á gátt. Hér er stutt heimildarmynd um hjólaferðalag um 830 metra Strákagöng.
mbl.is Gatan mín: Aðalgata á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrafnabjargafoss og Ingvararfoss í Skjálfandafljóti

Í gær var frétt á Stöð 2 og henni fylgt eftir á visir.is um að Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismaður vilji verja Hrafnabjargarfoss.

Í byrjun ágúst 2004 heimsótti ég fossana í Skjálfandafljóti, þá Ingvararfoss og Hrafnabjargafoss. Einnig hina heimsþekktu fossa fljótsins mikla, Goðafoss og Aldeyjarfoss.  Þetta var fossadagurinn mikli.

Aðgengi að efri fossunum er ekki gott og átti Toyota RAV4 í mestu erfiðleikum með að komast að Hrafnabjargafossi. En komst þó eftir að hafa rekið pústið og gírkassa nokkrum sinnum niður með tilfallandi áhyggjum eiganda.

Ingvararfossar eru lítt þekktir en fallegir fossar rétt ofan við Aldeyjarfoss. Ingvararfossar minntu mig mjög mikið á Aldeyjarfoss enda ruglaðist ég á þeim í andartak. En ég kveikti á perunni, það vantaði svo marga stuðla.  Eflaust hefur skaparinn notað hann sem frumgerð að Aldeyjarfossi.

Ég man hvað það var gaman að ganga um gamlan farveg Skjálfandafljóts í meitluðu hrauninu að fossinum. En áin hefur breytt sér í tímans rás.  Þetta var mjög skemmtilegur og eftirminnilegur dagur. Tveir krakkar, 7 ára voru með og var minnsta mál að ganga með þau að Ingvararfossi frá bifreið.

Hér eru fossarnir óþekktu sem eru í hættu út af Hrafnabjargavirkjun.

 Hrafnabjargarfoss

Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti.  Virkjun kæmi við Hrafnabjörg í 404 metra hæð.

 Ingvararfoss

Ingvararfossar í Skjálfandafljóti. Minna á Aldeyjarfoss. Ekki eins stuðlaðir. Það fer lítið fyrir fossum þessum og ekki minnst á þá í umræðunni um Hrafnabjargavirkjun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 98
  • Frá upphafi: 226688

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 88
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband