Færsluflokkur: Dægurmál

Flugöryggismál

Það var mikið áfall að heyra fréttina um flóttamennina sem komust yfir öryggishliðið og læstu sig inn á klósetti flugvélar. Þetta atvik er mjög alvarlegur öryggisbrestur og svar ISAVIA sem er ábyrgt fyrir öryggismálum er ekki mjög traustvekjandi.

Þegar ég var í upplýsingaöryggismálum las ég helling af efni um öryggismál og fékk reglulega póst frá Bruce Schneier en hann er virtur ráðgjafi og fyrirlesari í öryggismálum. Ég get tekið undir margt af því sem hann hefur lagt til málanna.

Hann hefur deilt á tröllaukið öryggi á flugvöllum og telur hann að ávinningurinn af öryggisráðstöfunum svari ekki kostnaði. Hann hefur einnig verið duglegur að benda á vandamál sem eru "bakdyrameginn" á flugvöllum. Rétt eins og atvikið á Keflavíkurflugvelli.

Vonum að þetta atvik verið til þess að tekið verði til "bakdyrameginn" og öryggið eflist á Keflavíkurflugvelli, nóg er af kröfum á flugfarþega í dag.


Gæðastjórinn Václav Klaus

Þeir hafa skemmtilega hefð á Bjórsafninu í Pilsen í Tékklandi. En í þeirri borg var ljósi lagerbjórinn fundinn upp árið 1842 og hélt sigurför um heiminn. Lykilinn af velgengninni var öflugt gæðastarf hjá Pilsner bjórverksmiðjunni.

Hefðin er sú að skipta um gæðastjóra þegar nýr forseti tekur við embætti og er Václav Klaus nú gæðastjóri í Bjórsafninu. Hausinn er ávallt uppfærður við forsetaskipti.

Ekki hef ég séð Ólaf Ragnar Grímsson í neinu íslensku safni en einstaka sinnum á mynd.

Václav Klaus

Hér er Václav Klaus mættur til vinnu.


mbl.is Forsetar hittast í Tékklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir negldur

Niðurstaða Landsdóms kom mér ekki á óvart í landsdómsmálinu nr. 3/2011: Alþingi gegn Geir Hilmari Haarde. Ég var búinn að komast að þessari niðurstöðu eftir að hafa fylgst með aðalmeðferðinni. Til að komast að þessari niðurstöð notaði ég þekkingu mína á gæða- og öryggismálum.

Forsætisráðherran var dæmdur fyrir að látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kemur fram að samræmt verklag var ekki fyrir hendi í mörgum málum. Boðleiðir hafa verið óljósar og ábyrgð ekki skýr.

Niðurstaða Landsdóms tekur undir undir það. Stjórnsýslan hefur verið í molum. Það er ekkert sprenghlægilegt við það.

Ég er vottaður úttektarmaður (Lead Auditor) í ISO 27001 öryggisstaðlinum og í úttektum leitað að sönnunargögnum um að verklagi sé fylgt. Í máli Geirs fundust engin sönnunargögn um að ráðherrafundir hafi verið haldnir. Það má líkja því við kröfu í kafla - 7 Rýni stjórnenda á öryggisstjórnkerfinu, við getum kallað það ráðherraábyrgð.

Úttektarmenn meta það svo hvort frábrigðið sé meiriháttar (major nonconformity) eða minniháttar. Fáir stofnun á sig meiriháttar frábrigði, þá endurnýjast vottunarskírteini ekki. Því má segja að Geir og forsætisráðuneyti hans hafi sloppið með minniháttar frábrigði.

Ein mikilvægasta eign hvers fyrirtækis og stofnunar er traust og gott orðspor. Þetta er eign sem ekki fæst af sjálfu sér og auðvelt er að spilla.

Það er einn lærdómurinn af Landsdómsmálinu að stjórnsýslan á Íslandi er ekki nógu gegnsæ. Ef takast á að lagfæra það sem aflaga hefur farið þarf að skrá verklag og skýra boðleiðir og ábyrgð stjórnenda. Í ljósi stöðunnar er það beinlínis nauðsynlegt fyrir stofnanir að sinna öryggis- og gæðamálum af festu og sýna fram á fylgni við alþjóðlegar öryggis- og gæðakröfur.

Því má segja að Geir hafi verð negldur fyrir ógagða stjórnsýslu fyrri ára. Geir er ekki gert að taka út refsingu fyrir athæfið og er það eflaust næg refsing að lenda fyrir Landsdóm.


Árið kvatt með Kampavíni frá Gulu ekkjunni

Það er góð hefð að skála í freyðivíni um áramótin. Áramótin eru tími freyðivínanna. Gula ekkjan verður fyrir valinu í ár. 

Gula ekkjan

 

Sagan á bakvið kampavínið hefst í héraðinu Champagne  í Frakklandi árið 1772. Þá stofnaði Philippe Clicquot-Muiron, fyrirtækið sem með tímanum varð house of Veuve Clicquot. Sonur hans François Clicquot, giftist Barbe-Nicole Ponsardin árið 1798 og lést hann 1805. Því varð Madame Clicquot ekkja 27 ára gömul og stóð uppi með fyrirtæki sem var í bankastarfsemi, ullariðnaði og kampavínsframleiðslu.  Hún átti eftir að hafa mikil áhrif á síðasta þáttinn.

Þegar Napóleon stríðin geysuðu náðu vínin útbreiðslu í Evrópu og sérstaklega við hirðina í Rússlandi. Aðeins 7% af framleiðslu fyrirtækisins selt í Frakklandi, annað var selt á erlenda markaði. Þegar ekkjan lést 1866 var vörumerkið orðið heimsþekkt og sérstakega guli miðinn á flöskunni.  Því fékk vínið nafnið Gula ekkjan. En veuve er franska orðið yfir ekkju.

En  Barbe-Nicole Ponsardin var frumherji. Ekkjan fann upp nýja aðferð við að grugghreinsa kampavín. Hún og starfsmenn hennar hófu að stilla kampavínsflöskum í rekka þannig að hálsinn snéri niður. Þá þurfti annað slagið að hrista og snúa flöskunum í rekkunum, til þess að óhreinindin söfnuðust öll að tappanum. Flaskan var opnuð og það fyrsta sem þrýstingurinn losaði úr flöskunni var gruggið.  Þetta þýddi að mun minna fór til spillis en áður hafði gert. Fram að þessu hafði vínið verið geymt á flöskunum liggjandi á hliðinni og safnaðist botnfallið niður á hlið flöskunnar.  Þetta hafði það í för með sér að umhella þurfti öllu víninu og alltof mikið úr hverri flösku fór til spillis.  Nú var aðeins örlítið af víninu sem tapaðist og einungis þurfti að fylla smá viðbót á hverja flösku til að vera kominn með vöruna í söluhæft form. Þessi aðferð Ponsardin ekkjunnar fékk nafnið Méthode Champenoise.

Riddle rack

Það er allt annað að drekka Kampavín í lok ársins þegar maður þekkir söguna á bakvið drykkinn. Vín með sögu og persónuleika.  Viðing við drykkin eykst og þekking breyðist út. Þroskaðri vínmenning verður til.  Konur ættu hiklaust að hugsa til ekkjunnar við fyrsta sopa og hafa í huga boðskapinn fyrir 200 árum. 

Alvöru dömur áttu ekki að innbyrða neitt nema humarsalat og kampavín og kampavín á að vera eina áfengið sem gerir konur fallegri eftir neyslu þess.

Í Fréttatímanum segir um Veuve Clicquot Ponsardin Brut: Þurrt með mildum sítruskeimi sem sker í gegn en þó gott jafnvægi á tungunni milli beiskju og sætu. Þegar á líður kemur pera og meiri ávöxtur í gegn. Mjög gott Kampavín. Áfengisstyrkur, 12%. Fær drykkurinn 4 glös af 5 mögulegum í einkunn.

Heimildir:
Bar.is  Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 12. hluti, gula ekkjan
Facebook Gula ekkjan
Fréttatíminn Matur og vín
Vinbudin.is  Veuve Clicquot Ponsardin Brut
Wikipedia  Veuve_Clicquot

Busavígsla í Pentlinum

Þegar siglingar með fisk voru stundaðar af kappi til Hull og Grimsby heyrði maður margar sögur af "Pentlinum" og þeim mikla straum sem liggur um hafsvæðið norðan Skotlands við Orkneyjar. 

Nokkrar sögur gengu af því er skipið, yfirleitt í vondu veðri og alveg að verða olíulaust, gekk á fullum hraða áfram, 12 mílur en færðist aftur um tvær mílur á siglingartækjunum. En alltaf enduðu þessar sögur vel.

Ein hefð er þó haldin þegar sjómenn fara í gengum hinn fræga Pentil í fyrsta skiptið. En þar eru þeir busaðir.

Ég var togarasjómaður á Þórhalli Daníelssyni, SF-71 og seldum við  í Hull í nóvember 1985. Ekki sluppum við við busun en hún var meinlaus en skemmtileg.  Ég á enn til verðlaunin sem ég fékk eftir að hafa tekið við smá sjó úr Pentilnum. Ró og skinna í benslagarni. Geymi "Pentil-orðuna" hjá hinum verðlaunapeningum mínum. 

Þessi busavígsla er ekkert á við það  sem ungi sjóveiki drengurinn sem  lenti í „svona vægri busun“ hjá skipsfélögum sínum í fyrstu veiðiferð. Manni verður óglatt við að lesa niðurstöðu dómsins og skuggi fellur á hetjur hafsins.

Gott hjá stráknum og móður hans að kæra málið. Vonandi verður það til að vekja umræðu og aga sjómenn.
mbl.is Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni

Lifir hann sumarið af eða ekki?

Nú sér til Esjunnar. Nú er örlítill hvítur punktur efst í Gunnlaugsskarði og minnkar sífellt. Hann er eins og lítill hvítur títuprjónshaus í fjallinu. Næstu dagar skera úr um hvort hann hverfi alveg, síðasti skaflinn í suðurhlíðum Esjunnar.

Ég held að hann haldi velli. Spáð er úrkomu næstu daga og í næstu viku verður kalt í veðri. Kaldur júní hefur eflaust mikil áhrif á afkomu skaflsins. Sérlega kalt var norðausturlands.

Síðustu tíu ár hefur skaflinn horfið en fannir í Esjunni mæla lofthita. En Páll Bergþórsson hefur fylgst vel snjó í Esjunni. 

Sigurjón Einarsson flugmaður hefur fylgst  með fönnum í Gunnlaugsskarði og árið 2009 hvarf skaflinn 25. september en 15. júlí í fyrra.

Ég stefni að því að heimækja skaflinn á næstu dögum og ná af honum mynd.


ML85 golfmótið

Hin gömlu kynni gleymast ei,
enn glóir vín á skál.
Hin gömlu kynni gleymast ei
né gömul tryggðamál

Svo segir í skosku þjóðlagi.  Útskriftarárgangur 1985 árgangs Menntaskólans að Laugarvatni heldur árlega golfmót til að rifja upp hin gömlu kynni en núna eru nákvæmlega 30 ár síðan nemendur hittust í fyrsta skipti. Þátttaka er ekki mikil en mótið er stórskemmtilegt. Flest mótin hafa verið haldin á Ljósafossvelli í Grímsnesi en í ár varð Korpuvöllur fyrir valinu.

Einn sjötti hluti árgangsins skráði sig til leiks en menn búa víða um land og sumir hafa mikið að gera við aðra merkilega hluti. Auk þess eru ekki allir með áhuga á golfíþróttinni.

Úrslitin skipta ekki máli en verkfræðingurinn Guðlaugur Valgarð Þórarinsson náði að hala inn flesta punkta þegar mótið var gert upp og var því úrskurðaður sigurvegari. Stjórnmálafræðingurinn og auglýsingagúrúinn, Einar Örn Sigurdórsson og undirritaður voru jafnir en Einar Örn spilaði mun betur í bráðabana og uppskar silfur.

Einar Örn átti mörg stórgóð upphafshögg og náði góðu sambandi við sína Stóru Bertu. Guðlaugur var öruggur á öllum brautum og náði alltaf að krækja í punkta. 

Þetta var mjög skemmtilega stund í fallegu haustveðri og verður hittingurinn endurtekin að ári eða oftar.

Verdlaunabikar

Mynd frá mótinu árið 2010 á Ljósafossvelli.  Guðlaugur Valgarð Þórarinsson, Sigurpáll Ingibergsson og Einar Örn Sigurdórsson sem heldur á farandbikarnum.

 


Grímsvötn rjúka upp í vinsældum á Google

Það er hægt að nota Google-leitarvélina til að mæla vinsældir.  Ég hef fylgst með leitarniðurstöðum eftir að eldgos hófst í Grímsvötnum síðdegis, laugardaginn 21. maí.

         Grímsvotn        Eyjafjallajökull       Vatnajökull
22.maí137.000496.000543.000
23.maí164.0002.850.000544.000
23.maí2.140.0003.070.000562.000

 _52926594_012055667-1

Forsíður helstu vefmiðla Evrópu fjölluðu um tafir á flugi í dag og því ruku Grímsvötn upp í vinsældum, úr 164.000 leitarniðurstöðum í 2.140.000 á sólarhring sem er þrettánföldun!

Eyjafjallajökull rauk upp þegar gosið í Grímsvötnum hófst. Fólk hefur farið að rifja upp hremmingar á síðasta ári. Vatnajökull heldur sínu striki, tekur ekki á skrið.

Til leiðinda má geta þess að IceSave er með um 6.000.000 niðurstöður og eiga náttúruhamfarir lítið í þær manngerðu hamfarir.


mbl.is Um 500 flugferðir felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorrabjór

Ég sakna  Suttungasumbls þorrabjórs  frá Ölvisholti á þorranum í ár. Þeir hafa bætt bjórmenninguna hér á landi.

Í boði eru fjórar tegundir af þorrabjór á þorra.  Jökull þorrabjór, Kaldi þorrabjór og Egils þorrabjór og Þorrabjór frá Víking. en það er í fyrsta skipti frá árinu 1998/1999 sem þeir bjóða upp á vöruna.  Voru allir bjórarnir í 330 ml flöskum og blind smökkun.

Smökkunarmenn þorrabjórsins voru mjög ánægðir með gæði og breidd íslenska þorrabjórsins og voru stoltir yfir því að geta á góða kvöldstund með íslenskri bjórframleiðslu og þjóðlegum íslenskum mat.

Jökull þorrabjór er með mikilli karamellu og því er mikil jólastemming í bjórnum en mjöðurinn er bruggaður eftir þýskri bjórhefð. Var hann dekkstur bjóranna og greindu menn ristað maltbragðið vel. Vatnið úr Ljósufjöllum á Snæfellsnesi er vottað og innihaldið án rotvarnarefna.

Kaldi þorrabjór fer vel með ristað tékkneskt-malt, með ríkt langt og sterkt humlabragð og undir karamellu áhrifum. Hann er laus við rotvarnarefni. Fundu menn fyrir tékkneskum Saaz-humlaáhrifum. Tilvalið að taka með Stinnings-Kalda í leiðinni úr Vínbúðinni.

Víking þorrabjór er með frísklegri beiskju og ríkt humlabragð sem hentar vel með þorramat. Þeir eru með fjórar gerðir af byggi og hveitimalts ásamt blöndu af bæverskum, enskum og amerískum humlum.

Egils þorrabjór er hlutlausastur þorrabjóranna. Ölgerðarmenn taka ekki mikla áhættu. Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi.  Ágætis ímyndaruppbygging hjá Agli og styrkir sjálfsmyndina á Þorra.

Stemming fyrir árstíðabundnum nýjungum er mikil. Jólabjórinn rokseldist enda mikil gæði í íslenskum brugghúsum. Því ætti þorrabjór að ganga vel í landann á þorra. Ég mæli helzt með þorrabjórunum frá Kalda og Jökli. Víking er með athyglisverða humlasprengju en Egill tekur alltaf minnsta áhættu.

Markaðsdeildir bruggsmiðjanna mega bæta upplýsingaflæðið á heimasíðum sínum.

Allt hefur hækkað frá síðasta ári, nema launin. En hækkunin á þorrabjór er innan þolmarka.

Tegund

Styrkur

Flokkur

Verð

Hækkun

Lýsing

Egils þorrabjór

5,6%

Lager

339

6,2%

Ljósgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Blóm, ljóst korn, pipar.

Jökull þorrabjór

5,5%

Lager

352

1,4%

Rafbrúnn. Létt fylling, lítil freyðing, þurr, mildur, lítil beiskja. Rúgbrauð, karamella, baunir.

Kaldi þorrabjór

5,0%

Lager

349

8,4%

Rafgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Maltbrauð, karamella, hnetur.

Víking þorrabjór

5,1%

Lager

315

Nýr

Ljósgullinn. Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Malt, korn, grösugir humlar

 

Kaldi-ThorrabjorEgils-ThorrabjorVíking þorrabjórJökull þorrabjór


Hálfmánar

Það er ekkert betra en að borða hálfmána og horfa á almyrkva á tungli um leið. Stórmerkilegt, fullt tungla, stysti dagur ársins, vetrarsólstöður og almyrkvi.

Ég man eftir einni Tinnabókinni, Fangar í sólarhofinu, en þá bjargað Tinni sér og félögum á ævintýralegan hátt frá aftöku með því að frétta af sólmyrkva en það er önnur birtingamynd myrkva.

Nú er máninn kolsvartur og hálfmáninn búinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 101
  • Frá upphafi: 226375

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 89
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband