Skjaldbreið (1.060 m)

Hvernig er best að halda upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, 19 júní hátíðlegan, sumarsólstöður og jónsmessu? Jú heimsækja Skjaldbreið í miðnæturgöngu en samkvæmt íslenzkri þjóðsögu er sagt að Okið og Skjaldbreið séu brjóst ungrar risameyjar, sem varð að steini, þegar ættir trölla urðu aldauða í landinu.

Hópurinn var fjölmennur, um 100 manns og 2/3 hlutar konur. Svona á að halda upp á 19. júní!

Ég gekk á Skjaldbreið haustið 1981 á fjallgöngudegi í Menntaskólanum á Laugarvatni. Var búinn að vera veikur um haustið og þreklaus. Man hvað stallarnir voru margir á uppleiðinni, hélt alltaf að toppnum væri náð en þá tók næsti við. Margir nemendur sneru við en Haraldur Matthíasson, þjóðsagnarpersóna og fv. kennari við ML fór létt með að toppa.

Ég lærði helling í þessari ferð. Lærði aðeins að lesa landið. Ógnarskjöldurinn átti oft eftir að koma fyrir í náminu og jók gangan skilning á jarðfræði. Einnig ljóðin sem tengjast dyngjunni. Örnefni í nágrenni, Okið, Hlöðufell,Þórisjökull, Botnssúlur, Hvalfell, Hagavatn og fleiri festust í minni. Man einnig að línumenn voru að tengja raflínu úr Hrauneyjafossvirkjun yfir í Hvalfjörð. Sá þá hanga í möstrunum og „sprengja saman“ vír. Ógleymanlegur öræfadagur.

Dyngjan Skjaldbreið varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum, skömmu eftir að jökull hvarf úr Þingvalladældinni. Þetta sýnir C14-aldursgreining á koluðum gróðri í jarðvegssniði undir Miðfellshrauni við útfall Sogsins. Rúmmál fjallsins og hraunbreiðunnar í kring er um 17 km3, en talið er að fjallið allt hafi myndast í einu gosi. Í dyngjugosum kemur upp fremur lítið hraunmagn á tímaeiningu, aðeins um 5 til 10 rúmmetrar á sekúndu, svo það hefur tekið 50 til 100 ár að mynda þessa tignarlegu dyngju.

Í hvirfli Skjaldbreiðar er gígur, 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur. Hliðarhalli fjallsins er dæmigerður fyrir dyngjur, 7 gráður þar sem hann er mestur.

Vatnið í Þingvallavatni er að mestu komið frá Langjökli. Áður en Skjaldbreið myndaðist rann jökulvatn óhindrað út í vatnið, en þegar fjallið myndaðist lokaði hraunið vatnið af og hindraði streymi jökulvatns ofanjarðar. Nú rennur jökulvatnið neðanjarðar, síast í Skjaldbreiðarhrauni og stígur upp blátært um sprungur í Vellankötlu úr norðanverðu Þingvallavatni. Vatnið er um 20 til 30 ár á leið frá Langjökli í gegnum jarðlögin og inn í Þingvallavatn.

Skjaldbreið af línuvegi

Skjaldbreið í öllu sínu veldi hulin hvítu skýi og sjást efstu 300 metrarnir ekki. Umkringt í norðri tröllslegum raflínum frá Hrauneyjafossi og Sultartanga og liggja niður í Hvalfjörð.

Lagt var af stað í ferðina frá Mörkinni kl. 19.00 og komið við á Þingvöllum. Þar var farið yfir konur og áhrif Skjaldbreiðs á líf Jónasar Hallgrímssonar, náttúrufræðings og skálds. Síðan var keyrð Uxahryggjaleið og beygt inn Skjaldbreiðarveg, F338, línuveg að Haukadalsheiði og keyrt eins langt og rútur komust en fínn sandur og snjóflákar stoppuðu göngumenn við Tröllsháls. Yfirleitt er lagt í Skjaldbreið að norðan frá gíghólnum Hrauk sem er í 605 metra hæð. 

Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Komið að vörðu við gíginn um miðnætti. Ekki létti til. Þoka, kuldi og vindur skemmdi jónsmessustemminguna. Ekki tókst að baða sig í miðnætursólinni með stórfenglegt útsýni í allar áttir. Erfið færð síðustu 300 hæðarmetrana og var ég örþreyttur en gangan niður var létt.

Miðnætursólsetur

 

 

 

Gengið í snjófláka. Það sér móta fyrir Baulu í sólroðanum. Fanntófell, Oköxl og Kaldidalur handan.

Dagsetning: 19. júní 2015 
Hæð Skjaldbreiðar: 1.060 m 
GPS hnit varða við gíg: (N:64.24.495 - W:20.45.300)
Hæð í göngubyrjun:  459 metrar (N:64.26.433 - W:20.50.339) hjá Tröllháls.
Hækkun: 600 metrar         
Uppgöngutími: 170 mín (21:10 - 00:06) – 5,6 km ganga.
Heildargöngutími: 265 mínútur (21:10 - 01:35)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  11,2 km 
Skref: 16.000
Brennsla: 2.326 kaloríur upp og svipað niður.
Veður kl. 24 Þingvellir: Alskýjað, SV 1 m/s,  7,5 °C. Raki 93%. 
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 100 manns með fararstjórum, 2/3 hlutar konur.
GSM samband:  Ágætt í hlíðum en ekkert á toppi.

Gönguleiðalýsing: Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Annars sandborið hraun og misháir hraunrimar.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá jónsmessuför á Skjaldbreið.

Heimildir
Ferðafélag Íslands, göngulýsing
Gönguleið á 151 tind, bls. 238-239.
Perlur Íslands,  bls. 398-399.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 103
  • Frá upphafi: 226398

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 95
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband