Færsluflokkur: Dægurmál

Ár frá Náttúrutónleikunum í Laugardal

Í dag er slétt ár síðan eftirminnilegir stórtónleikar með Sigur Rós og Björk voru haldnir í Laugardalnum. Voru þeir haldnir undir heitinu Náttúra. Vefsvæði þeirra er nattura.info. Yfir 30.000 manns mættu í dalinn og milljónir fylgdust með á  Netinu. 

Ég setti saman stutt myndband við lagið Glósóli með Sigur Rós. Á einu ári höfðu 12,437 manns horft á myndbandið á Youtube. Áhorfið var mest í  kjölfar útitónleikanna. Margar athugasemdir hafa verið skráðar og nokkrir póstar komið til mín. M.a. náði ég að mæla meistaraverkinu Heima með Sigur Rós við aðdáanda í Mexíkó. Hann keypti eintak og var ánægður með mynddiskinn þó dýr væri. Það hefur margt breyst á þessu eina ári. Þarna mátti sjá Birgittu Jónsdóttur með fána Tíbets. Nú er hún komin á þing í gegnum Búsáhaldabyltinguna. Heimildarmyndin Draumalandið sýnd við góða aðsókn í kvikmyndahúsum og vakið miklar umræður. Skelfilegt bankahrun sem kallar á nýjar lausnir og vonandi verður það ekki á kostnað náttúrunnar.


Vinur Vatnajökuls

Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls.   Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.

Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum.  Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.

Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll  eftir þá frásögn.

Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.

Hrutfjallstind13

Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.


Fyrsti slátturinn

Vorið er á áætluni í Álfaheiðinni í ár.

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var árdegis, tæpri viku á eftir fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá átta sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur. Aspirnar eru fallnar og aðeins sér í rætur þeirra. Þær verða fjarlægðar á næsta ári. En ræturnar voru orðnar full fyrirferðamiklar á lóðinni.

Flesjan er frekar missprottin og ágætis vöxtur á vestari grasbalanum inni í húsasundinu og gaf hann af sér nokkra hestburði og kalblettir eru fáir. Sprettan var mikil á austurtúnunum. Aspirnar fallnar og grasið nýtur sín. Margir túnfíflar sáust. Voru þeir skornir. Hafa þeir ekki sést síðan.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. Þessar tölur segja að vorið í ár var ekki eins hagstætt gróðri.
2008    15. maí
2007    26. maí
2006    20. maí
2005    15. maí
2004    16. maí
2003    20. maí
2002    26. maí
2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið kaldara en síðasta ár.  Einnig blautara því meira er um fífla.


Gömlu gildin í morgunverði

Á vinnustað mínum hefur sú hefð myndast hefð að einn starfsmaður heldur morgunmat fyrir aðra starfsmenn á föstudagsmorgnum. Það er búin að vera skemmtileg þróun í morgunverðnum. Sumir eru duglegir að baka tertur og leggja mikið á sig. Uppistaðan er samt rúnstykki. Í morgun var röðin komin að mér. 

Ég ákvað að snúa klukkunni til baka, horfa 18 ár aftur í tímann. Rifja upp gömlu gildin áður en nýfrjálshyggjan náði tökum á okkur.  Ég mætti með hafragraut, lýsi og síld. Með þessu hafði ég rúnstykki og ost. Einnig var boðið upp á rækju- og túnfisksalat.  Allt er er þetta meinholt nema salötin.  Vinnufélögum fannst ég frumlegur að koma með þennan gildishlaðna morgunmat.

Hluti af vinnufélögunum tekur inn lýsi en hafragrauturinn er ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim. Ég er eini síldarspekúlantinn.


44

Fjörutíuogfjórir, 44, eru náttúruleg tala og tekur við af tölunni 43 og er undanfari tölunnar 45. Fyrir mig táknar talan að ég er orðinn 44 ára gamall í dag. Þetta er falleg tala, slétt og auðveld að muna. Hún segir að ég er búinn að ferðast 44 skemmtilega hringi í kringum sólina. Upplifa 528 mánaðarmót.

Í rómverskum tölum er aldurinn táknaður: XLIV, í tvíundartölum: 101100 og Hex:  2C 16

Fjörutíuogfjórir er tribonacci tala, hamingju tala og áttflata tala. Frumefnið Ruthenium, Ru, hefur sætistöluna flottu en rúþen notað í málmblendi er harður og stökkur málmur. Frumþáttun:  2^2 \cdot 11

Talan 44 er einnig:
- Skráningarnúmer á veiði- og hvalaskoðunarskipinu Sigurði Ólafssyni, SF-44 frá Hornafirði.
- Landskóði í símanúmerum til UK
- Slóði, US Route 44, hraðbraut milli New York og Massachusetts
- Pókerafbrigði
- Barack Obama er 44. forseti Bandaríkjanna

Lóan er komin

Frábærar fréttir frá Hornafirði, lóan er komin. Það heyrðist í henni í morgunn á vorjafndægri. Hornafjörður er útvörður vorsins.

Eldur í skrifstofuhúsinu

Vinnudagurinn tók óvænta stefnu um kl. 16.00 í dag. Reyk lagði ofan af þaki Síðumúla 34, hvar ég vinn. Stiki ehf. er staðsettur á annari hæði. Við vissum af framkvæmdum á þaki hússins. Farmur af tjörupappa hafði farið upp fyrir helgi og gámafylli af tjöru fyrir neðan gluggann. Lítil rifa var á glugga í vinnurúmi okkar. Við lokuðum honum. Reykurinn jókst og fólkið úti á götu hegðaði sér skringilega. Það benti upp á þak og tók myndir á farsíma sína. Það var kviknað í efstu hæðinni, þeirri fimmtu.

Við brugðumst hárrétt við, allir yfirgáfu húsið. Það mátti greina brunalykt. Þetta var óraunverulegt. Slökkvuliðið var mætt á staðinn. Eldurinn magnaðist og svo kvað við sprening. Það var óhuggulegt. Gaskútar höfðu sprungið. Svæðið var rýmt niður að Grensásveg í kjölfarið. Slökkviliðið náði fljótt tökum á eldinum.

Tveir fulltrúar frá Stika fengu að fara inn og kanna húsnæði. Aðkoman var nokkuð góð miðað við aðstæður. Netþjónar voru teknir niður ef rafmagn yrði tekið af. Allt unnið samkvæmt áætlun um rekstrarsamfellu.

Það sem stendur uppúr er að fólk vill upplýsingar. Við notum nú farsíma og msn til að skiptast á upplýsingum. Til stóð að flytja um næstu helgi, kanski hefjast þeir á morgun.

En allt fór vel, enginn slasaðist og það er fyrir öllu.


Stóri bróðir facebook

Hér er nokkuð merkilegt myndband, sérstaklega parturinn þar sem talað er um hvað fólk samþykkir að samfélagsvefurinn facebook geri við upplýsingarnar sem það setur inn.  Og sér í lagi eftir frétt af því að stór meirihluti þjóðarinnar sé á facebook.

http://www.wimp.com/badinfo/

En ef þú ert á fésbókinni, gefðu sem minnstar upplýsingar um þig.


Hóllinn og Paradísarhola

hafsbotninn.jpgÞetta minnir mig á fróðlegt fræðsluerindi sem ég fór á árið 2003. Það var var stórkostlegt að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur hjá Raunvísindastofnun háskólans og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnun, kynna niðurstöður úr rannsóknum á landgrunni Norðurlands, "Hafsbotninn á Tjörnesbeltinu".  Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá Ísöld og rákir eftir botnvörpur togara. Á þessari mynd má sjá þekkt fiskimið Grímseyinga, Hólinn og Paradísarholu.

Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum. 


mbl.is Hafsbotninn bætist við Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yes We Can day

Hann er sögulegur dagurinn í dag.  Í Bandaríkjunum verður hans minnst sem Yes We Can day dagsins er Obama tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Á Íslandi verður  hans minnst sem kröftugs mótmæladags er Alþingi var sett.

Ég held að það verði breytingar á Íslandi. Já, við getum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 104
  • Frá upphafi: 226736

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 92
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband