Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Lágafell í Mosfellsbæ (123 m)

Þegar landslagsarkitektinn skapaði fellin í Mosfellsbæ ákvað hann að hafa eitt lítið og nett fell til að skapa andstæður í landslaginu. Hefur það lága fell fengið nafnið Lágafell.

Lágafell á nokkra sögu. Þar stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) síðustu æviár sín og stendur hús hans enn.

Einnig var mikil fjöldi hermanna sem bjó í bröggum við rætur Lágafells. Öll ummerki eru horfin en hægt er að finna ummerki eftir loftvarnarvirki stríðsáranna.

Fellin sjö í Mosfellsbæ eru: Helgafell, Mosfell, Reykjafell, Úlfarsfell, Æsustaðafjall, Grímarsfell og Lágafell. Það er því hægt að setja sér markmið, ganga á öll fellin á ákveðnum tíma.

Ganga á Lágafell er því ekki mikil þolraun og rakin fjölskylduganga. Einfaldast er að keyra að Lágafellskirkju og ganga þaðan. Þegar upp á fyrstu hæð er komið, sést að fellið er  með þrjá hóla. Á miðhólnum er varða og hæsti punktur, 123 metrar.

Útsýni er fínt yfir Mosfellsbæ og höfuðborgina. Einnig sjást hin Mosfellsbæjarfellin vel og nágranninn Esjan í norðri. Allt Snæfellsnesið sást og snjólítill Snæfellsjökull í vestri.

Annað Lágafell (539 m) er til hér á landi og er það norðanaustan við Ármannsfell í  Bláskógabyggð.

Dagsetning: 9. ágúst 2011
Hæð Lágafellsvörðu: 123 metrar
Hæð í göngubyrjun:  88 metrar, Lágafellskirkja, (N:64.09.730 - W:21.42.654)
Hækkun: Um 53 metrar          
Uppgöngutími varða:   10 mín (16:50 - 17:00)
Heildargöngutími: 20 mínútur  (16:50 - 17:10)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða:   N:64.09.783 - W:21.42.321
Vegalengd:  um 2 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Heiðskýrt, A 3 m/s, 14,2 gráður. Raki 65%, skyggni 70 km
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 þátttakendur   
GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Gengið frá bílastæðinu við Lágafellskirkju, beint í norður upp á hæð. Þaðan er flott útsýni yfir Mosfellsbæ. Síðan stutt ganga að vörðu í austurátt. Tilvalið að verðlauna göngumenn með ferð í Mosfellsbakarí á eftir.

Lágafell

Göngumenn,  Jóhanna Marína, Særún og Ari á toppi Lágafells í Mosfellsbæ. Í bakgrunni má sjá byggðina í Mosfellsbæ, síðan fellin, Helgafell, Grímannsfell, Æsustaðafjall og Reykjafell.

Heimildir:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=795874
http://www.ferlir.is/?id=8158


Nikulásarmótið á Ólafsfirði

Stórskemmtilegt Nikulásarmót, það 21. í röðinni var haldið á Ólafsfirði um helgina. Keppt er í 5., 6. og 7. flokki.
 
HK sendi tvö lið yngstu flokkana. En alls kepptu 62 lið frá 14 félögum og keppendur voru um 500.
 
NikulasÁ föstudag, eftir glæsilega skrúðgöngu og setningarathöfn var A og B liðum í 7. flokk blandað saman í þrjá riðla og komust tvö efstu lið áfram í A-liða keppnina. Hin kepptu í B-keppni.
HK-ingum gekk vel að tryggja sig áfram, unnu alla þrjá leikina og markatalan mjög hagstæð, 20-0.
 
Á laugardeginum voru leiknir fjórir leikir:
HK - KF    7-0
HK-  Fjarðabyggð 6-2
HK - KA     5-1
 
Svo rann úrslitaleikurinn upp við Þór en góður 3-0 sigur hafði unnist gegn þeim daginn áður.  Norðanvindur hafði læðst inn fjörðinn er leikurinn hófst. Þórsarar voru lágvaxnari en Kópavogsdrengir en hlupu þindarlaust út um allan völl. Minnti leikaðferð og vinnusemi þeirra á japönsku heimsmeistarana. Ávallt voru komnir tveir Þórsarar í leikmenn HK til að trufla spilið. HK náði ekki að nýta sér meðvindinn í fyrri hálfleik en boltinn fór nokkuð oft úr leik en leiktími var 2 x 10 mínútur.  Í síðari hálfleik var mikil barátta en skyndilega opnaðist traust HK vörn og Þórsarar náðu að skora. Ekki náðist að jafna leika.  Eini möguleiki HK-inga á sigri í mótinu var að klára sinn leik á sunnudag við Dalvík og vona að nágrannar Þórs, KA næðu að stríða þeim. Gekk það ekki eftir.  Jafntefli hefði dugað HK til sigurs í mótinu og til að verja titilinn frá síðasta ári.
 
Á sunnudag var hörku leikur við Dalvíkinga og var uppskeran 2-1 sigur.   Síðan var haldið í gengum Héðinsfjarðargöng norður á Siglufjörð og sigldi einn pabbinn með liðsmenn í Zodiak-bát í Siglufjarðarhöfn. Höfðu drengirnir mjög gaman af sjóferð þeirri.  Liðsmenn 7. flokks leigðu íbúð á Ólafsfirði og gistu flestir þar en boðið var upp á gistiaðstöðu á nokkrum stöðum. Var allt skipulag á mótinu og móttökur Ólafsfirðinga til mikilla fyrirmyndar. Flott dagskrá yfir helgina með tveim kvöldvökum.
 
Uppskeran í sumar hefur verið góð hjá drengjaliði HK í 7. flokki.
Liðið vann sinn riðil í Faxaflóamóinu og öflugu VÍS-móti Þróttar.  Þriðja sætið á Skagamóti og nú silfur á Nikulásarmóti.
Þessi árangur á ekki að koma á óvart. Þegar mikill áhugi, vel er æft, góðir þjálfarar, góðir stuðningsmenn, góð stórn  og góð aðstaða, en börn og unglingar í Kópavogi búa við bestu æfingaaðstöðu norðan Alpafjalla.  Þá hlýtur útkoman að vera jákvæð.
 
Strákarnir í 6. flokki stóðu sig einnig vel en þeir voru flestir á yngra ári unnu alla leikina í A-úrslitakeppni nema einn, við Þór, og lönduðu silfrinu.
 
En úrslitin eru ekki allt, það er stórskemmtilegt að fylgjast með drengjunum þroskast í góðum leik og hafa foreldrar náð vel saman.   
 
Kíkjum á eina facebook-stöðu:
"Komin heim af Nikulásarmótinu - flottir HK strákar og skemmtilegir foreldrar :)"
 
 
Heimasíða mótsins:  www.nikulasarmot.is
 
Nikulas2011
 
Efri röð: Ívar Orri Gissurarson, Ólafur Örn Ásgeirsson, Ari Sigurpálsson, Sigurður Heiðar Guðjónsson
Neðri röð: Reynir Örn Guðmundsson, Konráð Elí Kjartansson, Marvin Jónasson, Felix Már Kjartansson

Hengill (803 m)

Hengill kominn í fjallasafnið. Fjallið er (803 m) móbergs- og grágrýtisfjall. Fór með hörku göngugengi, Dóru systur, Dóra, Mána og Guðmundi óhefðbundna vetrarleið á Vörðu-Skeggja frá Dyradal og inn eftir Skeggjadal. Við vorum klukkutíma upp og hlupum á hælnum beint niður. Ævintýraferð í ágætis veðri. Gott skyggni en vindur í bakið á uppleið.

Meðal sérkenna þessa svæðis eru óvenjulegir aflokaðir og stundum afrennslislausir dalir sem eru rennisléttir í botninn; - svona eru t.d. Innstidalur, Marardalur, Dyradalur og Sporhelludalur. Þeir eru taldir vera myndaðir milli móbergsfjalla, eiginlega stíflaðir uppi, en hafa fyllst í botninn af seti. Í Marardal voru naut geymd fyrrum með því að hlaða fyrir þröngt einstigi sem er eina færa leiðin inn í dalinn.

Útsýni af Heglinum var ágætt. Tignalegur Eyjafjallajökull í austri, Tindfjallajökull og fannhvít Hekla. Síðan kom Þingvallafjallgarðurinn með sínum frægu fjöllum, fellum, tindum og súlum. Augað endaði á Esjunni en á bakvið sást drifhvít Skarðsheiðin. 

Það var athyglisvert að sjá eyjarar í Þingvallavatni, Nesey og Sandey, voru í beinu framhaldi af dölunum sem nefndir eru hér fyrir ofan. Þær eru líklega á sprungu sem liggur í norðaustur.

Mynd tekin í Skeggjadal sem sýnir leiðna upp. Rætur fjallsins eru í 400 metra hæð og hækkun svipuð.

Hengill


Helgafell (340 m)

Það var fallegur dagur í dag.  Fyrir nokkru var búið að ákveða gönguferð á Esju en hún var blásin af. Í staðin ákvað fjölskyldan að halda á Helgafell (340 m) við Kaldárbotna.  Eftir að pönnukökur höfðu verið bakaðar var haldið í fellagönguna. 

Það var lítilsháttar snjór í Helgafelli en hraunin í kring marauð. Ari litli var duglegur að ganga upp fellið með göngustafina og fór ótroðnar slóðir. Oftast beint af augum, erfiðustu leið.  Á leiðinni upp var falleg birta. Snjór litaði móbergið hvítt í fellinu, svört hraun og falleg birta yfir borginni en kólgubakkar nálguðust. Nágrannafellin, Húsfell og Valahnúkar skáru sig úr og fylgdust með uppgöngunni. Mægðurnar Særún og Jóhanna Marína voru aðeins á undan okkur strákunum á toppinn. Mikil umferð göngufólks var á fellið.  Skemmtileg gönguferð sem tók 2 tíma og 17 mínútur.

Þegar toppinn var komið voru nöfn skráð í nýja gestabók og nýbakaðar pönnukökur snæddar. Ari var ekki sáttur við að fá kaldar pönnukökur og mótmælti því með að fara í hungurverkfall.

Við komum að bílnum við víggirta Kaldárbotna, vatnsból Hafnfirðinga, tuttugu mínútum fyrir fimm, en skömmu síðar skoruðu Arsenal sigurmarkið gegn Bolton. Ari taldi að hann hefði sent afgangsorkuna yfir hafið. "Hjúkk, að ég komst", mælti sá stutti.

Helgafell, Særún, Hanna og Ari


Blysför 2007

 

Fjölmenn blysför FÍ og Útvistar var í gær. Við skelltum okkur með á tæplega fjögurhundruð göngugörpum á öllum aldri. Gangan hófst frá Nauthóli kl. 17.15 og var gengið í gengum skóginn í Öskjuhlíðinni að Perlunni þar sem flugeldasýning Landsbjargar hófst kl. 18. Tveir jólasveinar, skyrgámur og pottasleikir fundust í skóginum og brugðu á leik, ungviðinu til ómældrar ánægju. Það var fjölmennt í blysförina sem var í logningu á undan storminum sem kom í nótt.  

Flugeldasýningin hjá Landsbjörg var glæsileg og hávaðinn var mikill. Líklega hefur bergmálið í vatnstönkum magnað tóninn.  Hér er hálfrar mínútu myndband sem sýnir herlegheitin.

Blysganga


Fjölnismót, 6. flokkur

Stór hluti af helginni fór í handboltamót hjá Fjölni, 6. flokkur kvenna. Leikið var í íþróttahúsi Rimaskóla.  Það voru leiknir 5 leikir yfir daginn.  HK mætti með  tvö líð, HK Digranesi og HK Lind. 

Hjartað sló með HK Digranesi enda Særún min í því liði.  Þeim gekk bærilega. Eyjastúlkur voru yfirburðalið og gaman að sjá hvað vel er staðið að málum á Eyjunni. ÍR var einnig með mjög sterkt lið. Fram og Fylkir skoruðu aðeins færri mörk en þau lið.

HK

Farið yfir málin í hálfleik. ÍBV liðið búið að ná góðu forskoti og nú varð að stöðva lekann.

HK-HK

 

 Leikkerfi í smíðum. Í 6. flokki er spilað í 2x10 mínútur og línumaður kominn í spilið. 

 

 


Pabbi, leikurinn fór sex-sex

Ari litli var að koma af annari fótboltaæfingu sinni hjá 8. flokki Breiðabiks.

Þegar hann stakk litla ljósa kollinum inn um útidyrnar var það fyrsta sem heyrðist:

"Pabbi, leikurinn fór sex, sex"

Það er mikið skorað á æfingunum og markmiðið um að börnunum líði vel og séu ánægð að lokinni æfingu hafa greinilega náðst.

Ari kom með blað heim í kvöld.  Ég spurði hann hvort hann væri strax kominn með samning!

Nei, þetta voru æfingagjöldin. 


Jón Óskarsson (1939-2007)

Í dag var borinn til grafar í Keflavíkurkirkju góður félagi frá togarárum af Þórhalli Dan, Jón Óskarsson. Jón var mikið ljúfmenni og geðgóður. Ávallt stutt í brosið og kíminn hláturinn. Það er frábær eiginleiki hjá togarasjómanni. Það skapaðast því ávallt góður andi á vaktinni með honum. Á frívöktum var stundum tekið í rúbertubrids, hann hafði skemmtilega spilatakta.  Þegar ég fregnaði af andláti Jóns í vikunni leitaði hugurinn aftur í tímann á sjóinn. Fór ég í myndasafn mitt og fann mynd af kappanum  við að taka inn bakstroffuna sem tengir saman hlera og troll á skuttogaranum Þórhalli fyrir rúmum 20 árum. Það er akkúrat sú mynd sem geymd var í huga mér. Náttúrubarnið Jón í brúnu úlpunni.

Blessuð sé minning Jóns Óskarssonar.

JonOskarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jón að taka inn stjórnborðs bakstroffuna á Þórhalli Daníelssyni, SF-71.

 


Geitungsbit

Særún litla kallaði á hjálp, það var geitungur í herberginu hennar. Hann var skríðandi utaná himnasænginni sem hangir fyrir ofan rúmið en prinsessur hafa svoleiðis til að verja sig, m.a. fyrir geitungum.

Það hefur verið nokkuð um geitunga í íbúðinni í sumar og hef ég fjarlægt marga og skil ekkert af hverju fólk óttast þessar litlu pöddur. Ég hef því gert flugu mein ef geitungar teljast til flugna.

Ég var fljótur að finna gestinn óboðna. Náði að vefja hvítu efninu í himnasænginni um hann og þrýsti varlega. Ég taldi að hann væri allur eftir þrýstimeðferðina. Það varð að ganga vel um himnasængina. Næsta skref var að fjarlægja gestinn. Fingrum var beint í átt að öðrum vængnum. Þannig hefur reynst fljótlegast að taka upp og losa við búkinn. Oftast fer hann í ruslið eða í klósettið. Stundum út um gluggann þaðan sem hann kom.  En sá stutti var nú ekki alveg búinn að gefast upp. Þegar vísifingur nálgaðist miðaði hann vopnum sínum beint á kjúkuna og skaut eitruðum broddi sínum á skotmarkið. Mikið svakalega var þetta sárt. Ég sá smá flís standa fram úr vísifingri og verkurinn sem fylgdi  var óskaplegur. Það var eins og langur fleygur væri rekinn langt inn í puttann.

Ég stökk gólandi fram og fékk aðstoð við að ná geitungsbroddinum úr fingrinum. Verkurinn var mikill og stöðugur út um alla kjúku. Hann bólgnaði stax upp og það kom sláttur. Sett var spritt og síðan kalt vatn á fingur. Særða puttanum var síðan beint upp í loft á milli þess sem köldi vatni var dælt á hann.  Síðan var farið á netið, notaðir níu fingur og leitað á doktor.is að leitarorðinu geitungar. Þar kom fram:


  • Hver eru einkenni skordýrabits?
Stungan/bitið er rautt, bólgið, í því er kláði og jafnvel verkir. Þetta eru algengustu einkennin. Verið á varðbergi, því að bit getur framkallað ofnæmi. Ef útbrot og bólga eykst í stað þess að hjaðna, skal leita læknis. Leitið strax læknisaðstoðar ef fram koma eftirfarandi einkenni eftir skordýrabit eða stungu:

  • sótthiti
  • versnandi útbrot og bólga
  • höfuðverkur
  • svimi
  • ógleði
  • verkir í brjóstholi
  • þrengsli í barka eða brjóstholi
  • öndunarörðugleikar.

Þetta getur bent til ofnæmis sem getur verið lífshættulegt. Leitið því læknis umsvifalaust.


  • Hvaða ráð eru við skordýrabiti og stungum?

  • Fyrst skal fjarlægja broddinn. Hægt er að klóra hann af með nögl, nota greiðslukort, hnífsblað eða flísatöng. Ekki má þrýsta broddinum út þar eð það þrýstir eitrinu enn lengra inn í húðina.
  • Ef viðkomandi á eitursugu skal nota hana til að sjúga eitrið út úr stungunni. Eitursuga fæst í apótekinu. Hún er einna líkust sprautu, nema hvað hún virka í hina áttina. Eitursugan er sett yfir bitið og eitrið dregið upp í suguna. Ef ekki er til eitursuga á heimilinu er ráðlegt að kaupa slíka svo að hún sé til taks ef á þarf að halda.
  • Laugið stunguna með sápu og vatni. Einnig má kæla hana með ísmolum í þvottastykki.
  • Fyrst eftir að hafa verið stunginn ætti að láta bitið í friði og til að draga úr bólgumyndun má halda stungusvæðinu upp á við.
  • Draga má úr kláða með kremi eða hlaupi með staðdeyfandi efni eða antihistamíni.
  • Ef viðkomandi hefur ofnæmi fyrir skordýrabiti skal ráðfæra sig við lækni áður en ferðast er og ef til vill hafa meðferðis antihistamín í töflu- eða sprautuformi - en aðeins í nánu samráði við lækni. Verið meðvituð um, að ef útbrot, kláði og almenn vanlíðan gera vart við sig gæti verið nauðsynlegt að kalla til lækni. Notið stax lyfin sem læknirinn hefur látið þig fá. Hafið síðan strax samband við lækni. Ef engin lyf er til skal koma viðkomandi strax undir læknishendur. Ekki má aka bíl vegna þess að viðkomandi gæti misst meðvitund.

Svo endar upptalningin á doktor.is á því að greina frá því að geitungsbit geti verið banvænt, rétt eins og skröltormsbit.

Býflugna- og geitungastungur geta verið banvænar. Mest hætta er á slíku ef mörg kvikindi stinga á sama tíma. Hætta er á ferðum ef þú ert stunginn í munn eða kok, þar sem slímhúðin getur bólgnað og stíflað öndunarveginn, einnig við heiftarleg ofnæmisviðbrögð.

Ekki hefur orðið vart við nein ofnæmisviðbrögð, ég var heppinn með það en nú er stingur í puttanum og merkilega við það er að verkurinn er langt frá upptakasvæði sársins. 

Nú skil ég betur af hverju fólki er illa við geitunga og kallar á mig þegar svoleiðis gesti ber að garði. Ég ætla að endurskoða varnaraðferðir mínar en halda mínu striki baráttunni við geitungana. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 107
  • Frá upphafi: 226402

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 99
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband