Losunarsvið 3

COP 28 ráðstefnan í Dubai lauk í vikunni, það er því tilefni að skoða losunarsvið 3 í loftslagsbókhaldi fyrirtækja en áður hefur verið fjallað um losun og hagnað í byrjun ráðstefnu.

Losunarsvið 3 (e. scope3) sýnir losun í virðiskeðju fyrirtækja. Bæði ílag og frálag. Losunarmælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð og lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).

Í  GHG staðlinum eru skilgreindir upp 15 losunarþættir. Þeir hafa verið valkvæðir en mun verða skylda á komandi árum með auknum kröfum alþjóðasamfélagsins. En ábyrgð stóru losunarfyrirtækjanna er mikil og þau verða að axla hana með því að kortleggja losunarsvið 3 vandlega.

Í rannsókn sem gerð á sjálfbærniskýrslum 3.200 fyrirtækja sem eru í MSCI World vísitölunni þá var niðurstaðan: 88% losunar er í losunarsviði 3. GHG Protocol hefur gefið út að 79% af losun sé í umfangi 3 og Carbon Trust research áætlar að losunin sé 65-95% í umfangi 3.

Mikilvægi losunarsviðs 3 felst í því að þar er stærsti hluti í heildar kolefnisfótspori fyrirtækis. Þó að losun sé mismunandi eftir atvinnugreinum. Með því að kortleggja losunarsvið 3 geta fyrirtæki haft yfirgripsmeiri og heildstæðari nálgun til að draga úr heildar umhverfisáhrifum sínum. Helstu kostir aðrir en að ná markmiði um kolefnishlutleysi eru: Alhliða áhrif, draga úr áhættu, þátttaka hagsmunaaðila og nýsköpunartækifæri.

Skoðum stöðuna í losunarsviðum hjá íslenskum fyrirtækjum sem losa meira en 20 þúsund tonn CO2.

Losunarsvið 3 - staðan í dag

Rauður litur í losunarsviðum segir að losunarbókhald er óviðunandi. Grænt þýðir að losunartala er rétt. Gulur litur er nálægt markmiði. Blár litur hjá Samherja er áætlun en fyrirtækið hefur ekki birt loftslagsbókhald sitt opinberlega.

Niðurstaðan er að aðeins rúm 100 þúsund tonn CO2 eða 2% losunar er í losunarsviði 3, virðiskeðjunni og það er mjög slök útkoma. Þegar öll fyrirtæki á Íslandi eru skoðuð, þá hækkar talan í 9%. Litlu fyrirtæki eru að standa sig miklu betur. Flugfélagið Play er með nokkuð gott loftslagsbókhald og eina sem uppfyllir alþjóðlega kröfur. Orkufyrirtækin geta gert betur en á góðri leið. Landsvirkjun er með vottun frá CDP en skv. gögnum frá CDP þá lítur út að eitthvað sé enn vantalið. Sjávarútvegsfyrirtækin sýna framfarir á hverju ári. Álfyrirtækin þrjú skila núll í losunarsviðið 3, það sýnir algert áhuga- og metnaðarleysi. Þó má hrósa ÍSAL fyrir að gera vel í losunarsviði 2, orkunotkun.

Hellnasker, hugveita í sjálfbærni, hefur reiknað út líklega niðurstöðu úr losunarsviðunum þrem og telur að svona eigi loftslagsbókhald fyrirtækjanna að vera.

Losunarsvið 3 - rétt staða

Losun í virðiskeðjunni er áætluð tæplega 9 milljón tonn CO2 eða 66% hlutfall af losunarsviði 3. Álfyrirtækin skulda að gefa upp rúmlega 5 milljón tonn. Kísiliðjurnar tvær, Elkem og PCC Bakki Silicon skulda 2,2 milljón tonn CO2 en mest óvissa er með þessa tölu.

Það er krafa um að lönd og stórfyrirtæki fylgi markmiðum Parísarsamkomulagsins og dragi úr losun um 50% fyrir 2030. Hefðu þessi fyrirtæki kortlagt losun í losunarsviði 3, þá væru þau að vinna að því að draga úr losun um tæplega 4,5 milljón tonn en þegar ekkert er gefið upp, þá þurfa menn ekki að greiða skatt. Vissulega er megnið af losuninni erlendis en allt tengist og neikvæðu áhrifin koma niður á okkur öllum.

Eins og sjá má þá getur hlutfall losunar verið breytilegt á milli atvinnugeira. Í flugi eru 80% losunar í losunarsviði 1 en 77% í losunarsviði 3 hjá álframleiðendum.

Stóru losunarfyrirtækin á Íslandi eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög (herlög) og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem stjórnvöld fylgja eftir.

Ljóst er að Íslendingar þurfa að taka sig verulega á ef Parísarsamkomulagið 2030 og markmiði kolefnishlutleysi 2040 á að nást.

Það er allt of ódýrt að menga!


Menga á daginn og grilla á kvöldin

COP28 loftslagsráðstefnan í Dubai hófst 30. nóvember 2023 og því er nauðsynlegt að skoða frammistöðu Íslenskra fyrirtækja sem losa meira en 20 þúsund tonn af CO2 á síðasta ári. En berjast þarf að krafti við að draga úr losun því hvert hitametið á fætur öðru hefur verið slegið á þessu ári. Haldi þessi þróun áfram mun hún hafa skelfi­legar afleið­ingar fyrir jarð­ar­búa, líf­ríki og vist­kerfi á jörð­inn­i.

Niðurstaðan úr loftslagsbókhaldi er sorgleg. Eins sést í töflunni þá sést að fyrirtækin juku losunina um 759 þúsund tonn CO2 eða 17%. Ef flugið er aðskilið þá er aukningin 4%. Þessi 22 fyrirtæki losa 4,4 milljón tonn CO2 og ábyrg fyrir 2/3 af losun Íslands fyrir utan landnotkun. Til að berjast gegn hlýnun jarðarinnar og ná markmiði að halda hlýnun jarðarinnar undir 1,5°C. og ná lögbundnum markmiðum Íslands 2030 þá þurfa fyrirtækin að draga losun saman um 8% árlega. Losun er losun sama úr hvaða losunarkerfi eða atvinnugeira hún kemur.

Sobril

Flugfélögin þrjú juku losun um tæp 600 þúsund tonn af CO2 eða eins og 300 þúsund nýir jarðefnabílar hafi bæst í bílaflotann. Allt stefnir í að þau losi enn meira á þessu ári.

Losun frá stóriðjunni jókst vegna aukinnar framleiðslu og ljóst að hún muni verða svipuð komandi ár.

Skipafélögin tvö losuðu um 600 þúsund tonn CO2 og ánægjulegt að heyra að þau ætli að taka sig á og hagræða í flutningum vegna losunarheimilda í stað þess að biðja um undanþágu.

Orkufyrirtækin þrjú bættu öll vel við sig vegna aukinnar framleiðslu. Ljóst er að losun mun aukast frá þeim með aukinni orkuframleiðslu.

Sjávarútvegsfyrirtækin bættu öll við sig og helsta ástæðan er að notuð voru 22 þúsund tonna af olíu til að bræða uppsjávarfisk en ekki var næg raforka í landi hinnar hreinu orku fyrir fiskimjölsverksmiðjurnar. Aukningin vegna bræðslunnar er eins og þrjú ár af rafbílavæðingu hafi verið þurrkuð út. Aukning hjá Síldarvinnslunni er vegna sameiningar við Vísi og 7,4 þúsund tonna af olíu til bræðslu sem losar 19 þúsund tonn CO2 eða ávinning af rafbílavæðingu í eitt ár!

Nú berast fréttir um orkuskerðingu frá Landsvirkjun og öfug orkuskipti framundan. Spurning er hvort gáfulegt sé að veiða loðnu beint til bræðslu þegar ástandið er svona.

Samherji er eina fyrirtækið á listanum sem ekki hefur gefið út sjálfbærniskýrslur og ekki viljað gefa losunartölur upp.

Gífurlegur hagnaður

Sjáið þið ekki veisluna? Hagnaður fyrirtækjanna fyrir skatta árið 2021 er gífurlegur eða 164 milljarðar. Beðið er eftir afkomutölum úr tímaritinu 300 stærstu en allt stefnir í að síðasta ár hafi gefið svipaða niðurstöðu. Þegar horft er á hlutina með augum sjálfbærni þá er mikið ójafnvægi á milli þriggja stoða, efnahags, samfélags og umhverfis en efnahagur trompar allt og fyrirtækin sýnt lítinn metnað í að bæta sig í umhverfismálum. Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu. Einnig hafa fyrirtækin verið dugleg að sækja um í opinberum sjóðum og keppa við fátæka námsmenn og nýsköpunarfyrirtæki. Það má því segja að fyrirtækin mengi á daginn og grilli á kvöldin!

Þegar fleiri þættir eru skoðaðir kemur í ljós að aðeins 1% af losuninni er bundið eða fangað en til að ná kolefnishlutleysi þarf losun og binding að vara jöfn. Landsvirkjun dregur hér vagninn.

Flest fyrirtækin eru með umhverfis- eða sjálfbærnistefnur og þar kemur fram að þau ætli að draga úr losun en þegar þessar rauðu tölur eru skoðaðar þá er eftirfylgni engin. Það er eins og stefnurnar séu til skrauts.

Losun í losunarsviði 3 (e. scope 3) er aðeins 2% hjá fyrirtækjunum en talið er að 88% losunar séu í virðiskeðjunni og ábyrgða fyrirtækjanna er mikil. Hellnasker hugveita hefur þegar kortlagt losun og niðurstaðan er að 9 milljón tonn af CO2 eru vantalin

Í gögnum frá Hagstofu Íslands kemur fram að 90% af losun kemur frá fyrirtækjum og 10% frá heimilum. En 60% af umhverfissköttum kemur frá heimilum og restin frá fyrirtækjum. Fyrirtækin losa en almenningur borgar brúsann. Þetta eru ekki réttlát umskipti.

Þegar þessi upptalning er skoðuð þá er eins og stjórnvöld hafa slegið skjaldborg um losunarfyrirtækin.

Neyðarlög

Til að ná árangri þá þurfa stjórnvöld að setja neyðarlög á þessi 22 fyrirtæki sem eiga 2/3 af losun landsins og setja í gjörgæslu. Skyldi þau til að gefa út staðfestar kolefnislosunartölur fyrir öll losunarsvið og fylgja Science Based Targets aðferðafræðinni. Þau þurfa að setja sér raunhæf markmið og metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

Stjórnvöld þurfa að spyrja þriggja spurninga í anda agile aðferðafræðinnar:

  • Hvað ætlið þið að gera í dag í loftslagsmálum?
  • Hvað gerðu þig í gær í loftslagsmálum?
  • Eru einhverjar hindranir?

 

Höfundur er félagi í Hellnaskeri, hugveitu um sjálfbærni.

Greinin birtist fyrst 30. nóvember í Skoðun á visir.is


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Des. 2023
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 107
  • Frá upphafi: 226730

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 95
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband