Móskarðshnjúkur (807 m)

Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.

Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.

Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.

Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt. 

Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.

Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."

Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).

Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni. 

Móskarðshnjúkur

Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.

Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður

Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.


Bloggfærslur 27. júlí 2017

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 226011

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband