Geitafell (509 m)

Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.

Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.

Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.

Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.

Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu.  Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.

Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla.  Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.

Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km.  Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.

Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina.  Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.

Geitafell

Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.

Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368  - W:21.28.243)

Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 – W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar. 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.

 

Heimildir

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2018
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 226005

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband