Einbreiða brúin yfir Steinavötn fórnarlamb loftslagsbreytinga

Loftslagið er að breytast með fordæmalausum hraða. Úrkoman í Ríki Vatnajökuls er afsprengi loftslagsbreytinga.

September hefur skapað af sér öflugustu hvirfilbili í langan tíma á Atlantshafi. Irma, Jose og María eru sköpuð í mánuðinum í hafinu. Rigningin sem dynur á okkur er erfingi þeirra. Allir þekkja Harvey og Irmu sem gerðu árásá Texas, Flórida og nálægar eyjar nýlega.

Eina jákvæða við þetta er að náttúran sér annars um að losa okkur við þessar einbreiðu brýr, ekki gera stórnmálamenn það. Í dag eru 20 einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, svartblett í umferðinni. Nú verða þær 19!

Brú yfir Steinavötn var ekki á Samgönguáætlun og svo hefur samgönguráðherra, Jón Gunnarsson vill lækka skatta í kosningaloforðum en setja veggjöld á alla staði. Það er ekkert annað en dulbúin skattheimta sem kemur ósanngjarnt niður. Rukki Jón 300 fyrir hverja einbreiða brú, þá kostar ferðalagið 5.700 kall í aukna skatta.

Bæjaryfirvöld í Ríki Vatnajökuls og hagsmunaðilar í ferðaþjónustinni hafa ekki verið nógu beitt við að krefjast úrbóta. Enda flestir í flokknum. Þeir mættu taka Eyjamenn og Reyknesinga sér til fyrirmyndar.

En hvað geta Skaftelleingar og fólk á jörðinni gert best gert til að minnka áhrif loftslagsbreytinga? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.

22096204_10212689127376144_2780405253543625020_o

Ég á myndir af hættulegustu stöðum landsins.
Brúin yfir Steinavötn er einn af þeim. Nú löskuð og búið að loka henni. Einbreið 102 m löng, byggð 1964.Loftslagsbreytingar eru orsök úrkomunnar. Öfgar í veðri aukast.


mbl.is Bygging bráðabirgðabrúar hefst á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat í ágúst 2017

Þann 13. ágúst sl. var farið yfir 21 einbreiða brú í Ríki Vatnajökuls, áhættumat var endurskoðað í þriðja sinn. En minnka má áhættu með áhættustjórnun.

Engar breytingar frá síðasta mati fyrir hálfu ári. 
En hrósa má Vegagerðinni fyrir að:
   - öll blikkljós loguðu og aðvaranir sýnilegar
   - 500 metra aðvörunarskilti og málaðar þrengingar voru sýnileg. 

En engin leiðbeinandi hámarkshraði. 
Morsárbrú var tekin í notkun í lok ágúst og því ber að fagna. Nú eru hættulegu einbreiðu brýrnar 20.

Forvarnir
Ekkert banaslys hefur orðið á árinu og ekkert alvarlegt slys.  Árið 2015 varð banaslys á Hólárbrú og mánuði síðar alvarlegt slys á Stigárbrú. Síðan var farið í úrbætur og blikkljósum fjölgað úr 4 í 21.
Forvarnir virka. 

Bílaumferð hefur rúmlega tvöfaldast frá páskum 2016. Umferð þá var um 1.000 bílar á dag en fer í 2.300 núna. Aukning á umferð milli ágúst 2016 og 2017 er 8%.

Á facebook-síðu verkefnisins er haldið um niðurstöður.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel

Haldi ökumaður áfram austur á land, þá eru nokkrar einbreiðar brýr og þar vantar blikkljós en umferð er minni. Það má setja blikkljós þar.

Endurskoðað áhættumat

Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls. 21 of margar!


Hólárjökull 2017

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Efri samsetta myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld og 13. ágúst 2017 í fallegu veðri. Tungan hefur aðeins styst á milli ára. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

En hvað getur almenningur best gert til að minnka sótsporið? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.

Hólárjökull 2017 og 2016

Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.

Fyrirtæki og almenningur þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.

Hólárjökull 2006 og 2015Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/

Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/

Hólárjökull 2016 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/2177752/?t=1470576153


Hafnarmúli (um 300 m)

Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu. 

Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.

Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:

Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.

Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.

Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.

Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg,"    Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.  

Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.

Hafnarmúli

Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.

Dagsetning: 2. ágúst 2017 – Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C 
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.

Heimild:

Lýsing Íslands:  Þorvaldur Thoroddsen  


Lónfell (752 m)

„og nefndu landið Ísland.“

"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið." 

Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.

Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost. 

Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu. 

Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.

Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.

Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.

Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.

Lónfell-Vatnsfjörður

Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.

Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?

Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur." 

"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.

Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"

Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.

Fjallasýn

Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.

Arnarfjörður

Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!

Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431  - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C 
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 226015

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband